Fara á efnissvæði
Til baka

Ný Bónus verslun opnuð á Akureyri

Ný matvöruverslun Bónus hefur verið opnuð í verslunarkjarnanum Norðurtorgi á Akureyri. Verslunin er rúmlega 2000 fermetrar og er staðsett við hliðina á Rúmfatalagernum og Ilva. Bónus er með tvær aðrar verslanir á Akureyri við Langholt og Kjarnagötu. Nýja verslunin á Norðurtorgi er því þriðja Bónus verslunin á Akureyri.  

„Við erum afar ánægð með nýju verslunina á Norðurtorgi og lítum á svæðið sem framtíðarverslunarsvæði á Akureyri. Gott aðgengi er að versluninni sem er með fjölda bílastæða og rafhleðslustöðvar. Nýja versluninn er byggð á grænum grunni og þar er að mörgu að huga. Til dæmis notum við íslenskan CO2 kælimiðla fyrir kæli- og frystivélar sem er frá Hæðarenda í Grímsnesi. Einnig eru Led lýsingar sem spara orku í allri versluninni, bæði að utan sem innan. Rúmgott svæði er til sorpflokkunar þar sem viðskiptavinir geta flokkað umbúðir og losað sig við ílát eftir innkaup. Sérstök áhersla er á umhverfisvænar umbúðir og fjölnota burðarpoka. Verslunin mun hafa að leiðarljósi að efla þjónustu við íbúa Norðurlands og leggja sérstaka áherslu á að bjóða vörur úr nærumhverfi. Vöruúrval verslunarinnar mun verða fjölbreytt og á sama lága verðinu og er í Bónus um allt land“ segir Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus.