Hagkaup er fyrsta íslenska matvörukeðjan sem kolsýruvæðir allar verslanir sínar. En hvað þýðir það og af hverju skiptir það máli?
Kælikerfi í verslunum á Íslandi, sem og erlendis, ganga enn að stórum hluta fyrir kælimiðlinum freon. Kolsýruvæðing felur það í sér að eldri kælikerfum sem ganga fyrir freon er skipt út fyrir nýrri kerfi sem ganga fyrir koltvísýringi. Útfösun á freoni er mikilvægt umhverfismál, enda hefur leki á efninu gríðarleg gróðurhúsaáhrif og stuðlar á sama tíma að eyðingu ósonlagsins.
„Sjálfbærni vegferð Hagkaups hófst með almennri vakningu í samfélaginu og með sönnum áhuga stjórnenda á samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja og umhverfismála. Þessi vegferð er okkur hjartans mál og ég er svo heppinn að fá að vera á vaktinni á þessum tímum og fá tækifæri sem stjórnandi í mínu fyrirtæki að gera betur og það er einmitt það sem við erum að vinna í. Eitt af stóru málunum sem við höfum verið að vinna í er að kolsýruvæða verslanir Hagkaups. Við erum að skipta út freoni sem hefur í gegnum tíðina verið aðalkælimiðillinn en er mjög slæmt efni fyrir umhverfið og því mikið kappsmál að útrýma því. Kælarnir hjá okkur eru auðvitað ekki þannig að við stingum þeim í samband heldur eru þeir kældir í gegnum lagnir í loftinu og í gegnum þær flæðir annaðhvort freon eða kolsýra,“ segir Svanberg Halldórsson rekstrarstjóri verslana og rekstrarsviðs Hagkaups, sem hefur leitt þetta verkefni innan Hagkaup.
Losun gróðurhúsalofttegunda vegna leka af kælikerfum Hagkaups var 212 tonn af koltvísýringsígildum árið 2023 og hefur lækkað um 46% frá því að mælingar hófust 2021. Með því að kolsýruvæða síðustu verslunina má búast við því að umrædd losun verði hverfandi. Árlegur sparnaður í losun sem myndast við kolsýruvæðingu Hagkaups frá upphafi mælinga jafngildir því að Hagar rafvæði 50% þeirra bifreiða samstæðunnar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.
Þetta góða verkefni hefur verið unnið í góðri samvinnu við Kælitækni sem voru Hagkaup innan handar að skipta út freoni fyrir íslenska kolsýru, sem ekki eingöngu er íslensk heldur líka töluvert skaðminni fyrir umhverfið. Að auki eru kolsýruvædd kælikerfi ekki eins orkufrek og hlýst því mikill orkusparnaður af skiptunum. Þá er einnig í gangi sú vinna að skipta út opnum kælieiningum í lokaðar, og eykur það enn frekar á orkusparnaðinn.