Fara á efnissvæði

Um Haga

Hagar eru fjölskylda af fyrirtækjum sem að starfa á íslenskum matvöru-, sérvöru- og eldsneytismarkaði. Öll fyrirtæki Haga hafa það markmið að veita framúrskarandi þjónustu, selja gæða vörur á sanngjörnu verði og hafa um leið eins jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag og mögulegt er.

Á vegum Haga eru reknar átta sjálfstæðar rekstrareiningar með ólík rekstrarform og menningu. Allar einingarnar leggja áherslu á hagkvæman rekstur, góða þjónustu og hámörkun á virði fyrir eigendur félagsins. Rekstrareiningar Haga búa yfir áralangri þekkingu á viðskiptum og smásölu og byggja á trausti viðskiptavina sem áunnist hefur um langt árabil.

STERKARI SAMAN

Þó svo að allar rekstrareiningar hjá Högum séu reknar sem sjálfstæðar einingar þá trúum við því að við séum sterkari saman, m.a. með því að byggja á sameiginlegum innviðum og deila þekkingu. Hjá félögum Haga starfa um 2.600 starfsmenn í tæplega 1.500 stöðugildum sem á hverjum degi hafa áhrif á daglegt líf fólks í landinu með sínum störfum. Starfsfólk félagsins býr yfir áralangri þekkingu á verslun og hefur byggt upp viðskiptatengsl um allan heim við birgja og framleiðendur.

HÖFUM JÁKVÆÐ ÁHRIF

Hagar leggja áherslu á sjálfbærni í allri sinni starfsemi og taka virkan þátt í samfélagslegum verkefnum. Starfsfólk og stjórnendur Haga trúa því að það sé ekkert "plan B" og nálgumst við því öll verkefni með það fyrir augum að þau hafi jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag. Einnig taka rekstrareiningar Haga virkan þátt í fjölbreyttum lýðheilsu og samfélagslegum verkefnum.

HLUTVERK HAGA

Hlutverk Haga er að veita rekstrareiningum félagsins stuðning og aðhald í rekstri ásamt því að virkja rekstrar-, markaðs-, tækni- og viðskiptalega samlegð fyrirtækjanna til aukins hagræðis fyrir viðskiptavini og eigendur félagsins.

Allar rekstrareiningar Haga leggja áherslu á hagkvæman rekstur og góða þjónustu. Við leggjum áherslu á getu allra eininga til þess að hreyfa sig hratt og flækjum ekki einfalda hluti. Gildi Haga endurspegla þessi leiðarljós í rekstrinum.

Gildi Haga eru ÞjónustulundSamvinnaHagkvæmni og Framsækni.

REKSTRAREININGAR HAGA

Innan þeirra átta rekstrareininga sem Hagar starfrækja eru 40 matvöruverslanir, 22 Olís þjónustustöðvar og 44 ÓB-stöðvar um allt land. Einnig rekur félagið tvö vöruhús, eina framleiðslustöð, eina birgðaverslun, eina netverslun með matarpakka, og eina sérvöruverslun. Hagar eru skráðir á aðallista NASDAQ OMX Iceland með auðkenninu HAGA. Höfuðstöðvar félagsins eru að Holtavegi 10 í Holtagörðum, Reykjavík.

Dótturfélög í samstæðu Haga, þar sem rekstrareiningar félagsins eru starfræktar, eru Hagar verslanir ehf., Olís ehf., Bananar ehf., Noron ehf., Eldum rétt ehf. og Stórkaup ehf. 

Undir hatti Haga verslana ehf. eru fyrirtækin Bónus, Hagkaup og Aðföng. Bónus og Hagkaup eru tvær af stærstu matvöruverslunarkeðjum landsins og sinnir vöruhúsið Aðföng innflutningi, innkaupum og dreifingu fyrir matvörukeðjurnar auk þess að þjónusta Olís og Stórkaup.

Olís ehf. sérhæfir sig, auk annars, í sölu og þjónustu með eldsneyti. 

Bananar ehf. er stærsti dreifingaraðili á fersku grænmeti og ávöxtum á Íslandi. Noron ehf. rekur tískuvöruverslunina Zara í Smáralind. Eldum rétt ehf. býður viðskiptavinum matarpakka, með uppskriftum og hráefni, á netinu. Stórkaup ehf. er heildverslun sem þjónar stórnotendum með aðföng á breiðum grunni.