Fara á efnissvæði
Til baka

Hagar styrkja íslenska frumkvöðla í matvælaframleiðslu

Tólf íslenskir frumkvöðlar í matvælaframleiðslu hafa hlotið alls 15 milljóna króna styrk frá Uppsprettunni, nýsköpunarsjóði Haga, til að vinna að nýsköpun í matvælaiðnaði og efla íslenska matvælaframleiðslu. Þetta er í þriðja sinn sem Uppsprettan veitir styrki og hefur þátttaka aldrei verið meiri, en á fjórða tug nýsköpunarfyrirtækja sóttu um styrk. Markmiðið er að sem flestar af vörunum sem hlutu styrk verði fáanlegar í hillum verslana Haga innan tíðar.

Finnur Oddsson, forstjóri Haga, afhenti styrkina á gólfinu í Hagkaup Smáralind. Verkefnin sem hlutu styrk eru virkilega fjölbreytt og má þar nefna Hreppamjólk sem kemur með nýja sykurlausa jógúrt á markað, Sýru sem framleiðir súrsað grænmeti úr íslensku hráefni og Arctic Pies sem eru forbakaðar bökur að áströlskum hætti sem hægt er að hita upp.

Hlutverk Uppsprettunnar, er að styðja við frumkvöðla á sviði þróunar og nýsköpunar í íslenskum matvælaiðnaði með sérstaka áherslu á sjálfbærni og innlenda framleiðslu.

Finnur Oddsson, forstjóri Haga: „Við erum sérlega ánægð með þátttökuna í ár sem fór fram úr öllum væntingum, og það fer ekki á milli mála að Uppsprettan er búin að stimpla sig rækilega inn hjá íslenskum frumkvöðlum í matvælaframleiðslu. Okkur bárust margar góðar hugmyndir í ár og okkur hlakkar til að vinna með þessum kraftmiklu frumkvöðlum og hugsjónafólki sem hlutu styrk í ár. Áður en við vitum af verða þessar vörur komnar í hillur verslana  og ég veit matgæðingar hér heima eigi eftir að taka þeim fagnandi.“

Arctic Pies:

Frumkvöðlafyrirtæki sem framleiðir fyrst og fremst bökur að áströlskum hætti. Bökurnar eru gerðar alveg frá grunni úr smjördeigi og til eru mismunandi gerðir, t.d. kjötbökur, grænmetis/vegan og sætar bökur.  Bökurnar hafa verið seldar á matarhátíðum við miklar vinsældir og verða núna seldar í verslunum.

Casa Italia:

Er íslenskt frumkvöðlafyrirtæki sem framleiðir íslenskt ferskt pasta og notar auðvitað íslenska vatnið í sína framleiðslu. Þau munu framleiða mismunandi pasta ss: spaghettí, penne, fusilli ásamt fylltu pasta og lasagna. 

Dragon Dim Sum:

Er frumkvöðlafyrirtæki sem hefur verið að selja Dragon Dim Sum „dumplings“ til veitingahúsa. Nú fáum við að njóta þess að kaupa óeldað „dumplings“ ásamt Dragon Dim Sum sósum í verslunum og elda heima, enda eru þeir langbestir nýeldaðir.

Fimma:

Er frumkvöðlafyrirtæki sem framleiðir frostþurrkað ávaxta- og grænmetisduft úr grænmeti og ávöxtum sem annars væru vannýtt. Duftið er ætlað til notkunar í drykki eins og búst og auðveldar fólki inntöku grænmetis og ávaxta sem hjálpar þeim að uppfylla neysluviðmið landlæknis.

Fine Foods Íslandica:

Er frumkvöðlafyrirtæki sem er fyrst á Íslandi til að framleiða þang (seaweed) og nýta það áfram í þróun á kryddum og öðru sem bragðbætir matinn.  Þangið er framleitt á umhverfisvænan hátt.

Hreppamjólk:

Fjölskyldubúið Hreppamjólk ætlar að koma með á markað gerilsneyddar og ófitusprengda drykkjarjógúrt án sykurs. Við munum fá að njóta nokkurra bragðtegunda í nýju jógúrtlínunni.

Íslensk Sveppasósa:

Er frumkvöðlafyrirtæki sem ætlar að þróa úrvals sósublöndu úr villtum vestfirskum sveppum. Þau munu nota bæði lerki- og furusveppi í sínar vörur.

Kaja og Ebba:

Karen frá Kaja organic og Ebba Guðný frá Pure Ebba hafa tekið höndum saman og eru að þróa frosna glútenlausa pizzabotna þar sem brauðblanda Kaju er grunnurinn og uppskriftin kemur frá Ebbu.

Loki Foods:

Frumkvöðlafyrirtæki sem framleiðir matvæli sem líkjast kjöti og fisk úr grænmetisafurðum. Spennandi vöruframboð fyrir vegan og grænkera.

Svava sinnep:

Er íslenskt matarhandverk sem að grunni er byggt á sænskri sinnepshefð en er að öllu leiti framleidd hér á Íslandi. Nú verður hægt að fá Svövu sinnep í gjafaumbúðum, hin fullkomna tækifærisgjöf.

Sýra:

Er frumkvöðlafyrirtæki sem hefur verið að framleiða íslenskt Kimchi fyrir veitingahús. Nú verður hægt að fá alíslenskt súrsað grænmeti úr íslensku hráefni í verslunum. Fyrsta varan verður sterkt og bragðgott Kimchi.

Treatalicious:

Er frumvöðlafyrirtæki sem ætlar að bjóða íslenskum hundaeigendum upp á fyrsta flokks nammi fyrir hundana sína.  Hundanammið verður framleitt úr hliðarafurðum sláturhúsa.