Fara á efnissvæði
Til baka

Mímir Hafliðason ráðinn forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Högum

Mímir Hafliðason hefur verið ráðinn forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Högum, en staðan er ný innan samstæðunnar. Auk þess að leiða verkefni á sviði viðskiptaþróunar mun Mímir taka virkan þátt í stefnumótun fyrir Haga og dótturfélög sem og í vinnu sem tengist mögulegum kaupum og sölum á fyrirtækjum.

Mímir hefur að undanförnu starfað sem ráðgjafi hjá alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Company í Danmörku. Þar áður starfaði Mímir um nokkurra ára skeið í stefnumótunarteyminu hjá Marel þar sem hann kom að ýmsum stefnumarkandi verkefnum og fjölda yfirtaka.

Mímir er með MBA gráðu frá Harvard Business School, og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

„Rekstur Haga hefur gengið vel á undanförnum árum, þar sem áhersla hefur verið lögð á að einfalda starfsemi og styrkja helstu rekstrareiningar. Eins og áður hefur komið fram munum við halda áfram að styrkja núverandi stoðir í rekstrinum, en því til viðbótar verður lögð aukin áhersla á viðskiptaþróun og vaxtartækifæri almennt. Þetta þýðir í raun að við munum í auknum mæli horfa til nýrra tækifæra, bæði þeirra sem tengjast okkar starfsemi beint, en einnig til nýrra tekjustrauma eða stoða til viðbótar við okkar kjarnastarfsemi í dag. Það er því sérstaklega ánægjulegt að fá Mími með okkur í þessa vegferð. Hann býr að reynslu sem mun nýtast Högum vel í þeim verkefnum sem framundan eru. Við bjóðum Mími velkominn í hópinn og hlökkum til samstarfsins.“ segir Magnús Magnússon, aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri stefnumótunar og rekstrar hjá Högum.