Fara á efnissvæði
Til baka

Oddur Örnólfsson nýr framkvæmdastjóri Eldum rétt

Oddur Örnólfsson mun taka við stöðu framkvæmdastjóra Eldum rétt frá og með 1.júlí næstkomandi. Oddur, sem hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2015, tekur við keflinu af Val Hermannssyni en Valur er einn af stofnendum Eldum rétt. 

Oddur hefur starfað hjá fyrirtækinu nánast frá upphafi, og hefur yfir þann tíma tekið að sér mörg hlutverk. Hann er því vel kunnugur starfseminni en síðustu ár hefur Oddur starfað sem framleiðslustjóri Eldum rétt.

„Ég hlakka til að takast á við hlutverkið sem er að halda áfram að styrkja og stækka Eldum rétt með öllu því frábæra fólki sem þar starfar. Það eru spennandi tímar framundan, segir Oddur Örnólfsson, yfirmaður framleiðslu og verðandi framkvæmdastjóri Eldum rétt.

Valur Hermannsson kveður eftir viðburðamikil og skemmtileg ár hjá Eldum rétt, en hann hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra frá stofnun þess:  „Ég er afar stoltur af þessum tíma með Eldum rétt og öllu því sem við höfum áorkað, enda hefur fyrirtækið vaxið mikið á þessum tíu árum - úr nokkrum máltíðum á viku yfir í tugi þúsunda ánægðra viðskiptavina. Ég kveð þetta ævintýralega skeið og skil fyrirtækið eftir í góðum höndum hjá starfsfólki sem þekkir Eldum rétt afar vel.“ segir Valur Hermannsson, annar stofnenda Eldum rétt og fráfarandi framkvæmdastjóri.

„Undir forystu stofnenda og einvalaliðs starfsfólks hefur Eldum rétt fest sig rækilega í sessi sem þægileg, holl og gómsæt lausn sem æ fleiri fjölskyldur og einstaklingar reiða sig daglega á við matargerð á heimilum. Það hafa verið forréttindi að fá að taka þátt í árangursríkri uppbyggingu Eldum rétt síðustu tvö ár. Við þökkum Val Hermannssyni, annars af stofnendum Eldum rétt fyrir frábært samstarf og óskum honum góðs gengis í því sem hann tekur sér fyrir hendur næst. Að sama skapi hlökkum við til að vinna með nýjum framkvæmdastjóra, Oddi Örnólfssyni, að frekari vexti og viðgangi félagsins“ segir Finnur Oddsson, forstjóri Haga hf.

Eldum rétt er netverslun og áskriftarþjónusta sem var stofnuð árið 2014. Viðskiptavinir Eldum rétt panta matarpakka með uppskriftum og hráefni í réttu magni til að elda hollar og bragðgóðar máltíðir, með sem minnstri fyrirhöfn þar sem ekkert fer til spillis. Með Eldum rétt verður eldamennskan að skemmtilegri samverustund fyrir alla fjölskylduna. Hagar hf. festu kaup á Eldum rétt árið 2022.