Fara á efnissvæði
Til baka

Tekjuaukning á 1F og bætt afkoma milli ára

Uppgjör Haga hf. á 1. ársfjórðungi 2021/22

Árshlutareikningur Haga hf. fyrir fyrsta ársfjórðung 2021/22 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 25. júní 2021. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars til 31. maí 2021. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur hvorki verið kannaður né endurskoðaður af endurskoðendum félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf.

 

Helstu lykiltölur

 • Vörusala 1F nam 32.034 millj. kr. (2020/21: 28.241 millj. kr.).
 • Framlegðarhlutfall 1F var 21,4% (2020/21: 20,6%).
 • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 1F nam 2.278 millj. kr. (2020/21: 1.297 millj. kr.).
 • Hagnaður 1F nam 727 millj. kr. eða 2,3% af veltu (2020/21: tap 96 millj. kr. og -0,3% af veltu).
 • Hagnaður á hlut 1F var 0,63 kr. (2020/21: tap 0,08 kr.).
 • Eigið fé nam 25.906 millj. kr. í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 41,2% (Árslok 2020/21: 25.187 millj. kr. og 40,9%).
 • Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2021/22 gerir ráð fyrir að EBITDA verði 8.600-9.100 millj. kr.

 

Helstu fréttir af starfseminni

 • Fyrsti ársfjórðungur gekk vel með aukinni veltu og framlegð hjá öllum rekstrareiningum samstæðu.
 • Samanburður afkomu milli ára er hagstæður en fyrra ár markast af neikvæðum áhrifum af gengisfalli íslensku krónunnar og lækkun heimsmarkaðsverðs á olíu vegna COVID-19 faraldursins.
 • Áhrifa COVID-19 gætir enn og starfsemi á 1F litast að hluta af sóttvarnaraðgerðum yfirvalda til að takmarka afleiðingar faraldursins.
 • Seldum stykkjum í matvöruverslunum fækkar lítillega á 1F en heimsóknum viðskiptavina fer nú aftur fjölgandi eða um tæp 12% milli ára. Meðalkarfa hefur nú minnkað um rúm 4%.
 • Mikil veltuaukning og framlegðarbati hjá Olís eftir erfiðan 1F í fyrra. Magnaukning í eldsneytislítrum 30% milli ára.
 • Uppgjör vegna sölu Reykjavíkur Apóteks er lokið og hefur félagið verið afhent. Áhrif á afkomu á 1F eru jákvæð í rekstrarreikningi.
 • Útilíf verður afhent nýjum eigendum á 2F en öllum fyrirvörum vegna kaupanna hefur verið aflétt.
 • Hagar keyptu helmingshlut í Djús ehf., sem á og rekur veitingastaði Lemon. Beðið er samþykkis Samkeppniseftirlitsins.

 

Finnur Oddsson, forstjóri:

„Starfsemi og rekstur Haga á fyrsta fjórðungi rekstrarársins 2021/22 gekk vel.  Miðað við sama fjórðung í fyrra þá jókst vörusala um ríflega 13% og nam 32 ma.kr.  Framlegð styrktist hjá öllum einingum og EBITDA var 2.278 m.kr, sem er aukning um 76% milli ára. Hagnaður á fjórðungnum nam 727 m.kr. í samanburði við tap af rekstri Haga á sama tímabili í fyrra.  Við erum sérlega ánægð með þessa niðurstöðu og jákvæðan viðsnúning þar sem við sjáum bætingu í allri okkar starfsemi, hjá öllum rekstrareiningum. 

Samanburður á milli ára litast eðlilega af því að neikvæðra áhrif COVID-19 faraldursins gætti hvað mest á fyrsta fjórðungi síðasta rekstrarárs.  Þetta á einkum við hjá Olís þar sem gengisfall íslensku krónunnar, mikilli lækkun á heimsmarkaðsverði olíu og samdráttur í umferð hafði verulega neikvæð áhrif á rekstrarafkomu félagsins.  Það er því ánægjulegt að sjá núna á fyrstu mánuðum rekstrarársins að vörusala og framlegð Olís hafa styrkst verulega og áhrif hagræðingaraðgerða síðustu mánaða sjást vel í rekstri.  Með markvissri aðlögun á rekstri þjónustustöðva og útibúa, m.a. breyttum opnunartíma, þjónustuframboði og lokun tiltekinni eininga, hefur dregið úr kostnaði og afkoma batnað.  Þar munar miklu um að stöðugildum hjá Olís hefur fækkað um tæplega 18% frá árinu á undan.

Umsvif í verslun með dagvöru hafa haldið áfram að aukast, með ágætis tekjuaukningu hjá bæði Bónus og Hagkaup, framlegð hefur styrkst og afkoma einnig.  Við sjáum að heimsóknum viðskiptavina hefur heldur fjölgað eftir því sem slakað er á takmörkunum vegna sóttvarna, en um leið minnkar körfustærð lítillega.  Sérvöruverslanir Haga, ZARA og Útilíf, gengu einnig vel, sala jókst mikið og afkoma í samræmi við það.

Vinnu við að laga áherslur í rekstri samstæðu að nýrri stefnu miðar vel.  Við höfum einfaldað starfsemi félagsins með sölu á Reykjavíkur Apóteki og Útilíf, sem gerir okkur kleift að einbeita okkur enn frekar að kjarnastarfsemi á dagvöru- og eldsneytismarkaði. Því tengt, þá keyptu Hagar hlut í Djús ehf. sem rekur veitingastaði undir merkjum Lemon. Kaupin eru liður í því að styrkja vöruframboð á þjónustustöðvum Olís og eru í samræmi við breyttar þarfir viðskiptavina og aukna eftirspurn eftir hollum og ferskum valkostum. Nýlega frágengið samkomulag við Reykjavíkurborg um fækkun bensínstöðva mun á næstu árum leiða til breytinga á þjónustuneti Olís á höfuðborgarsvæðinu.  Eldsneytisstöðvum og dælum mun heldur fækka þegar þær víkja fyrir umhverfisvænni valkostum og þróun íbúða og atvinnuhúsnæðis á viðkomandi reitum.  Samkomulag okkar við Reykjavíkurborg þjónar markmiðum okkar um grænni framtíð, áhugaverða þróun byggðar og verðmætasköpun fyrir hluthafa.

Samfélagsábyrgð og sjálfbærni hafa svo fengið aukið vægi og höfum við rýnt alla okkar starfsemi m.t.t. áhrifa á umhverfi og samfélag, sett okkur skýr markmið og í fyrsta skipti gert grein fyrir þeim í samfélagskýrslum fyrir Bónus, Hagkaup og Olís. Við erum stolt af þessari vinnu og þeim jákvæðu áhrifum sem starfsemi Haga hefur á íslenskt samfélag.  Um leið trúum við því að við getum ávallt gert betur, ætlum okkur það og munum fylgja því eftir á næstu misserum.

Áhrif COVID-19 munu líklega fjara út á næstu vikum og við gerum ráð fyrir að ferðamannasumarið á Íslandi verði gjöfult, bæði vegna innlendra og erlendra ferðamanna. Um leið er líklegt að landsmenn fari í auknum mæli utan í sumar og haust sem mun hafa einhver áhrif á dagvöruveltu í verslunum hérlendis.  Þó svo nokkurrar óvissu gæti um þróun verslunar á næstu mánuðum eftir að faraldurinn er að baki, þá teljum við horfur í rekstri Haga góðar, bæði til skemmri og lengri tíma.  Fjárhagur félagsins er afar sterkur og það vel í stakk búið að fylgja eftir nýjum verkefnum í samræmi við stefnumótun. Eins og fyrr er markmiðið okkar með þeirri vinnu að efla hag viðskiptavina okkar með framúrskarandi verslun.“

 

Rafrænn kynningarfundur mánudaginn 28. júní 2021

Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn mánudaginn 28. júní kl. 8:30. Fundinum verður varpað í gegnum netið, þar sem Finnur Oddsson, forstjóri, og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, munu kynna rekstur og afkomu félagsins, ásamt því að svara fyrirspurnum.

Tekið verður við spurningum sem tengjast uppgjörinu á meðan á útsendingu stendur á netfangið fjarfestakynning@hagar.is og verður þeim svarað eins og kostur er í lok fundar.

Fundinum verður varpað í gegnum netið á slóðinni:
https://vimeo.com/event/1086672/embed/458a4d8295

Kynningargögn verða aðgengileg við upphaf fundar á heimasíðu Haga, www.hagar.is.

 

Nánari upplýsingar veita Finnur Oddsson, forstjóri félagsins (fo@hagar.is) og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs (geg@hagar.is), í síma 530-5500 eða tölvupósti.

 

Árshlutareikningur 1F 2021/22

Fréttatilkynning árshlutareiknings 1F 2021/22