Fara á efnissvæði
Til baka

Hagar hf.: Uppgjör Haga á 3. ársfjórðungi 2023/24

Aukin aðsókn í verslanir og þjónustu Haga

Árshlutareikningur Haga hf. fyrir þriðja ársfjórðung 2023/24 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 11. janúar 2024. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars til 30. nóvember 2023. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur hvorki verið kannaður né endurskoðaður af endurskoðendum félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf.

Helstu lykiltölur

  • Vörusala 3F nam 43.683 m.kr. (8,6% vöxtur frá 3F 2022/23). Vörusala 9M nam 130.482 m.kr. (7,1% vöxtur frá 9M 2022/23). [3F 2022/23: 40.220 m.kr., 9M 2022/23: 121.832 m.kr.]
  • Framlegð 3F nam 9.062 m.kr. (20,7%) og 27.037 m.kr. (20,7%) fyrir 9M. [3F 2022/23: 7.301 m.kr. (18,2%), 9M 2022/23: 23.248 m.kr. (19,1%)]
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 3F nam 3.230 m.kr. eða 7,4% af veltu. EBITDA 9M nam 10.223 m.kr. eða 7,8% af veltu. [3F 2022/23: 2.598 m.kr. (6,5%), 9M 2022/23: 9.635 m.kr. (7,9%)]
  • Hagnaður 3F nam 1.116 m.kr. eða 2,6% af veltu. Hagnaður 9M nam 3.853 m.kr. eða 3,0% af veltu. [3F 2022/23: 910 m.kr. (2,3%), 9M 2022/23: 4.214 m.kr. (3,5%)]
  • Grunnhagnaður á hlut 3F var 1,03 kr. og 3,50 kr. fyrir 9M. [3F 2022/23: 0,82 kr., 9M 2022/23: 3,74 kr.]. Þynntur hagnaður á hlut 3F var 1,01 kr. og 3,43 kr. fyrir 9M. [3F 2022/23: 0,82 kr., 9M 2022/23: 3,67 kr.]
  • Eigið fé nam 26.997 m.kr. í lok tímabils og eiginfjárhlutfall 35,3%. [Árslok 2022/23: 27.931 m.kr. og 38,8%]
  • Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2023/24 gerir ráð fyrir að EBITDA verði 12.900-13.400 m.kr.

 

Helstu fréttir af starfsemi

  • Rekstur á 3F gekk vel og var afkoma umfram áætlanir félagsins. Afkomuspá var endurskoðuð og hækkuð seinni hluta desembermánaðar.
  • Vörusala jókst um 8,6% á 3F en seldum stykkjum í dagvöruverslunum fjölgaði um 3,6% milli ára og heimsóknum viðskiptavina fjölgaði sömuleiðis, eða um 8,6% á fjórðungnum. Seldum eldsneytislítrum fjölgaði um 1,6% á fjórðungnum.
  • Afkomu umfram áætlanir má m.a. rekja til aukinnar aðsóknar í verslanir Haga, þá einkum í dagvöruhluta samstæðunnar, en einnig hefur áfram verið sterk eftirspurn í eldsneytishluta samstæðunnar.
  • Framlegð í krónum talið eykst um 24,1% milli ára og framlegðarhlutfallið nemur 20,7% eða hækkun um 2,6%-stig milli ára. Styrking framlegðar frá fyrra ári tengist að stærstum hluta starfsemi Olís og sveiflum í heimsmarkaðsverði olíu, en framlegðarhlutfall í dagvöru hefur einnig batnað lítillega.
  • Á fyrra ári var meðal annarra rekstrartekna færð einskiptis endurgreiðsla vegna flutningsjöfnunarsjóðs að fjárhæð 451 m.kr.
  • Bónus opnaði nýja 2.200 m2 matvöruverslun í Miðhrauni í Garðabæ þann 25. nóvember sl. Verslanir Bónus eru nú 33 talsins.
  • Þann 1. desember var tilkynnt um að Hagar ásamt meðeigendum hefðu hafið vinnu við skoðun á stefnu og framtíðarmöguleikum á eignarhaldi Olíudreifingar ehf., sem er í 40% eigu Olís.

 

Finnur Oddsson, forstjóri:

Starfsemi Haga hf. á þriðja ársfjórðungi rekstrarársins 2023/24 gekk vel. Vörusala samstæðu nam 43,7 ma. kr. og jókst um 8,6% miðað við sama tímabil árið á undan. Afkoma styrktist á fjórðungnum og var heldur umfram áætlun og fyrra ár, en EBITDA nam 3.230 m.kr. og hagnaður 1.116 m.kr. Í ljósi þess hve rekstrarumhverfi í dagvöruverslun hefur verið ögrandi, með áframhaldandi hækkun á verði aðfanga og rekstrarkostnaði á haustmánuðum, þá erum við ánægð með rekstur félagsins á fjórðungnum og það sem af er ári.

Umsvif jukust áfram og afkoma batnaði þvert á samstæðu Haga. Ef horft er til starfsþátta, þá er sem fyrr ágætur vöxtur í tekjum verslana og vöruhúsa, þ.e. Bónus, Hagkaup, Eldum rétt, Zara, Aðföng og Bananar. Tekjur jukust um tæp 16%, að hluta vegna áhrifa verðhækkana frá heildsölum og framleiðendum sem hafa nú verið viðvarandi allt frá árinu 2020.  Það er hins vegar ánægjulegt að sjá raunvöxt tekna, sem er afleiðing þess að aðsókn í verslanir Haga og þjónustu Eldum rétt hefur aukist töluvert, bæði talið í fjölda viðskiptavina og seldum einingum. Afkoma starfsþáttarins batnar áfram, bæði vegna aukinnar eftirspurnar en einnig vegna þess að framlegð hefur heldur styrkst frá hausti 2022 þegar hún var lág í sögulegu samhengi.

Ný verslun Bónus opnaði í Miðhrauni, Garðabæ, í lok nóvember og fer vel af stað, eins og aðrar verslanir Bónus sem opnaðar voru eða endurbættar á árinu. Tekjur jukust áfram og æ fleiri viðskiptavinir sækja Bónus heim.  Loforð um hagkvæmustu matvörukörfu landsins á greinilega vel við á tímum verðbólgu og hárra vaxta. Því til viðbótar þá hafa viðskiptavinir tekið nýbreytni í starfsemi Bónus vel síðustu misseri, eins og lengri opnunartíma, auðveldara aðgengi og þægindi og tímasparnað í verslunarferðum sem næst með skönnunarlausn eins og Gripið & Greitt. Hagkaup og Zara áttu sterka haustmánuði og eðli máls samkvæmt hafa umsvif í Banönum og Aðföngum aukist í takti við verslanir. Til að mæta aukningunni er unnið að stækkun vöruhúsa Aðfanga, en fyrsta stóra áfanga þeirrar vinnu lauk í nóvember.   

Fyrsta heila ári Eldum rétt sem hluti af Högum lauk í október og gekk vel, með mikilli fjölgun seldra matarpakka í samanburði við árið á undan. Félagið er frábær viðbót við þjónustuframboð Haga og velgengni síðasta árs endurspeglar ánægju viðskiptavina og þá staðreynd að stöðugt fleiri landsmenn nýta Eldum rétt til að auðvelda og bæta matseld á heimilum. Til að anna eftirspurn voru framleiðslurými stækkuð á síðasta ári, en við sjáum mikil tækifæri til frekari vaxtar Eldum rétt á næstu mánuðum og misserum.

Tekjur Olís á fjórðungnum námu 13,8 ma. kr., sem er 7% samdráttur frá fyrra ári sem skýrist fyrst og fremst af einskiptisliðum og lækkun heimsmarkaðsverðs olíu á milli tímabila. Nokkur aukning var í heildarfjölda seldra lítra, vegna góðrar sölu til stórnotenda en umsvif á smásölumarkaði voru svipuð á milli ára. Sala á þurrvöruflokkum jókst einnig á milli ára, í samræmi við góðar móttökur viðskiptavina við aðlöguðu og bættu þjónustu- og vöruframboði á þjónustustöðvum Olís. Að teknu tilliti til einskiptisliða sem höfðu töluverð áhrif á afkomu Olís á sama fjórðungi fyrir ári, þá batnar afkoma starfsþáttarins, m.a. vegna mikilla umsvifa stórnotenda og hagræðis vegna skipulagsbreytinga.

Við erum ánægð með rekstur samstæðunnar á fjórðungnum og þróun síðustu misseri. Stoðir í rekstri félagsins hafa styrkst og endurspeglast það í bættri afkomu. Þar skiptir mestu aukið hagræði í rekstri, meiri umsvif hjá öllum rekstrareiningum Haga, nýjar einingar og afrakstur stefnumarkandi ákvarðana.

Viðfangsefni okkar á næstu mánuðum eru óbreytt, þ.e. að vinna að áframhaldandi styrkingu félagsins og sérstaklega að beita okkur gegn þrálátum verðhækkunum í dagvöru og styðja þannig við hjöðnun verðbólgu. Því tengt, þá gætir enn óróa á mörkuðum fyrir dagvöru, m.a. vegna nýrra stríðsátaka erlendis, og heildsalar og framleiðendur hafa margir boðað verðhækkanir um og upp úr áramótum. Það er bót í máli að svo virðist sem heldur hafi hægt á verðhækkunum aðfanga til dagvöruverslunar í samanburði við síðasta ár, en vonir standa til að svo verði áfram. Hagar leggja, í samstarfi sínu við birgja, ríka áherslu á að sporna við verðhækkunum og styðja þannig við forsendur kjarasamninga. Við teljum þetta raunar vera eitt okkar allra mikilvægasta verkefni í dag. 

Heilt yfir, þá er staða Haga góð, bæði fjárhagsleg og á markaði og félagið býr að sterkum rekstrareiningum og öflugu teymi starfsfólks sem vinnur hvern dag að því að gera verslun þægilega, skemmtilega og ekki síst hagkvæma. Horfur í rekstri eru almennt góðar.

 

Rafrænn kynningarfundur í dag, fimmtudaginn 11. janúar 2024

Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn í dag, fimmtudaginn 11. janúar kl. 16:00, þar sem Finnur Oddsson, forstjóri, og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, munu kynna rekstur og afkomu félagsins ásamt því að svara fyrirspurnum.

Tekið verður við spurningum sem tengjast uppgjörinu á meðan á útsendingu stendur á netfangið fjarfestakynning@hagar.is og verður þeim svarað eins og kostur er í lok fundar.

Fundinum verður streymt og er skráning á fundinn hér: https://www.hagar.is/skraning

Kynningargögn eru hér meðfylgjandi og eru auk þess aðgengileg á heimasíðu Haga, www.hagar.is, við upphaf fundar.

 

Nánari upplýsingar veita Finnur Oddsson, forstjóri félagsins (fo@hagar.is), og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs (geg@hagar.is), í síma 530-5500 eða tölvupósti.

 

Árshlutareikningur 30.11.2023

Fréttatilkynning vegna uppgjörs 3F

Fjárfestakynning vegna uppgjörs 3F