Fara á efnissvæði
Til baka

Hagkaup fyrsta íslenska matvörukeðjan sem kolsýruvæðir allar verslanir

Hag­kaup er fyrsta ís­lenska matvörukeðjan sem kol­sýru­væðir all­ar versl­an­ir sín­ar. En hvað þýðir það og af hverju skiptir það máli?

Kælikerfi í verslunum á Íslandi, sem og erlendis, ganga enn að stórum hluta fyrir kælimiðlinum freon. Kolsýruvæðing felur það í sér að eldri kælikerfum sem ganga fyrir freon er skipt út fyrir nýrri kerfi sem ganga fyrir koltvísýringi.  Útfösun á freoni er mikilvægt umhverfismál, enda hefur leki á efninu gríðarleg gróðurhúsaáhrif og stuðlar á sama tíma að eyðingu ósonlagsins.

„Sjálf­bærni veg­ferð Hag­kaups hófst með al­mennri vakn­ingu í sam­fé­lag­inu og með sönn­um áhuga stjórnenda á sam­fé­lags­legri ábyrgð fyr­ir­tækja og um­hverf­is­mála. Þessi veg­ferð er okk­ur hjart­ans mál og ég er svo hepp­inn að fá að vera á vakt­inni á þess­um tím­um og fá tæki­færi sem stjórn­andi í mínu fyr­ir­tæki að gera bet­ur og það er ein­mitt það sem við erum að vinna í. Eitt af stóru mál­un­um sem við höf­um verið að vinna í er að kolsýruvæða versl­an­ir Hag­kaups. Við erum að skipta út freoni sem hef­ur í gegn­um tíðina verið aðalkælimiðill­inn en er mjög slæmt efni fyr­ir um­hverfið og því mikið kapps­mál að út­rýma því. Kælarn­ir hjá okk­ur eru auðvitað ekki þannig að við sting­um þeim í sam­band held­ur eru þeir kæld­ir í gegn­um lagn­ir í loft­inu og í gegn­um þær flæðir annaðhvort freon eða kol­sýra,“ segir Svanberg Halldórsson rekstrarstjóri verslana og rekstrarsviðs Hagkaups, sem hefur leitt þetta verkefni innan Hagkaup.

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna leka af kælikerfum Hagkaups var 212 tonn af koltvísýringsígildum árið 2023 og hefur lækkað um 46% frá því að mælingar hófust 2021. Með því að kolsýruvæða síðustu verslunina má búast við því að umrædd losun verði hverfandi. Árlegur sparnaður í losun sem myndast við kolsýruvæðingu Hagkaups frá upphafi mælinga jafngildir því að Hagar rafvæði 50% þeirra bifreiða samstæðunnar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.

Þetta góða verkefni hefur verið unnið í góðri samvinnu við Kælitækni sem voru Hagkaup innan handar að skipta út freoni fyrir íslenska kolsýru, sem ekki eingöngu er íslensk heldur líka töluvert skaðminni fyrir umhverfið. Að auki eru kolsýruvædd kælikerfi ekki eins orku­frek og hlýst því mik­ill orku­sparnaður af skiptunum. Þá er einnig í gangi sú vinna að skipta út opnum kælieiningum í lokaðar, og eykur það enn frekar á orkusparnaðinn.