Fara á efnissvæði

Á vegum Haga eru reknar átta sjálfstæðar rekstrareiningar með ólík rekstrarform og menningu. Allar einingarnar leggja áherslu á hagkvæman rekstur, góða þjónustu og hámörkun á virði fyrir viðskiptavini og eigendur félagsins. Rekstrareiningar Haga búa flestar yfir áralangri þekkingu á viðskiptum og smásölu og byggja á trausti viðskiptavina sem áunnist hefur um langt árabil.

STEFNA HAGA UM SAMFÉLAGSLEGA ÁBYRGÐ

Hagar hafa lagt metnað frá upphafi í að þjóna íslenskum neytendum með ábyrgum hætti. Stefna Haga um samfélagslega ábyrgð er langtímaáætlun félagsins um hvernig það getur lagt sitt af mörkum til betra og heilbrigðara samfélags og umhverfis, samhliða heilbrigðum rekstri.

Stefna Haga um samfélagslega ábyrgð byggir á fimm meginstoðum.

Stoðirnar móta áherslur félagsins og þau lykilverkefni sem unnið er að hverju sinni. Meginstoðirnar fimm í stefnunni eru ekki innbyrðis háðar og ein stoð er ekki annarri mikilvægari.

Stefnan segir auk þess til um hvernig samskiptum við hagsmunaaðila verði háttað. Helstu hagsmunaaðilar Haga eru starfsfólk, hluthafar, viðskiptavinir, birgjar og fjármögnunaraðilar, fjölmiðlar auk samfélagsins í heild sinni. Samfélagsleg ábyrgð er hluti af grunnrekstri félagsins og er höfð að leiðarljósi við ákvarðanatöku í öllum málefnum. Við mat á árangri skal horft til þeirra áhrifa sem félagið hefur á samfélag sitt og umhverfi, auk arðsemi.

Hagar hafa sett sérstaka stefnu í umhverfismálum fyrir Haga og dótturfélög. Stefnan er sett fram í þeim tilgangi að leggja áherslu á umhverfissjónarmið í öllum daglegum rekstri.

Hagar eru aðilar að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð. Einnig hafa Hagar gert samning við Klappir Grænar Lausnir hf. en markmið með samningnum er að ná mælanlegum árangri í umhverfismálum og málum tengdum sjálfbærni. Hagar eru bakhjarlar Grænvangs, samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um loftlagsmál og grænar lausnir. 

HEIMSMARKMIÐ SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA

Hagar hafa valið sex af sautján heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna til þess að styðja enn frekar við stefnu félagsins í samfélagslegri ábyrgð. Markmiðin eru; 9: Nýsköpun og uppbygging, 12: Ábyrg neysla og framleiðsla, 10: Aukinn jöfnuður, 5: Jafnrétti kynjanna, 8: Góð atvinna og hagvöxtur, 13: Aðgerðir í loftlagsmálum

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmiðin styðja stefnustoðir félagsins og er ætlað að virkja stjórnendur til innleiðingar á framkvæmdaáætlun í sjálfbærni og samfélagslegum verkefnum. Rekstrarfélögin Bónus, Hagkaup, Olís, Aðföng og Bananar hafa öll valið sér heimsmarkmið í samræmi við rekstrarlegar áherslur og eru þau ítarlega kynnt í samfélagsskýrslum fyrirtækjanna sem finna má hér neðar á síðunni.

SJÁLFBÆRNIUPPGJÖR HAGA (UFS)

Hagar og öll rekstrarfélögin, að frátöldum Stórkaup og Eldum rétt, hafa í samvinnu við Klappir Grænar Lausnir hf. innleitt umhverfisstjórnunarkerfi Klappa og unnið að greiningu á mælanlegum árangri félagsins í umhverfismálum og öðrum málum tengdum sjálfbærni. Stórkaup og Eldum rétt munu innleiða umhverfisstjórnunarkerfi Klappa sömuleiðis á árinu 2023 en það verður fyrsta heila rekstrarár félaganna í samstæðu Haga.

Klappir hafa í samvinnu við Haga tekið saman samfélagsuppgjör samstæðunnar fyrir árið 2022 skv. UFS leiðbeiningum Nasdaq. Niðurstöðum samfélagsuppgjörs Haga er skipt í þrjá hluta: umhverfisþættir, félagslegir þættir og stjórnarhættir.

LYKILÞÆTTIR ÚR SJÁLFBÆRNIUPPGJÖRI HAGA

Á síðasta ári náðist góður árangur á mikilvægum mælikvörðum losunar, en umhverfisspor Haga hefur almennt dregist saman þrátt fyrir að umsvif í rekstri félagsins hafi aukist.

  • Losun gróðurhúsalofttegunda hjá samstæðunni nam 4.155,1 tonnum koltvísýringsígilda (tCO2í), en það er 7,8% samdráttur frá fyrra ári og 15,5% samdráttur frá grunnári 2019.
  • Losunarkræfni tekna árið 2022 var 33,2 kgCO2í/milljón ISK, en það er 22,7% lækkun frá fyrra ári og 39,3% lækkun frá grunnári.
  • Heildarorkunotkun félagins nam 63.222.236 kWst og er samdráttur orkunotkunar milli ára 9,9% og 10,6% frá grunnári. Orkunotkun samanstendur af eldsneytis-, vatns- og raforkunotkun.
  • Óbein orkunotkun vegna rafmagns og heitavatnsnotkunar, þ.e. endurnýjanlegra orkugjafa, nam 60.016.286 kWst eða 94,9% af heildarorkunotkun.
  • Heildarmagn úrgangs frá rekstri Haga árið 2022 nam 5.241.582 kg, sem er 2,9% aukning frá 2021 en 10,2% minnkun frá grunnári.
  • Flokkunarhlutfall úrgangs hækkaði um 0,9%-stig frá 2021, úr 68,3% í 69,2%. Hækkun frá grunnári nemur 7,4%-stigum.
  • Endurvinnsluhlutfall úrgangs hækkaði um 5,0%-stig, úr 64,7% í 69,7%. Hækkun frá grunnári nemur 14,9%-stigum.
  • Úrgangskræfni tekna var 32,36 kg/milljón ISK, en það er 13,7% lækkun frá 2021 og 35,5% lækkun frá grunnári.

 

MÓTVÆGISAÐGERÐIR 

Fram til þessa hafa Hagar og rekstrarfélög þess, að frátöldu Olís, keypt óstaðfestar kolefniseiningar í skógrækt frá Kolviði. Í ár var ákveðið að kaupa vottaðar kolefniseiningar til að tryggja gæði kolefniseininganna og raunverulega kolefnisbindingu þeirra.

Hagar og rekstrarfélög gerðu í framhaldinu samning um kaup á 1.250 vottuðum íslenskum kolefniseiningum í bið. Fjöldi kolefniseininga jafngildir losun samstæðu Haga, að frátöldu Olís, úr umfangi 1 og 2 á árinu 2022. Þessar vottuðu kolefniseiningar voru keyptar af Yggdrasil Carbon ehf. og hafa þær hlotið stranga gæðavottun skv. Skógarkolefnisstaðli Skógræktarinnar. Kolefniseiningarnar eru úr verkefninu Arnaldsstaðir, útgefnum árið 2022 og munu þær raungerast til ársins 2072. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér.

Olís hefur auk þessa undirritað samstarfssamning við Landgræðsluna, um kolefnisbindingu með landgræðsluverkefnum, til næstu 5 ára. Hlutverk Landgræðslunnar er að vernda, endurheimta og bæta þær auðlindir þjóðarinnar sem fólgnar eru í gróðri og jarðvegi og tryggja sjálfbæra nýtingu lands.

Með þessu móti ná Hagar og dótturfélög að vega á móti þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem óhjákvæmilega verður í rekstrinum. Engu að síður verður haldið áfram að draga úr losun í rekstri samstæðunnar hvar sem því verður við komið.

REKSTRAREININGAR OG SAMFÉLAGSLEG ÁBYRGÐ

Fyrirtækin Bónus, Hagkaup, Olís, Aðföng og Bananar hafa gefið út samfélagsskýrslu fyrir árið 2022. Í skýrslunum má sjá samantekt á helstu sjálfbærni- og samfélagsverkefnum á árinu sem og markmið fyrirtækjanna í sjálfbærni til næstu ára. Zara hefur einnig gefið út sjálfbærniuppgjör í samvinnu við Klappir fyrir árið 2022. Skýrslurnar má sjá hér fyrir neðan. 

Sjálfbærni Umhverfisþættir

Losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri samstæðu Haga er reiknuð í samræmi við meginreglur "Greenhouse Gas Protocol" aðferðafræðinnar í samstarfi við Klappir Grænar Lausnir. Við skilgreiningu á umfangi uppgjörsins hefur "Operational Control" aðferðafræðin orðið fyrir valinu. Samkvæmt henni gerir félagið grein fyrir allri losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim rekstrareiningum sem það hefur yfirráð yfir. Félagið gerir ekki grein fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim rekstrareiningum sem það hefur ekki yfirráð yfir, þrátt fyrir að það eigi hagsmuna að gæta af rekstri þeirra. Öll rekstrarfélög samstæðu Haga eru tekin með í uppgjörið, ef frá eru talin Stórkaup og Eldum rétt sem voru aðeins hluti af samstæðu Haga part úr ári. Félögin sem eru hluti af uppgjöri þessu eru móðurfélag Haga, Bónus, Hagkaup, Olís, Aðföng, Bananar og Noron (ZARA).

Losun gróðurhúsalofttegunda skiptist í umfang 1, 2 og 3. Innan rekstrarmarka Haga er losun í umfangi 1 vegna beinnar losunar gróðurhúsalofttegunda í starfseminni, þ.e. tengd eldsneytisnotkun farartækja í eigu og rekstri félagsins. Í umfangi 2 telst óbein losun gróðurhúsalofttegunda vegna raforkunotkunar og hitaveitu í starfsemi félagsins og í umfangi 3 telst óbein losun í virðiskeðjunni líkt og úrgangur frá rekstri, viðskiptaferðir starfsmanna og dreifing á eldsneyti fyrir dælustöðvar Olís. Auk þess var nú í fyrsta skipti mögulegt að reikna út losun vegna eldsneytis- og orkutengdrar starfsemi (flokkur 3) en sú losun er tengd framleiðslu á þeirri orku og eldsneyti sem samstæðan kaupir. Þessi losun hefur nú verið reiknuð aftur til ársins 2020 og því hafa losunargögn fyrri ára breyst fyrir árin 2020 og 2021 frá fyrri sjálfbærniuppgjörum.

  • Samdráttur í losun milli ára 7,8%

  • Endurnýjanlegir orkugjafar 94,9%

  • Endurvinnsluhlutfall úrgangs 69,7%

Heildar losun gróðurhúsalofttegunda í samstæðu Haga vegna ársins 2022 er 4.155,1 tonn CO2 ígilda en var til samanburðar 4.507,3 tonn CO2 ígilda árið 2021, sem jafngildir 7,8% samdrætti milli ára. Í samanburði við grunnár 2019 nemur samdráttur losunar gróðurhúsalofttegunda hjá samstæðunni 15,5%. Markviss skref í aðgerðum gegn losun gróðurhúsalofttegunda hefur skilað þessum góða árangri undanfarin ár en á sama tíma og losun hefur dregist töluvert saman hafa umsvif í starfsemi samstæðunnar aukist töluvert og aldrei verið meiri. 

Nánari upplýsingar um losunarbókhald samstæðunnar má finna í sjálfbærniuppgjöri 2022.

GRÓÐURHÚSALOFTTEGUNDIR

MÓTVÆGISAÐGERÐIR

Fram til þessa hafa Hagar og rekstrarfélög þess, að frátöldu Olís, keypt óstaðfestar kolefniseiningar í skógrækt frá Kolviði. Í ár var ákveðið að kaupa vottaðar kolefniseiningar til að tryggja gæði kolefniseininganna og raunverulega kolefnisbindingu þeirra.

Hagar og rekstrarfélög gerðu í framhaldinu samning um kaup á 1.250 vottuðum íslenskum kolefniseiningum í bið. Fjöldi kolefniseininga jafngildir losun samstæðu Haga, að frátöldu Olís, úr umfangi 1 og 2 á árinu 2022. Þessar vottuðu kolefniseiningar voru keyptar af Yggdrasil Carbon ehf. og hafa þær hlotið stranga gæðavottun skv. Skógarkolefnisstaðli Skógræktarinnar. Kolefniseiningarnar eru úr verkefninu Arnaldsstaðir, útgefnum árið 2022 og munu þær raungerast til ársins 2072. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér.

Olís hefur auk þessa undirritað samstarfssamning við Landgræðsluna, um kolefnisbindingu með landgræðsluverkefnum, til næstu 5 ára. Hlutverk Landgræðslunnar er að vernda, endurheimta og bæta þær auðlindir þjóðarinnar sem fólgnar eru í gróðri og jarðvegi og tryggja sjálfbæra nýtingu lands.

Með þessu móti ná Hagar og dótturfélög að vega á móti þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem óhjákvæmilega verður í rekstrinum. Engu að síður verður haldið áfram að draga úr losun í rekstri samstæðunnar hvar sem því verður við komið.

LOSUNARKRÆFNI

Losunarkræfni sýnir heildarlosun gróðurhúsalofttegunda miðað við helstu rekstrarbreytur samstæðunnar. Þannig er losun hér sett í samhengi við heildartekjur, eignir, eigið fé, fjölda stöðugilda og fjölda fermetra sem notaðir eru í rekstrinum, þ.e. hagkvæmni auðlindanýtingar innan samstæðunnar er sett í samhengi við efnahagslega verðmætasköpun. Heilt yfir dregur úr losunarkræfni í starfsemi Haga, í samanburði við helstu rekstrarbreytur, sem rekja má til markvissra aðgerða til að draga úr losun undanfarin ár.

Losunarkræfni gróðurhúsalofttegunda Eining 2019 2020 2021 2022
Losunarkræfni orku kgCO2í/MWst 69,6 66,7 64,3 65,7
Losunarkræfni starfsmanna kgCO2í/stöðugildi 3.231,3 3.234,6 3.214,9 2.857,7
Losunarkræfni tekna kgCO2í/milljón 42,3 39,8 33,2 25,7
Losunarkræfni eigna kgCO2í/milljón 78,4 77,3 69,1 57,7
Losunarkræfni eiginfjár kgCO2í/milljón 200,0 189,2 168,6 148,8
Losunarkræfni pr. m2 kgCO2í/m2 40,6 38,5 37,4 37,2

HEILDARORKUNOTKUN

Hér í töflu má sjá samantekt á heildarorkunotkun samstæðu Haga. Ítarlegri upplýsingar um orkunotkun má finna í sjálfbærniuppgjöri 2022.

Umhverfisþættir Eining 2019 2020 2021 2022
Heildarorkunotkun kWst 70.699.082 71.444.806 70.131.635 63.222.236
Heildareldsneytisnotkun kg 300.362 304.181 311.067 268.424
Heildarvatnsnotkun m3 878.406 981.617 895.688 864.709
Heildarnotkun raforku kWst 33.773.672 32.442.635 30.250.501 28.529.802

Heildarorkunotkun samstæðunnar hefur dregist saman um 9,9% milli ára og um 10,6% frá grunnári. Um 94,9% af orkunotkun samstæðunnar eru endurnýjanlegir orkugjafar líkt og raforka og vatnsnotkun en jarðefnaeldsneyti telur um 5,1% af heildarorkunotkun. 

Heildarnotkun raforku hefur dregist saman um 5,7% milli ára og um 15,5% frá grunnári. Á undanförnum árum hefur verið ráðist í miklar fjárfestingar með það að markmiði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstri samstæðunnar. Mikil áhersla hefur verið lögð á umhverfisvænni kælimiðla og orkusparandi perur (LED) í rekstri verslana og vöruhúsa og byggja allar nýjar og endurnýjaðar matvöruverslanir á grænum grunni og nota nú íslenskan umhverfisvænan kælimiðil í stað freons áður. Kerfið er talið fremst á sviði umhverfisvænna kælikerfa og er auk þess sjálfbært og öruggt. Vélbúnaður kerfisins nýtir orkuna betur og margir kælar og frystar eru lokaðir, sem tryggir jafnara hitastig og þar af leiðandi betri gæði frystivara. Ný LED lýsing, ásamt lokum á kæla og frysta, sparar mikið rafmagn og þá er lokun á kælum og frystum mikilvæg í baráttunni við matarsóun þar sem betri kæling tryggir betri gæði á matvörum. 

MEÐHÖNDLUN ÚRGANGS

Um árabil hefur mikil áhersla verið lögð á flokkun úrgangs hjá rekstrareiningum Haga, með Bónus og Aðföng fremst í flokki sem hafa náð frábærum árangri. Tilgangur flokkunar er fyrst og fremst að minnka það magn sem fer til endanlegrar urðunar þar sem nákvæmni í flokkun er forsenda endurnýtingar og endurvinnslu. Markviss vinna undanfarinna ára hefur skilað nákvæmari flokkun sem skilar sér síðan í lægri rekstrarkostnaði, þar sem verslanir og vöruhús fá greitt fyrir bylgjupappann, auk þess sem lægri sorpgjöld eru greidd af flokkuðu rusli.

Heildarmagn úrgangs frá rekstri samstæðu Haga hefur aukist um 2,9% milli ára en minnkað um 10,2% frá grunnári. Þá hefur flokkunarhlutfall úrgangs hækkað um 0,9%-stig frá árinu 2021 og um 7,4%-stig frá grunnári. Endurvinnsluhlutfall hefur hækkað um 5,0%-stig milli ára og hækkun frá grunnári nemur 14,9%-stigum. 

UMHVERFISSTJÓRNUN

Hagar og dótturfélög þess hafa um árabil lagt mikla áherslu á umhverfismál í allri sinni starfsemi. Félagið leggur áherslu á að þekkja þau neikvæðu áhrif sem starfsemi þess hefur á umhverfið og leitast við að draga úr þeim eftir fremsta megni. Umhverfisstefna samstæðunnar var síðast endurskoðuð í apríl 2021. Þá snýr ein af fimm meginstoðum í stefnu Haga um samfélagslega ábyrgð, sem upphaflega var samþykkt árið 2017, að mikilvægi umhverfismála.

Umhverfisstefnan nær til allrar starfsemi Haga og dótturfélaga auk starfsfólks samstæðunnar. Meginmarkmiðið er að félagið leggi sitt af mörkum í þágu sjálfbærrar þróunar og samfélagslegrar ábyrgðar og styðji við mikilvægi þess að starfsfólk sé meðvitað um aðgerðir félagsins í þágu umhverfisins. Hagar vilja nýta auðlindir landsins á sjálfbæran hátt í þágu atvinnulífsins, landsmanna og komandi kynslóða til efnahagslegs og félagslegs ábata og jafnframt stuðla að sjálfbærni auðlinda eins og kostur er.

Sem hluti af þeirri umhverfisstefnu sem hér um ræðir var vatns-, orku- og endurvinnslustefna einnig samþykkt þar sem sérstaklega er hugað að aðgerðum hvað varðar vatn, orku og endurvinnslu í allri starfsemi Haga, hvort sem er á skrifstofum, í verslunum, á starfsstöðvum eða í framkvæmdum á vegum félagsins.

Allar rekstrareiningar í samstæðunni, að frátöldum Stórkaup og Eldum rétt, notast við umhverfisstjórnunarkerfi frá Klöppum Grænum Lausnum hf. Stórkaup og Eldum rétt munu innleiða umhverfisstjórnunarkerfi Klappa inn í starfsemi sína á árinu 2023, sem verður fyrsta heila starfsár fyrirtækjanna í samstæðu Haga.

FJÁRFESTING Í LOFTSLAGSTENGDUM INNVIÐUM

Á árinu 2022 var 733,2 milljónum króna varið í fjárfestingu í loftslagstengdum innviðum. Helst er um að ræða endurnýjun á tækni- og tækjabúnaði þar sem leitast er við að nota umhverfisvænni og orkusparandi lausnir, t.d. með LED lýsingu í verslunum og vöruhúsum, kælimiðlum hefur verið skipt úr freoni yfir í íslenskt og vistvænt koldíoxíð og kælum lokað með gleri þar sem kostur er. Auk þess var fjárfest í rafbílum, ráðgjöf í loftslagsmálum, flokkunaraðstöðu fyrir viðskiptavini, kolefnisbindingu o.fl.

Sjálfbærni Félagslegir þættir

Allar rekstrareiningar Haga hafa lokið jafnlaunavottun, sbr. breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem lögfest var í júní 2017, og hafa þau innleitt jafnlaunakerfi sbr. staðal ÍST 85 um jafnlaunavottun. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði, sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020. Samhliða jafnlaunavottun hafa allar rekstrareiningar Haga markað sér jafnlaunastefnu og jafnréttisstefnu ásamt aðgerðaráætlun í samræmi við jafnlaunakerfi ÍST 85. Móðurfélag Haga hefur lokið jafnlaunastaðfestingu.

LAUNAMUNUR KYNJANNA

  Eining 2019 2020 2021 2022
Miðgildi heildarlauna karla sem hlutfall af  miðgildi heildarlauna kvenna X:1 1,1 1,1 1,0 1,0
           
Niðurstaða jafnlaunavottunar*          
Bónus % 1,0% 1,2% 1,8% 2,1%
Hagkaup % 2,9% 2,3% 0,9% 1,0%
Olís % 1,3% 1,3% 0,5% 0,7%
Aðföng % 0,6% -1,2% -0,8% 1,7%
Bananar % 2,5% 0,8% 1,4% 1,2%
Noron % 4,4% -2,4% 0,5% -1,2%

 

* Ef niðurstaða jafnlaunavottunar er neikvætt gildi þá eru heildarlaun kvenna hærri en heildarlaun karla.

KYNJAFJÖLBREYTNI

Á árinu 2022 voru konur 42,9% starfsmanna samstæðunnar og karlar 57,1% og breytist hlutfallið lítillega frá árinu 2021. Af þeim starfsmönnum sem eru í stöðu yfirmanns eða stjórnenda eru 62,6% karlar og 37,4% konur en hlutfall kvenna minnkar um 1,6%-stig frá árinu 2021.

Nánari upplýsingar um launamun kynjanna, starfsmannaveltu og kynjafjölbreytni má finna í sjálfbærniuppgjöri 2022.

JAFNRÉTTIS- OG MANNRÉTTINDASTEFNA HAGA

Í september 2021 endurskoðaði stjórn Haga jafnréttis- og  mannréttindastefnu félagsins og samþykkti hana með breytingum en stefnan byggir á lögum nr. 150/2020. Markmið stefnunnar er að stuðla að jafnri stöðu kynjanna innan félagsins og jöfnum tækifærum einstaklinga á sem flestum sviðum, óháð kyni, uppruna, þjóðerni, litarhætti o.s.frv. 

Stefna Haga er að gætt skuli fyllsta jafnréttis milli kynjanna og að hver starfsmaður Haga sé metinn að eigin verðleikum, óháð kyni, aldri, kynhneigð og uppruna. Allt starfsfólk skal njóta sömu virðingar og skulu kynin hafa jafna stöðu innan fyrirtækisins. Þannig er tryggt gott starfsumhverfi sem gefur af sér tækifæri fyrir hvern þann sem vill. Hvers konar mismunun er óheimil og verður ekki liðin og er það stefna fyrirtækisins að koma í veg fyrir að slíkt ranglæti eigi sér stað.

Hagar virða mannréttindi í allri starfsemi félagsins líkt og kveður á um í Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Félagið líður aldrei barnaþrælkun og virðir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hvað varðar réttindi barna. Þá eru nauðungarvinna, sem og þrælahald ekki liðið innan félagsins. Hagar áskilja sér rétt til að slíta viðskiptasambandi við þá birgja eða samstarfsaðila sem virða þessi mikilvægu málefni að vettugi.

Sjálfbærni Stjórnarhættir

Stjórnarhættir Haga eru markaðir af lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, samþykktum félagsins og starfsreglum stjórnar. Í samþykktum er kveðið á um tilgang félagsins í kafla 1, hlutafé í kafla 2, hluthafafundi í kafla 3, um stjórn og forstjóra í kafla 4 og 5 og um reikningshald og endurskoðun í kafla 6. Gildandi starfsreglur, sem voru samþykktar af stjórn þann 24. mars 2023, eru settar skv. 5. mgr. 70. gr. laga um hlutafélög og eru samþykktum félagsins til fyllingar, samanber grein 4.20 í samþykktum. Gildandi starfskjarastefna Haga var staðfest á aðalfundi félagsins þann 1. júní 2022, en hún nær til allra helstu þátta í starfs- og launakjörum stjórnarmanna félagsins, forstjóra og annarra æðstu stjórnenda samstæðunnar. Óbreytt starfskjarastefna verður lögð fyrir næsta aðalfund félagsins til samþykktar þann 1. júní 2023.

  • Hlutfall kvenna í stjórn 60%

  • Hlutfall óháðra stjórnarmanna 100%

  • Hlutfall kvenna í formennsku nefnda 100%

Stjórn Haga er skipuð fimm einstaklingum en samkvæmt samþykktum félagsins skal við stjórnarkjör tryggja að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%. Á árinu 2022 voru konur 60% stjórnarmeðlima, óbreytt frá fyrra ári. Þá eru starfandi þrjár nefndir hjá félaginu, endurskoðunarnefnd, starfskjaranefnd og tilnefningarnefnd. Á árinu 2022 voru formenn allra nefnda kvenkyns.

  • Hlutfall starfsmanna sem falla undir almenna kjarasamninga 97,1%

  • Framfylgir fyrirtækið siðareglum

  • Leggur fyrirtækið áherslu á tiltekin heimsmarkmið SÞ

  • Framfylgir fyrirtækið persónuverndarstefnu

Nánari upplýsingar um stjórnarhætti má finna í sjálfbærniuppgjöri 2022 og í sérstökum kafla í ársskýrslu þessari.

Sjálfbærni Stuðningur við góð málefni

Hagar og dótturfélög leggja mikla áherslu á að styðja við og gefa aftur til samfélagsins, til að mynda með því að styrkja verkefni sem hvetja til hollustu og hreyfingar barna, hafa jákvæð áhrif á umhverfið og uppbyggingu samfélagsins og huga að heilsu og öryggi landsmanna. Málaflokkarnir eru margir og mismunandi og er ákvörðun um þær áherslur og stefnur teknar innan hvers fyrirtækis fyrir sig. Hér má sjá samantekt á nokkrum skemmtilegum verkefnum á árinu.

SAMAN TIL STUÐNINGS VIÐ ÍBÚA ÚKRAÍNU

Eins og flestum er kunnugt réðst Rússland inn í Úkraínu í lok febrúar 2022. Heimurinn var harmi sleginn yfir ástandinu og var fyrirséð að neyð almennra borgara þar í landi myndi aukast dag frá degi. Til að mæta þörfum þolenda átakanna, líkt og aðgengi að vatni, matvælum og öðrum nauðsynjum, settu fyrirtæki Haga af stað neyðarsöfnun í samstarfi við Rauða Krossinn. Viðskiptavinum var boðið að bæta við 500 kr. styrktarupphæð við vörukaup sín í verslunum Bónus, Hagkaups og Olís og Hagar bættu síðan við mótframlagi fyrir sömu upphæð. Með þessu móti náðu Hagar með hjálp viðskiptavina sinna að safna 30 milljónum króna til stuðnings íbúum í Úkraínu.

Kristín og Finnur

STUÐNINGUR VIÐ STARF SAMHJÁLPAR

Aðföng hefur um langt skeið stutt við starfsemi Samhjálpar með matargjöfum. Samstarfið byggir á því að Aðföng taka til hliðar matvæli, sem eru að nálgast síðasta söludag eða bera útlitsgalla á ytri umbúðum, en eru heilnæm, næringarrík og hæf til neyslu. Vikulegar sendingar fara á kaffistofu Samhjálpar, þar sem einstaklingar í neyð sem hafa ekki tök á að sjá sér farborða fá næringu og félagsskap.

Allt frá árinu 1981 hefur Samhjálp mætt stigvaxandi þörf á kaffistofunni sinni og er það sannur heiður fyrir Aðföng að geta stutt við starfsemina með þessum hætti. Samstarfið er auk þess eitt af nokkrum verkefnum Aðfanga í viðleitni þess að lágmarka sóun.

HAGKAUP STYRKIR ORÐALYKIL

Hagkaup er eitt þriggja íslenskra fyrirtækja sem styrkja menntatæknifyrirtækið Mussila til að gefa út og veita þjóðinni ókeypis aðgang að íslenska lestrar- og málörvunarforritinu Orðalykli. Orðalykill kennir undirstöðutækni lesturs og nýtir Mussila sér kjarnalausnir íslensku máltækniáætlunarinnar til að þróa forritið.

Orðalykill mun nýtast öllum börnum til að læra að lesa og skilja íslensku, bæði aðfluttum landsmönnum með erlendan uppruna, íslenskum börnum sem búa erlendis og öllum öðrum sem vilja læra íslensku. Um er að ræða gagnvirka kennslulausn, sem ýtir undir snemmtæka íhlutun, málörvun og læsi og er hún aðgengileg á öllum helstu snjalltækjum, notendum að kostnaðarlausu.

Orðalykill

STUÐNINGUR VIÐ ÍÞRÓTTA- OG ÆSKULÝÐSSTARF

Bónus, Hagkaup og Olís hafa öll stutt ötullega við íþrótta- og æskulýðsstarf um allt land á árinu. Þar ber líklega helst að nefna gott samstarf Olís og HSÍ um efstu deildir karla og kvenna í handbolta. Olís hefur verið einn helsti bakhjarl HSÍ til fjölda ára, eins og kristallast í nöfnum efstu deildanna í meistaraflokki, þ.e. Olís deildin og Grill 66 deildin. Markmið samstarfsins hefur verið að efla handbolta á Íslandi og fjölga iðkendum. Olís er einnig aðalstyrktaraðili Olísmótsins á Selfossi og ÓB mótsins á Sauðárkróki þar sem mörg hundruð ungir knattspyrnuiðkendur, drengir og stúlkur, taka þátt. Olís styður jafnframt við ýmis félagslið á þeim svæðum þar sem fyrirtækið er með starfsemi, þá einkum á landsbyggðinni og er þar lögð áhersla á uppbyggingu barna- og unglingastarfs.

 

Olísdeildin

Bónus og Hagkaup hafa bæði um langa hríð stutt vel við hvers kyns íþróttaiðkun og æskulýðsstarf á Íslandi. Styrkirnir á árinu hlaupa á tugum og renna til íþróttafélaga um allt land, þá einna helst í handbolta, fótbolta og körfubolta.

SKIPULAGSMÁL HAGKAUPS OG OREO

Eitt af skemmtilegri verkefnum ársins hjá Hagkaup var samstarf Hagkaups og Sylvíu Erlu Melsteð um skipulagsátak til að efla lestur, heimanám, hreyfingu og minnka skjánotkun hjá börnum í grunnskólum landsins. Sylvía Erla greindist sjálf með lesblindu í 9. bekk og kom sér upp aðferðum til að læra og halda sér við efnið. Hún segir skipulag vera lykilinn að árangri. Hugmyndin að skipulagsbókinni kviknaði eftir fyrirlestrarröð í grunnskólum landsins um lesblindu og vildi Sylvía þannig hvetja börn áfram í skólanum. Oreo, hundurinn hennar Sylvíu, hefur vakið mikla eftirtekt og skipar hann stóran sess í verkefninu.

 

Sylvía og Oreo

Átakið stóð yfir í 20 daga og fór skráning fram úr björtustu vonum. Grunnskólabörn tóku þátt og var keppni á milli grunnskóla landsins þar sem titillinn „Skipulagðasti skólinn“ var í boði ásamt glaðningi frá Oreo.

SAMSTARF VIÐ SLYSAVARNARFÉLAG LANDSBJARGAR

Olís og Slysavarnarfélagið Landsbjörg fögnuðu 10 ára samstarfsafmæli á árinu. Haustið 2022 var samningurinn við Landsbjörg endurnýjaður til næstu 3 ára en á þeim 10 árum sem Olís hefur verið einn af aðalstyrktaraðilum Landsbjargar hafa safnast yfir 100 milljónir króna, með beinum og óbeinum hætti.

Með samstarfinu er leitast við að tryggja að björgunarsveitir landsins séu vel í stakk búnar til þess að aðstoða landsmenn og erlenda ferðamenn sem eru á ferð um landið. Olís hefur að auki boðið björgunarsveitum sérstaka neyðaraðstoð. Olís opnar afgreiðslustöðvar sínar að kvöld- og næturlagi ef björgunaraðgerðir eru í gangi svo björgunarsveitir hafi öruggan aðgang að eldsneyti og öðrum búnaði á öllum tímum sólarhringsins.

Olís styður Landsbjörg

GRÆÐUM LANDIÐ

Bónus og Olís tóku þátt á árinu í landssöfnun Skógræktarinnar og Landgræðslunnar á birkifræjum en þar var óskað eftir stuðningi landsmanna við að breiða út birkiskóga landsins. Söfnunarbaukar voru aðgengilegir í verslunum Bónus og á þjónustustöðvum Olís en þar var einnig tekið á móti fræjum að tínslu lokinni. Þeim fræjum sem var safnað er sáð í örfoka land víða um Ísland.

Með því að klæða örfoka landsvæði birkiskógi stöðvast kolefnislosun og binding hefst í staðin. Átakið snýr að bæði loftslags- og umhverfisvernd og er liður í því að útbreiða á ný birkiskóglendi sem þakti a.m.k. fjórðung landsins við landnám en þekur einungis 1,5% lands í dag. Markmið stjórnvalda er að birki vaxi á 5% lands árið 2030. Það verður ekki auðvelt verkefni og því mikilvægt að virkja sem flesta til þátttöku en söfnun birkifræja getur verið skemmtilegt fjölskylduverkefni og því fylgir auk þess holl og góð hreyfing.

Birkifræsöfnun

VIÐSKIPTAVINIR OG VERSLANIR TAKA HÖNDUM SAMAN

Verslanir Haga áttu frumkvæðið að mörgum skemmtilegum verkefnum á árinu þar sem verslanirnar og viðskiptavinir tóku höndum saman og söfnuðu fyrir góðum málefnum. Má þar helst nefna söfnun Hagkaups og viðskiptavina þess til Krabbameinsfélagsins og Mæðrastyrksnefndar þar sem viðskiptavinir bættu 500 krónum við innkaup sín, sem runnu beint til söfnunarinnar og Hagkaup greiddi aðrar 500 krónur í mótframlag.

Hagkaup og Krabbameinsfélagið

Hagkaup stóð einnig fyrir söfnun til styrktar Kvennaathvarfinu þar sem viðskiptavinum bauðst að „Spila til góðs“ en píanó var komið fyrir við Hagkaup í Smáralind. Þar gátu viðskiptavinir spilað lag og lét Hagkaup 5.000 krónur renna til Kvennaathvarfsins við hvert lag spilað.

Landsbjörg

Olís hefur undanfarin ár haldið sérstaka fjáröflunardaga til styrktar Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu. Verkefnið er undir yfirskriftinni „Dælum til góðs“ en þá daga rennur hluti af sölu á hverjum eldsneytislítra beint til Landsbjargar.

FRAMÚRSKARANDI FLOKKUN

Alla tíð hefur rík áhersla verið lögð á flokkun úrgangs í starfsemi Bónus en flokkun og endurvinnsla er nauðsynleg til þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum úrgangs. Á árinu 2022 var ný og endurbætt flokkunaraðstaða fyrir viðskiptavini sett upp í öllum verslunum Bónus. Þar geta viðskiptavinir á auðveldan hátt flokkað bylgjupappa, pappír, rafhlöður, matarleifar/lífrænt, málma, plastumbúðir, gler með skilagjaldi og plast með skilagjaldi.

 

Fram og Hagkaup í samstarf

Sjálfbærni Styrkir til nýsköpunar

Uppsprettan - nýsköpunarsjóður Haga

UPPSPRETTAN - NÝSKÖPUNARSJÓÐUR HAGA

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna 9: Nýsköpun og uppbygging er eitt af þeim markmiðum sem Hagar hafa valið í stefnu sinni í samfélagslegri ábyrgð.

Í upphafi árs 2021 tóku Hagar mikilvægt skref í stuðningi við nýsköpun í matvælaiðnaði með stofnun á nýsköpunarsjóðnum Uppsprettunni. Hlutverk sjóðsins er að virkja og styðja frumkvöðla til nýsköpunar og þróunar í íslenskri matvælaframleiðslu.

Sjóðurinn leggur áherslu á stuðning við sprotaverkefni í matvælaframleiðslu sem taka tillit til sjálfbærni við framleiðslu, flutning og pökkun og styðja við innlenda framleiðslu. Sjóðurinn leggur sérstaka áherslu á að hafa umsóknar- og matsferlið einfalt í þeim tilgangi að virkja góðar hugmyndir í matvælaframleiðslu. 

Finnur Oddsson, forstjóri Haga

Nafn sjóðsins, Uppsprettan, er táknrænt fyrir hlutverk hans og ferlið við nýsköpun. Góð hugmynd kviknar, hún er vökvuð til vaxtar og upp sprettur sproti.

STYRKHAFAR UPPSPRETTUNNAR 2022

Alls bárust tugir umsókna um styrk í sjóðinn og valdi matsnefnd tólf verkefni til styrkveitingar að verðmæti 16 milljóna króna fyrir styrkárið 2022.

Styrkhafar Uppsprettunnar 2022

Eftirfarandi verkefni hlutu styrkveitingu 2022

Anna Marta er sprotafyrirtæki sem framleiðir heilsuvörur úr íslenskum hráefnum. Anna Marta hefur fengið styrk til þróunar og framleiðslu á þremur nýjum vörum, Pestó Spæsí, Pestó Sól og einstöku súkkulaði.

Mijita er sprotafyrirtæki sem framleiðir matvæli byggð á kólumbískri matargerð. Arepa, sem eru vegan flatbökur úr maís, verða fyrstu vörur Mijita.

Baða framleiðir íslenskar sápur úr íslenskum hráefnum, m.a. úr afgangs grænmeti og ávöxtum. Baða hefur fengið styrk til framleiðslu og þróunar á þremur nýjum vörum sem nota íslensk hráefni sem hafa græðandi og róandi áhrif.

Bökum saman er fjölskyldufyrirtæki sem að auðveldar fjölskyldum að skapa saman gæðastundir við bakstur. Bökum saman hefur fengið styrk til þróunar á þremur nýjum vörum frá fyrirtækinu.

Ella Stína er sprotafyrirtæki sem framleiðir vörur eingöngu úr plönturíkinu. Ella Stína hefur fengið styrk til þróunar á nýjum vegan vörum.

Hops er ný gerð áfengislausra drykkja sem framleiddir verða á Íslandi. Drykkirnir eru bruggaðir eftir nýstárlegum aðferðum sem þróuð hefur verið með Álfi Brugghúsi. Hops er án aukaefna, sykurlaus og áfengislaus.

Krispa fiskisnakk eru kryddaðar snakkflögur sem innihalda íslensk hráefni og þurrkaðan íslenskan fisk. Krispa verður fáanlegt í fjórum bragðtegundum.

Máltíð á mettíma er vörulína frostþurrkaðra rétta. Fyrsti rétturinn sem kemur á markað er Kjöt í karrý.

Sifmar er sprotafyrirtæki sem vinnur að framleiðslu á hollum íslenskum barnamat. Hugmyndafræði fyrirtækisins er að nýta íslenskt grænmeti og ávexti sem annars færu til spillis og vinna það áfram með íslenskum orku- og vatnsauðlindum.

Smjer er allt sem þú þarft í einu smjörstykki til þess að gera dýrindis sósu á örskammri stundu. Fyrsta vara Smjer er bearnaise og ættu allir landsmenn að geta eldað ljúffenga bearnaise með steikinni í sumar.

Svepparíkið vinnur að þróun og ræktun á sælkeramatsveppum úr lífrænum úrgangi frá matvælaiðnaði. Sjálfbær ræktun sælkerasveppa er ný á Íslandi.

Úr sveitinni er sprotafyrirtæki sem að vinnur að ræktun á gulrótum í öllum regnbogans litum. Litríkar gulrætur gera meðlætið og nestið skemmtilegra.

Nánari upplýsingar um Uppsprettuna og næstu styrkúthlutanir má finna á heimasíðu sjóðsins www.uppsprettan.hagar.is

MATARMARKAÐUR ÍSLENSKRA SMÁFRAMLEIÐENDA Í HAGKAUP

Með matarmarkaði íslenskra smáframleiðenda vill Hagkaup styðja við þann fjölbreytta hóp og vekja athygli á mikilli flóru af gæðavörum sem íslenskir frumkvöðlar hafa upp á að bjóða. 

Hagkaup hefur í gegnum árin unnið markvisst að því að efla samstarf við íslenska frumkvöðla sem eru að taka sín fyrstu skref á innanlandsmarkaði. Margir þeirra hafa náð góðum árangri og eru í dag með þekktar vörur í úrvali Hagkaups. 

Matarmarkaðir íslenskra smáframleiðenda gengu vonum framar á árinu og yfir 20 þátttakendur tóku þátt hverju sinni og stækkar markaðurinn með ári hverju. Hluti þeirra sem taka þátt hafa notið stuðnings úr Uppsprettunni, nýsköpunarsjóði Haga. 

Matarmarkaður Hagkaups