Fara á efnissvæði
Til baka

Hagar kaupa heildverslunina Dista ehf

Hagar hf. og eigendur Dista ehf. hafa náð samkomulagi um kaup Haga á öllu hlutafé Dista, en Dista er heildverslun með áfengar og óáfengar drykkjarvörur.

Dista heildverslun var stofnuð árið 2000 og hefur starfsemi félagsins vaxið jafnt og þétt frá stofnun. Dista er meðal annars samstarfsaðili þekktra drykkjavöruframleiðenda eins og Royal Unibrew, sem framleiðir m.a. bjórana Faxe, Royal og Slots auk úrvals óáfengra drykkja, og J. García Carrión sem er einn stærsti framleiðandi léttvíns og ávaxtasafa í Evrópu.

„Það er okkur mikið ánægjuefni að ná samkomulagi við eigendur Dista um kaup á félaginu. Vöruúrval Dista fellur vel að starfsemi Vínfanga, sem hefur um árabil verið innflutnings- og söluaðili fyrir fjölbreytt úrval léttvína frá helstu vínræktarsvæðum heims. Að auki verður ánægjulegt að geta boðið viðskiptavinum verslana Haga upp á ávaxtasafa og aðra óáfenga drykki frá samstarfsaðilum Dista, sem eru meðal þeirra fremstu í Evrópu.“ segir Finnur Oddsson, forstjóri Haga.

Seljendur Dista, Katrín Gunnarsdóttir og Sigurður Örn Bernhöft, segjast ánægð með samkomulagið sem opni ýmsa eftirsóknarverða möguleika fyrir birgja félagsins: „Við stóðum á tímamótum með fyrirtækið sem var að stækka og þróast frekar. Markaðurinn er óðum að breytast og er þetta því eðlilegt skref og til hagsbóta fyrir alla aðila.“

Kaupin eru gerð með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins.