Fara á efnissvæði
Til baka

Uppgjör Haga á 2. ársfjórðungi 2025/26

Sterkur rekstur og nýr verslunarkjarni í Færeyjum

Árshlutareikningur Haga hf. fyrir annan ársfjórðung 2025/26 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 16. október 2025. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars til 31. ágúst 2025. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf.

 

Helstu lykiltölur*

  • Vörusala 2F nam 51.817 m.kr. (11,2% vöxtur frá 2F 2024/25). Vörusala 6M nam 99.932 m.kr. (10,2% vöxtur frá 6M 2024/25). [2F 2024/25: 46.579 m.kr., 6M 2024/25: 90.646 m.kr.]
  • Framlegð 2F nam 12.874 m.kr. (24,8%) og 24.493 m.kr. (24,5%) fyrir 6M. [2F 2024/25: 10.174 m.kr. (21,8%), 6M 2024/25: 19.711 m.kr. (21,7%)]
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 2F nam 5.485 m.kr. eða 10,6% af veltu. EBITDA 6M nam 9.531 m.kr. eða 9,5% af veltu. [2F 2024/25: 4.014 m.kr. (8,6%), 6M 2024/25: 7.228 m.kr. (8,0%)]
  • Hagnaður 2F nam 2.556 m.kr. eða 4,9% af veltu. Hagnaður 6M nam 3.721 m.kr. eða 3,7% af veltu. [2F 2024/25: 1.723 m.kr. (3,7%), 6M 2024/25: 2.573 m.kr. (2,8%)]
  • Heildarafkoma 2F nam 2.452 m.kr. og 3.641 m.kr. fyrir 6M. [2F 2024/25: 1.723 m.kr., 6M 2024/25: 2.573]
  • Grunnhagnaður á hlut 2F var 2,33 kr. og 3,39 kr. fyrir 6M. [2F 2024/25: 1,59 kr., 6M 2024/25: 2,37 kr.]. Þynntur hagnaður á hlut 2F var 1,93 kr. og 2,99 kr. fyrir 6M. [2F 2024/25: 1,56 kr., 6M 2024/25: 2,33 kr.]
  • Eigið fé nam 39.302 m.kr. í lok tímabils og eiginfjárhlutfall 36,3%. [Árslok 2024/25: 38.489 m.kr. og 36,6%]
  • Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2025/26 var hækkuð um 1.000 m.kr. þann 22. september sl. og gerir ráð fyrir að EBITDA verði á bilinu 17.000-17.500 m.kr.

*SMS varð hluti af samstæðu Haga á 4. ársfjórðungi 2024/25 og gætir áhrifa þeirra því ekki í samanburðartölum fyrra árs.

 

Helstu fréttir af starfsemi

  • Rekstur á öðrum ársfjórðungi gekk vel og var umfram áætlanir stjórnenda - sterk afkoma er einkum vegna góðs reksturs Olís en einnig hefur rekstur SMS í Færeyjum gengið vel og eftirspurn á dagvörumarkaði verið kröftug
  • Heimsóknum viðskiptavina í dagvöru­verslanir (á Íslandi) fjölgaði um tæp 5% á fjórðungnum. Seldum stykkjum fjölgaði einnig eða um tæp 2% á sama tíma.
  • Seldum eldsneytislítrum fækkaði um 2,0% á fjórðungnum - aukin sala í smásölu en samdráttur hjá stórnotendum.
  • Framlegðarhlutfall nam 24,8% og hækkaði um 3,0%-stig á fjórðungnum - án áhrifa SMS nam framlegðarhlutfall 23,9%.
  • Vildarkerfi Haga hleypt af stokkunum á næstunni – aukin þjónusta, þægindi og hagkvæmni fyrir viðskiptavini.
  • Olís opnaði tvær nýjar ÓB stöðvar á fjórðungnum, í Búðardal og á Akureyri, auk nýrra Glans þvottastöðva á Selfossi og Grafarvogi.
  • Á fjórðungnum stóðu yfir framkvæmdir hjá SMS við uppbyggingu á tæplega 3.000 m2 verslunarkjarna í Runavík í Færeyjum – nýjar verslanir Bónus og Rumbul, auk veitingastaðar Sunset Boulevard og verslana 3. aðila, verða opnaðar í nóvember.
  • Hagar keyptu eigin hluti að upphæð 395 m.kr. á fjórðungnum - samtals 3,7 milljónir hluta að nafnvirði.

 

Finnur Oddsson, forstjóri:

Starfsemi Haga gengur vel á öllum sviðum félagsins. Tekjur og afkoma af rekstri á sumarmánuðum, öðrum fjórðungi rekstrarársins 2025/26, reyndist umfram áætlanir og var spá um rekstrarniðurstöðu uppfærð til samræmis þannig að nú er gert ráð fyrir að EBITDA ársins verði á bilinu 17.000 – 17.500 m.kr.

Vörusala á öðrum ársfjórðungi jókst um 11,2% miðað við sama tímabil í fyrra og nam 51.817 m.kr. Framlegð í krónum nam 12.874 m.kr., EBITDA 5.485 m.kr. og hagnaður 2.556 m.kr. – töluverð aukning á öllum afkomuþáttum á milli ára. Rekstur gekk vel á fjórðungnum en í samanburði við fyrra ár er mikilvægt að horfa til þess að SMS í Færeyjum er nú hluti af samstæðu Haga, sem og til þess að heimsmarkaðsverð olíu lækkaði á milli ára.

Á Íslandi voru tekjur tengdar verslunum og vöruhúsum tæplega 34,4 ma. kr., sem er aukning um 6,8% í samanburði við fyrra ár, og EBITDA-afkoma var 3,1 ma. kr. og styrktist um 5,1%. Viðskiptavinum sem heimsækja dagvöruverslanir félagsins hélt áfram að fjölga og seldum stykkjum einnig. Umsvif Bónus aukast á milli ára, en eins og fyrr er lágt vöruverð og virði fyrir viðskiptavini í forgrunni hjá Bónus um allt land. Með skilvirkum rekstri og hagkvæmum innkaupum hefur tekist að lækka verð á um 900 vörum á milli ára, samhliða því að úrval hefur verið aukið, einkum í ferskvöru eins og ávöxtum og grænmeti, heilsuvörum og tilbúnum réttum sem spara fjölskyldum krónur, tíma og fyrirhöfn. Aukinni þjónustu Bónus við barnafjölskyldur hefur verið vel tekið, en fleiri en 3.500 Barnabox frá Bónus hafa verið afhent nýbökuðum foreldrum og yfir 20 tonn af íþróttanammi Latabæjar hafa ratað í ísskápa heimila og nestisbox barna það sem af er ári. Tekjuaukning og fjölgun viðskiptavina hjá Hagkaup sýnir að viðskiptavinir kunna að meta fjölbreytt vöruúrval og stöðugar nýjungar í þjónustu. Margvíslegir spennandi viðburðir og tilboðsdagar hafa verið vel sóttir og aukning er í öllum netverslunum Hagkaups, allt frá snyrtivöru yfir í veislurétti. Starfsemi Aðfanga og Banana er í samræmi við góðan gang í dagvöruverslun og rekstur annara eininga, Eldum rétt, Stórkaups og Zara, gekk heilt yfir vel.

Rekstur Olís gekk vel á sumarmánuðum og styrktist afkoma umtalsvert á milli ára. Tekjur voru 14,1 ma. kr. og drógust saman um tæp 5%, sem skýrist aðallega af lækkun á heimsmarkaðsverði olíu miðað við fyrra ár, en selt magn til stórnotenda dróst einnig lítillega saman. Góða afkomu Olís má m.a. rekja til þess að vel hefur gengið að skerpa á starfsemi þjónustustöðva og í rekstri félagsins í heild. Þetta endurspeglast annars vegar í hagræði í rekstrarkostnaði og hins vegar í almennt aukinni sölu á smásölumarkaði, eldsneyti, almennri vörusölu, veitingum og nýjum þjónustuþáttum á borð við bílaþvott eða afhendingar póstsendinga. Sumarið var einnig gott þegar horft er til umferðar ferðamanna á vegum landsins. Á fjórðungnum hófst starfsemi á tveimur nýjum eldsneytisstöðvum ÓB, á Akureyri og í Búðardal, og nýjar Glans bílaþvottastöðvar opnuðu á Selfossi og í Grafarvogi.

Uppgangur er í starfsemi SMS í Færeyjum, m.a. í dagvöruverslun og rekstri veitingastaða. Tekjur námu 4 ma. kr., sem er umtalsverð aukning á milli ára og var afkoma vel umfram áætlanir. Áhersla hefur verið lögð á að fylgja eftir vaxtartækifærum í rekstri en í því samhengi hafa framkvæmdir í sumar við nýjan 3.000 m2 verslunarkjarna í eigu SMS í Runavík gengið vel. Gert er ráð fyrir að um miðjan nóvember opni þar verslanir og veitingastaðir SMS auk verslana á vegum þriðja aðila.

Innviðir Haga, innri ferlar og þekking á sviði stafrænnar þjónustu hafa tekið stakkaskiptum á undanförnum misserum og árum. Birtingarmynd þessarar þróunar er að finna í fjölda netverslana og nýrra þjónustuþátta sem standa viðskiptavinum til boða, s.s. netverslanir fyrir neytendur með leikföng eða snyrtivöru, fyrir stórnotendur með rekstrarvöru, ávexti og grænmeti, sjálfskönnunarlausnir í verslunum, öpp o.fl. Á grunni þessarar þekkingar og innviða verður á næstunni hleypt af stokkunum nýrri þjónustu við viðskiptavini, vildarkerfi Haga, þar sem viðskiptavinir munu upplifa aukna þjónustu, þægindi og hagkvæmni. Til framtíðar er gert ráð fyrir því að vildarkerfi Haga skapi undirstöðu til að veita viðskiptavinum fjölbreytta og bætta þjónustu á vettvangi Haga og samstarfsaðila.

Eins og alltaf beitum við okkur af einurð gegn hækkunum á aðföngum í dagvöruverslun og leitum hagkvæmustu innkaupa og annarra leiða til að bjóða viðskiptavinum upp á sem lægst verð úr búð. Þó svo ákveðinn árangur hafi náðst, sem endurspeglast m.a. í lækkun á verði á umtalsverðum hluta af vöruframboði Bónus, þá er matarverðbólga enn of há. Við treystum því að birgjar okkar gæti sérstaks aðhalds í verðhækkunum og um leið vonumst við til þess að stjórnvöld stuðli að stöðugleika og jafnvel lækkun verðlags á dagvöru.

Heilt yfir erum við ánægð með þróun samstæðu Haga þar sem áherslan síðustu tæp tvö ár hefur annars vegar verið á skilvirkni í rekstri og hins vegar á uppbyggingu nýrra stoða og tekjustrauma innan núverandi rekstrar. Góð byrjun á yfirstandandi rekstrarári endurspeglar að okkur miðar vel, afkoma er umfram áætlanir og við sjáum tækifæri til að styrkja starfsemi og rekstur enn frekar. Hagar búa að traustum fjárhag, öflugum rekstrarfélögum og frábæru starfsfólki sem leggur sig fram um að bæta lífskjör fjölda viðskiptavina sem sýna rekstrarfélögum okkar hollustu á hverjum degi. Þess vegna er staða Haga sterk og horfur í rekstri góðar.

 

Kynningarfundur föstudaginn 17. október 2025

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn á Nauthól, Nauthólsvegi 106 í Reykjavík, föstudaginn 17. október kl. 08:30. Þar munu Finnur Oddsson, forstjóri, og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, kynna rekstur og afkomu félagsins ásamt því að svara fyrirspurnum.

Fundinum verður auk þess streymt og er skráning á streymið hér: https://www.hagar.is/skraning.

Kynningargögn verða aðgengileg á heimasíðu Haga, www.hagar.is, við upphaf fundar.

 

Nánari upplýsingar veita Finnur Oddsson, forstjóri félagsins (fo@hagar.is), og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs (geg@hagar.is), í síma 530-5500 eða tölvupósti.

 

Árshlutareikningur 31.08.2025

Fréttatilkynning