Fara á efnissvæði

Á vegum Haga eru reknar átta sjálfstæðar rekstrareiningar með ólík rekstrarform og menningu. Allar einingarnar leggja áherslu á hagkvæman rekstur, góða þjónustu og hámörkun á virði fyrir eigendur félagsins. Rekstrareiningar Haga búa yfir áralangri þekkingu á viðskiptum og smásölu og byggja á trausti viðskiptavina sem áunnist hefur um langt árabil.

HLUTVERK HAGA

Hlutverk Haga er að veita rekstrareiningum félagsins stuðning og aðhald í rekstri ásamt því að virkja rekstrar-, markaðs-, tækni- og viðskiptalega samlegð fyrirtækjanna til aukins hagræðis fyrir viðskiptavini og eigendur félagsins. Allar rekstrareiningar Haga leggja áherslu á hagkvæman rekstur, sjálfbærni og góða þjónustu. Lögð er áhersla á getu allra eininga til þess að hreyfa sig hratt og flækja ekki einfalda hluti.

GILDI HAGA

STERKARI SAMAN

Allar rekstrareiningar Haga eru reknar sem sjálfstæðar einingar en með áherslu á samvinnu, m.a. með því að byggja á sameiginlegum innviðum og deila þekkingu. Hjá félögum Haga starfa rúmlega 2.600 starfsmenn í um 1.450 stöðugildum sem á hverjum degi hafa áhrif á daglegt líf fólks í landinu með sínum störfum. Starfsfólk félagsins býr yfir áralangri þekkingu á verslun og hefur byggt upp viðskiptatengsl um allan heim við birgja og framleiðendur.

HÖFUM JÁKVÆÐ ÁHRIF

Hagar leggja áherslu á sjálfbærni í allri sinni starfsemi og taka virkan þátt í samfélagslegum verkefnum. Starfsfólk og stjórnendur Haga trúa því að það sé ekkert "plan B" og nálgast því öll verkefni með það fyrir augum að þau hafi jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag. Einnig taka rekstrareiningar Haga virkan þátt í fjölbreyttum lýðheilsu og samfélagslegum verkefnum.

BÆTT ÞJÓNUSTA OG AUKIN SKILVIRKNI

Á síðustu tveimur árum hefur sérstök áhersla verið lögð á stafræna vegferð hjá Högum og dótturfélögum. Snertir það á mörgum og mismunandi þáttum í starfseminni. Ber þar helst að nefna netverslanir fyrir Hagkaup og Stórkaup en þær skapa grunn fyrir önnur stafræn verkefni og bæta þjónustu við viðskiptavini með aukinni þekju á landinu öllu.

Mikil áhersla hefur verið lögð á uppfærslu á eldri upplýsingatæknikerfum og ferlum sem einfalda starfsemi og skapa grundvöll til framþróunar. Auk þess hafa innri ferlar og vinnubrögð verið bætt, með innleiðingu á sjálfvirkum lausnum í innkaupum, birgðastýringu o.fl.

 

  • Matvöruverslanir 38

  • Þjónustu- og bensínstöðvar 67

  • Vöruhús og sérvöruverslanir 5

  • Fjöldi starfsmanna 2.613

REKSTRAREININGAR HAGA

Innan þeirra átta rekstrareininga sem Hagar starfrækja í lok rekstrarárs eru 38 matvöruverslanir, ein netverslun með matarpakka, 22 Olís þjónustustöðvar og 45 ÓB-stöðvar um allt land. Einnig rekur félagið tvö vöruhús, eina framleiðslustöð, eina birgðaverslun og eina sérvöruverslun. Kjarnastarfsemi Haga er á sviði verslunar með dagvöru og eldsneyti og tengdrar starfsemi vöruhúsa. Hagar eru skráðir á aðallista NASDAQ OMX Iceland með auðkenninu HAGA. Höfuðstöðvar félagsins eru á Holtavegi 10 í Reykjavík.

Dótturfélög í samstæðu Haga, þar sem rekstrareiningar félagsins eru starfræktar, eru Hagar verslanir ehf., Olís ehf., Eldum rétt ehf., Bananar ehf., Stórkaup ehf. og Noron ehf. 

Undir hatti Haga verslana eru fyrirtækin Bónus, Hagkaup og Aðföng. Bónus og Hagkaup eru tvær af stærstu matvöruverslunarkeðjum landsins og sinnir vöruhúsið Aðföng innflutningi, innkaupum og dreifingu fyrir matvörukeðjurnar og Olís. Olís sérhæfir sig, auk annars, í sölu og þjónustu með eldsneyti. 

Eldum rétt er netverslun með matarpakka en félagið varð hluti af samstæðu Haga í nóvember 2022. Bananar er stærsti dreifingaraðili á fersku grænmeti og ávöxtum á Íslandi. Stórkaup er heildverslun sem þjónar stórnotendum með rekstrarvörur, hreinlætisvörur og heilbrigðisvörur. Noron rekur tískuvöruverslunina Zara í Smáralind sem selur fatnað og fylgihluti fyrir dömur, herra og börn. 

Hlutdeildarfélög Haga eru Klasi ehf. og Djús ehf. Hagar eignuðust 1/3 hlut í Klasa í ágúst 2022 en Klasi er fasteignaþróunarfélag sem unnið hefur að fjölmörgum verkefnum í tæp 20 ár. Djús rekur veitingastaði undir merkjum Lemon en Hagar eiga 49% hlut í félaginu. Olís á 40% hlut í Olíudreifingu ehf. og á auk þessi hluti í fleiri smærri félögum. 

Regluvörður Haga er Guðrún Eva Gunnarsdóttir. Staðgengill regluvarðar er Ólafur Arinbjörn Sigurðsson. Tölvupóstfang regluvarða er regluvordur@hagar.is.

Framkvæmdastjórn Haga
Framkvæmdastjórn móðurfélags Haga skipa (frá vinstri): Eiður Eiðsson, framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni, Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, Finnur Oddsson, forstjóri og Magnús Magnússon, framkvæmdastjóri stefnumótunar og rekstrar.

Um Haga Bónus

Bónus starfsmaður
Bónus súpur
Bónus verslun
Bónus hambó
Bónus tómatar
  • Stofnað 1989

  • Verslanir 31

  • Starfsmenn 1.013

  • Vörusala 73 milljarðar

Um Bónus

Bónus var stofnað árið 1989 þegar fyrsta verslunin var opnuð við Skútuvog 13 í Reykjavík. Viðtökur landsmanna við hinni nýju verslun voru frábærar enda vöruverð mun lægra en þá þekktist. Verslunum hefur fjölgað jafnt og þétt og voru þær í árslok 2022/23 alls 31 talsins, 18 staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og 13 á stórum þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni. Nýjasta verslunin opnaði á Akureyri, í verslunarkjarnanum Norðurtorgi, í maí 2022 en verslunin er rúmir 2.000 fermetrar að stærð. Tvær nýjar verslanir Bónus opna á sumarmánuðum en ný verslun verður opnuð í Norðlingaholti í júní. Þá verður gamalli verslun Bónus í Holtagörðum lokað og ný og stærri verslun verður opnuð á betri stað í húsinu í júlí.

Markmið Bónus sem lágvöruverðsverslun hefur alla tíð verið að tryggja neytendum um land allt lægsta mögulega vöruverð hverju sinni og bjóða sama verð um allt land. Lykillinn að því hefur verið lágur rekstrarkostnaður, íburður í lágmarki, takmarkað vöruúrval sem spannar þó allar þarfir heimilisins, stöðugt kostnaðaraðhald og mikill veltuhraði. Auk þess er opnunartími verslana Bónus skemmri en hjá samkeppnisaðilum. Leiðarljós fyrirtækisins hefur ávallt verið að láta viðskiptavini njóta ávinnings af hagstæðum innkaupum og hagkvæmum rekstri.

Sjálfbærni og stuðningur við samfélagið hefur verið lykilþáttur í rekstri Bónus allt frá stofnun. Allar verslanir Bónus hafa til að mynda flokkað plast, pappa og annan úrgang í fjölda ára. Nánari upplýsingar um sjálfbærnimál Bónus má finna í samfélagsskýrslu ársins 2022.

Hjá Bónus störfuðu í árslok 1.013 starfsmenn og var meðalfjöldi stöðugilda 454 á árinu.

Árið sem leið

Árið sem nú er liðið var stærsta ár Bónus í sögunni þar sem vörusala fór yfir 73 ma. kr. Mikill hluti söluaukningar er vegna áhrifa aukinnar verðbólgu en viðskiptavinum hefur þó fjölgað mikið og seldum stykkjum sömuleiðis enda ljóst að hagkvæmasta matvörukarfan vegur þungt í núverandi efnahagsástandi. Bónus leggur mikla áherslu á að standa við loforð um hagkvæmustu matvörukörfuna og hefur því til stuðnings verið oftast með lægsta verð samkvæmt verðlagskönnunum.

Góð veltuaukning styður við afkomu félagsins en framlegðarhlutfall hefur dregist saman enda hafa miklar verðhækkanir frá birgjum undanfarin misseri og veikara gengi íslensku krónunnar vegið þungt. Það má því með sanni segja að Bónus sé með íslenskum neytendum í liði og mikilvæg hindrun í vegi hækkandi verðbólgu.

Framkvæmdastjórn Bónus
Framkvæmdastjórn Bónus skipa (frá vinstri): Björgvin Víkingsson, innkaupastjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri, Baldur Ólafsson, markaðsstjóri, Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri, Erla Magnúsdóttir, fjármálastjóri, Otti Þór Kristmundsson, rekstrarstjóri, og Steinar J. Kristjánsson, upplýsingatæknistjóri.

Um Haga Hagkaup

Hagkaup kjötborð
Pasta
Kökur
Carpaccio
Snyrtivara
  • Stofnað 1959

  • Verslanir 7

  • Starfsmenn 731

  • Vörunúmer 60.000+

Um Hagkaup

Hagkaup var stofnað árið 1959 og á starfsemi fyrirtækisins djúpar rætur í samfélaginu enda verið órofinn hluti af verslunarsögu landsins í 64 ár. Í upphafi var Hagkaup rekið sem póstverslun sem sendi vörur beint frá birgðageymslu og upp að dyrum kaupandans. Fyrsta Hagkaupsverslunin var svo opnuð við Miklatorg árið 1967 og árið 1970 opnaði Hagkaup verslun sína í Skeifunni, sem er eitt helsta flaggskip starfseminnar, enn þann dag í dag.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því fyrsta verslunin leit dagsins ljós og hefur rekstur Hagkaups ávallt aðlagað sig að síbreytilegu neyslumynstri landsmanna. Í dag er megináhersla lögð á breitt úrval í matvöru, snyrtivöru og leikföngum, auk þess sem seldar eru heimilisvörur, tómstundavörur og fatnaður. Hagkaup kappkostar að bjóða upp á landsins fjölbreyttasta vöruúrval og gera verslunarferðina eins ánægjulega og mögulegt er, allt á einum stað.

Í árslok rak Hagkaup sjö verslanir, þar af sex á höfuðborgarsvæðinu og eina á Akureyri. Hagkaup leggur áherslu á þægindi og þjónustu og eru því tvær verslanir Hagkaups, í Skeifunni og Garðabæ, opnar allan sólarhringinn. Auk þess starfrækir Hagkaup öfluga netverslun með bæði snyrtivörur og leikföng og er boðið upp á sendingar hvert á land sem er, hratt og örugglega.

Hagkaup hefur unnið ötullega í sjálfbærnimálum sínum á síðustu árum, meðal annars í aðgerðum til að minnka rýrnun og þar með matarsóun. Einnig hefur verslunin lagt mikla áherslu á kolsýruvæðingu kæli- og frystibúnaðar og mun þeirri vinnu ljúka á fyrri hluta árs 2023 þegar allar verslanir Hagkaups verða keyrðar á umhverfisvænum kælimiðlum. Nánari upplýsingar um sjálfbærnimál félagsins má finna í samfélagsskýrslu ársins 2022.

Í árslok voru starfsmenn fyrirtækisins 731 talsins og meðalfjöldi stöðugilda ársins var 353.

 

Árið sem leið

Að baki er ágætt ár hjá Hagkaup en vörusala var um 23 ma. kr. Seldum stykkjum fækkaði milli ára en ánægjulegt er að heimsóknum viðskiptavina fjölgaði. Mikil aukning í ferðalögum landsmanna til útlanda hefur mikil áhrif á Hagkaup auk breyttrar neysluhegðunar í núverandi efnahagsástandi mikillar verðbólgu.

Miklar breytingar hafa verið gerðar á verslunum Hagkaups undanfarin misseri og eru flestar verslanir komnar í uppfært útlit með endurnýjun innviða. Áhersla er lögð á upplifun viðskiptavina, mikið úrval og aukin þægindi. Netverslun er orðin nokkur hluti af veltunni en tvær glæsilegar netverslanir Hagkaups litu dagsins ljós á árinu þegar stærsta snyrtivöruverslun landsins opnaði á fyrri hluta árs og svo fylgdi leikfangaverslunin í kjölfarið í október.

Framkvæmdastjórn Hagkaup
Framkvæmdastjórn Hagkaups skipa (frá vinstri): Eva Laufey Hermannsdóttir, markaðs- og upplifunarstjóri, Svanberg Halldórsson, rekstrarstjóri verslana, Brynjar Helgi Ingólfsson, rekstrarstjóri innkaupa- og markaðssviðs, Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri, Ísak Pálmason, fjármálastjóri og Arndís Arnarsdóttir, starfsmannastjóri.

Um Haga Olís

Olís - Lemon
Rúðuvökvi
Strákur við dælu
Skilboð á bol
Dælulykill
  • Stofnað 1927

  • Þjónustustöðvar 22

  • ÓB stöðvar 45

  • Starfsmenn 424

Um Olís

Olís ehf. var stofnað árið 1927 og er því elsta fyrirtækið í samstæðu Haga. Olís sérhæfir sig í sölu og þjónustu með eldsneyti og aðrar olíuvörur, auk skyndibita, ýmissa nauðsynjavara fyrir bílaeigendur, vörum til útivistar og ferðalaga ásamt fjölþættri þjónustu við sjávarútvegs-, verktaka- og flutningafyrirtæki um land allt.

Grunnrekstur Olís hefur ávallt verið eldsneytissala, en með nýtingu á dreifineti fyrirtækisins og sérfræðiþekkingu hefur aukist sala á öðrum vörum, líkt og smurolíum, efnavörum, rekstrarvörum, gasi og nýlenduvörum. Olís á 40% hlut í Olíudreifingu ehf. en Olíudreifing sér m.a. um birgðahald og dreifingu á fljótandi eldsneyti fyrir Olís.

Hlutverk Olís er að vera verslunar- og þjónustufyrirtæki í fremstu röð á fyrirtækja- og einstaklingsmarkaði. Markmið fyrirtækisins er að bjóða viðskiptavinum góðar og samkeppnishæfar vörur á samkeppnishæfu verði, ásamt sveigjanlegu sölu- og þjónustukerfi um land allt. Þá leggur Olís áherslu á umhverfisvernd og mannúðarmál.

Í árslok rak Olís 22 þjónustustöðvar vítt og breitt um landið undir vörumerki Olís, þar af 8 á höfuðborgarsvæðinu. Markmið þjónustustöðva Olís er að vera „vinir við veginn“ og vera áfangastaður viðskiptavina á ferðinni um landið. Á stærstu þjónustustöðvum sínum rekur Olís skyndibitamerkin Grill 66 og Lemon mini.

Á sjö þjónustustöðvum Olís eru í samstarfi við Ísorku reknar hraðhleðslustöðvar fyrir bíla sem ganga fyrir rafmagni; í Álfheimum og við Ánanaust í Reykjavík, Siglufirði, Reyðarfirði, Hellu, Kirkjubæjarklaustri og Höfn í Hornafirði. Áætlað er að slíkum stöðvum fjölgi enn frekar á næstu misserum en við Esjubraut á Akranesi er meðal annars unnið að uppsetningu á slíkri stöð.

Fyrsta ÓB-sjálfsafgreiðslustöðin var opnuð árið 1996 í Hafnarfirði en þær eru nú orðnar 45 talsins um land allt, þar af 10 á höfuðborgarsvæðinu og 35 á landsbyggðinni.

Olís hefur í gegnum tíðina hugað vel að umhverfismálum og átt í gjöfulu samstarfi við Landgræðsluna, allt frá árinu 1992. Olís hefur að sama skapi fjárfest í kolefnisbindingu á móti losun úr rekstri í samstarfi við Landgræðsluna og hefur einnig tekið þátt í kostnaði þeirra viðskiptavina sem kjósa að kolefnisbinda eldsneytiskaup sín hjá bæði Olís og ÓB. Nánari upplýsingar um sjálfbærnimál Olís má finna í samfélagsskýrslu ársins 2022.

Í árslok störfuðu 424 starfsmenn hjá Olís og meðalfjöldi stöðugilda ársins var 319.

Árið sem leið

Olís á gott ár að baki þar sem fyrst og fremst breyttar áherslur og hagræðing í starfseminni höfðu jákvæð áhrif. Tekjur jukust mikið í krónum talið en þar hafði mest áhrif hækkandi heimsmarkaðsverð á olíu. Heildarmagn seldra eldsneytislítra dróst lítillega saman en seldum lítrum til stórnotenda fækkaði á meðan seldum lítrum í smásölu fjölgaði.

Framlegðarhlutfall í rekstri Olís dróst nokkuð saman en þar hafa fyrst og fremst áhrif miklar hræringar á mörkuðum með olíu. Þó skiluðu virk birgðastýring og gjaldmiðlavarnir góðri niðurstöðu og bættri framlegð í sölu til stórnotenda.

Einskiptistekjur höfðu nokkur áhrif á afkomu Olís á árinu sem var að líða, m.a. söluhagnaður eigna tengt kaupum Haga á eignarhlut í Klasa. Mikil áhersla hefur verið lögð á hagkvæmari rekstur stöðva og skilvirkari þjónustu við stórnotendur og hefur það skilað lækkun launakostnaðar. Allt þetta skilar sér svo í góðu rekstrarári fyrir Olís.

Á árinu undirritaði Olís kaupsamning um sölu á öllu hlutafé í dótturfélaginu Mjöll Frigg. Félagið var afhent nýjum eigendum í lok ágúst 2022.

Framkvæmdastjórn Olís
Framkvæmdastjórn Olís skipa (frá vinstri): Stefán Karl Segatta, sviðssstjóri fyrirtækjasviðs, Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri, Jón Árni Ólafsson, sviðsstjóri smásölusviðs, Þrúður Maren Einarsdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs og Ragnheiður Björk Guðmundsdóttir, sviðsstjóri mannauðssvið.

Um Haga Eldum rétt

Fjölskylda eldar
Mynd af rétti
Fjölskylda borðar
Einstakir réttir
Kassi
  • Stofnað 2013

  • Starfsmenn 68

  • Réttir á boðstólum 465

  • Nýir viðskiptavinir 4.400+

Um Eldum rétt

Eldum rétt er netverslun sem stofnuð var árið 2013. Eldum rétt býður viðskiptavinum sínum matarpakka með uppskriftum og hráefni í réttu magni til að elda hollar og bragðgóðar máltíðir, með sem minnstri fyrirhöfn. Markmið Eldum rétt er að gera eldamennskuna skemmtilegri og samverustundir fjölskyldunnar fleiri og betri.

Í hverri viku geta viðskiptavinir raða saman réttum vikunnar í sinn matarpakka. Valið stendur á milli 22 rétta sem breytast í hverri viku og gerist fjölbreytnin því ekki mikið meiri. Með því að afhenda viðskiptavinum 2-5 rétti á sama tíma sparast bæði tími og orka. Öllum hráefnum er handpakkað svo hægt sé að tryggja hámarks ferskleika og gæði hverju sinni. Eldum rétt er leiðandi á þessum markaði og býður upp á ferska og holla lausn fyrir fjölskyldur og einstaklinga.

Pöntunarfrestur spilar lykilhlutverk í rekstri og þjónustu Eldum rétt. Viðskiptavinir panta með minnst fimm daga fyrirvara en með því fá þeir ferskari hráefni, meiri fjölbreytni, minni matarsóun og skilja eftir sig minna kolefnisfótspor. Í framleiðsluferlinu er tryggð lágmarks matarsóun þar sem pantað er nákvæmt magn hráefna frá birgjum og því er pakkað í rétta skammta til viðskiptavina.

Eldum rétt hefur gjörbylt neyslumynstri viðskiptavina sinna og eru nú mörg þúsund landsmanna sem borða Eldum rétt í hverri viku.

Í árslok störfuðu 68 starfsmenn hjá Eldum rétt og var meðalfjöldi stöðugilda á árinu 47.

Árið sem leið

Í mars 2022 náðu Hagar og eigendur Eldum rétt samkomulagi um kaup Haga á öllu hlutafé Eldum rétt. Kaupin voru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins sem samþykkti kaupin í október 2022. Þann 1. nóvember 2022 urðu Eldum rétt því formlega hluti af samstæðu Haga og telja fjárhagsleg áhrif félagsins í samstæðunni frá sama tíma.

Árið sem leið gekk vel hjá Eldum rétt og var það stærsta hingað til í fjölda heimsendinga. Lagt var af stað með þróun á „Einstökum réttum“ fyrir matvöruverslanir Haga og komu þeir í verslanir Hagkaups í apríl síðastliðnum.

Eldum rétt telst nú til stærstu netverslana á Íslandi með matvöru, en þar nýtur félagið góðs af sterkum tæknilegum grunni og gæðum fjölbreyttra matarpakka sem viðskiptavinir hafa tekið opnun örmum frá stofnun félagsins.

Framkvæmdastjórn Eldum rétt
Framkvæmdastjórn Eldum rétt skipa (frá vinstri): Oddur Örnólfsson, innkaupa- og framleiðslustjóri, Róbert K. Lárusson, tæknistjóri, Hrafnhildur Hermannsdóttir, markaðsstjóri, Hanný Inga Birschbach, þjónustustjóri, Valur Hermannsson, framkvæmdastjóri og Snorri Guðmundsson, þróunarstjóri.

Um Haga Aðföng

Aðföng starfsmaður KK
Aðföng vöruhús
Aðföng logo
Starfsmaður Ferskar
Aðföng starfsmaður á lyftara
  • Stofnað 1993

  • Starfsmenn 168

  • Seldir kassar 12 milljónir

  • Viðskiptalönd 29

Um Aðföng

Aðföng er innkaupa- og dreifingarmiðstöð á smásölu- og stórnotendamarkaði en starfsemi fyrirtækisins felst í innkaupum, birgðahaldi og dreifingu fyrir verslanir Bónus, Hagkaups og Olís auk Stórkaups. Sögu Aðfanga má rekja aftur til ársins 1993 þegar Bónus og Hagkaup stofnuðu sameiginlegt innkaupafyrirtæki undir nafninu Baugur ehf. Fyrirtækið hóf starfsemi í Suðurhrauni í Garðabæ og fékk nafnið Aðföng fimm árum síðar en þá um haustið, árið 1998, flutti fyrirtækið í Skútuvog 7. Alla tíð síðan hefur Aðföng þróað þar starfsemi sína fyrir þurrvörulager. Auk þurrvörulagers í Skútuvogi rekur Aðföng kæli- og frystivörugeymslu í Korngörðum 1 og starfsemi Ferskra kjötvara í Síðumúla 34. Ferskar kjötvörur eru einn af stærstu kjötverkendum landsins og býður neytendum upp á það besta í nauti og lambi frá íslenskum bændum. Ferskar kjötvörur leggja mikla áherslu á ferskleika, gæði og rekjanleika vara og sjá öllum matvöruverslunum Bónus og Hagkaups fyrir kjöti, auk þess að þjónusta veitingahús og fleiri aðila.

Innkaup Aðfanga felast annars vegar í viðskiptum við innlenda birgja og hins vegar innflutningi, þar á meðal eigin vörumerkja. Aðföng vinnur að vöruþróun eigin merkja í samstarfi við matvörukeðjurnar en þar ber hæst vörumerkin Himneskt og Heima. Aðföng flytur einnig inn áfengi sem selt er í vínbúðum ÁTVR og er verkefninu stýrt í gegnum Vínföng.

Stærðarhagkvæmni er lykilstef í allri starfsemi Aðfanga og er nýjasta tækni nýtt við rekstur fyrirtækisins hvar sem því verður við komið. Til þess að Aðföng geti sinnt kjarnahlutverki sínu, að tryggja íslenskum neytendum hágæða mat- og dagvöru, skiptir skilvirkur flutningur, gagnsæi í uppruna vöru og gæði öllu máli.

Aðföng leggja áherslu á að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif starfseminnar en með hagkvæmum og umhverfisvænum lausnum geta Aðföng stuðlað að öflun hráefna í fremstu röð. Nánari upplýsingar um sjálfbærnimál Aðfanga má finna í samfélagsskýrslu ársins 2022.

Hjá fyrirtækinu störfuðu í árslok 168 starfsmenn í 139 stöðugildum.

Árið sem leið

Undanfarin ár hafa verið ákaflega krefjandi í rekstri vöruhúsa og var nýliðið rekstrarár engin undantekning þar á, með áhrifum eftirstöðva heimsfaraldurs og stríðs í Úkraínu. Miklar truflanir hafa verið á aðfangakeðjunni sem valdið hefur hækkunum á hrávörumörkuðum. Skortur varð á matvöru og hráefnum til umbúða- og matvælaframleiðslu en bæði Úkraína og Rússland eru mjög stór lönd þegar kemur að framleiðslu á orku og vörum eins og málmi, áburði, korni, kjöti, eggjum og hráefnum í matarolíu. Þar sem framboð af vörum frá þessum tveimur löndum nær þurrkaðist út jókst eftirspurnin eftir þessum sömu vöruflokkum frá öðrum löndum sem orsakaði hækkað verð.

Nánast öll hráefni sem notuð eru í framleiðslu á daglegum nauðsynjavörum hækkuðu strax á fyrstu vikum stríðsins sem hefur orsakað mikla verðbólgu hér á landi, sem og í helstu viðskiptalöndum Aðfanga. Eins og gefur að skilja hefur því mestur tími og orka á árinu farið í að tryggja vöruframboð og gera allt sem hægt er til að sporna gegn hærra vöruverði og þannig veita baráttu við verðbólgu lið.

Í upphafi árs fór Aðföng í umfangsmikla stefnumótunarvinnu í sjálfbærnimálum og hefur fyrirtækið nú sett sér lykilmælikvarða og skýr undirmarkmið allt til ársins 2027.

Framkvæmdastjórn Aðfanga
Framkvæmdastjórn Aðfanga skipa, efri röð, frá vinstri: Einar Þórisson, innkaupastjóri, Ársæll Magnússon, rekstrarstjóri vöruhúsa og dreifingar, Baldvin Valgarðsson, gæða- og umhverfisstjóri, Guðmundur Oddgeirsson, öryggis- og vinnuverndarfulltrúi, Ingibjörn Sigurbergsson, rekstrarstjóri Ferskra kjötvara og Hafdís Rósa Sæmundsdóttir, fjármálastjóri. Neðri röð: Embla Grétarsdóttir, mannauðsstjóri og Lárus Óskarsson, framkvæmdastjóri.

Um Haga Bananar

Epli
Stigi
Blaðlaukur
Bananastrákur
Tómatar
  • Stofnað 1955

  • Starfsmenn 110

  • Viðskiptavinir 900+

  • Daglegar pantanir 430

Um Banana

Bananar ehf. var stofnað árið 1955 og er næst elsta fyrirtækið í samstæðu Haga. Bananar er stærsti innflutnings- og dreifingaraðili á fersku grænmeti, ávöxtum og berjum á Íslandi og jafnframt eitt stærsta innflutningsfyrirtæki landsins. Einnig eru Bananar stærsti kaupandi og dreifingaraðili á innlendri grænmetis- og berjaræktun.

Eins og nafn fyrirtækisins gefur til kynna voru fyrstu starfsár þess helguð innflutningi og þroskun banana. Síðan þá hafa áherslur breyst og í dag býður fyrirtækið upp á mikið og gott úrval af bæði íslensku og erlendu grænmeti og ávöxtum allan ársins hring. Vörum er dreift til viðskiptavina sex daga vikunnar, þar af til verslana Bónus og Hagkaups.

Viðskiptavinir Banana eru um 900 talsins og samanstanda af verslunum, veitingahúsum, heilbrigðisstofnunum, skólum, leikskólum, mötuneytum o.fl. 

Til þess að Bananar geti sinnt sínu kjarnahlutverki, að tryggja íslenskum neytendum hágæða mat- og dagvöru, skiptir skilvirkur flutningur, gagnsæi í uppruna vöru og gæði öllu máli. Til þess að sinna þessum þörfum hafa Bananar bein viðskiptasambönd út um allan heim og beina því viðskiptum sínum beint til þeirra landa þar sem gæði ávaxta og grænmetis er best hverju sinni. Vörur berast vikulega með skipi og daglega með flugi en auk þess berst daglega grænmeti frá íslenskum grænmetisbændum.

Starfsfólk Banana hefur um langt skeið haft sjálfbærni að leiðarljósi í sínu starfi enda er fyrirtækið þjóðhagslega mikilvægt þegar kemur að því að sjá landsmönnum daglega fyrir hollum og góðum vörum. Nánari upplýsingar um sjálfbærnimál Banana má finna í samfélagsskýrslu ársins 2022.

Starfsmenn fyrirtækisins voru í árslok 110 talsins í 98 stöðugildum

Árið sem leið

Rekstur Banana gekk vel á síðasta ári þrátt fyrir miklar áskoranir í ytra umhverfi, þar sem verðsveiflur á aðföngum fylgdu í kjölfar heimsfaraldurs og stríðs í Úkraínu. Til að treysta rekstur enn frekar hefur verið gert sérstakt átak í að styrkja innviði, með umbótum í gæðaferlum, vöruþróun, uppbyggingu innviða upplýsingatækni og stækkun vöruhúsa.

Á árinu var mikil áhersla lögð á stefnumótun fyrirtækisins og var viðskiptastefna þess uppfærð og samhliða því var hlutverk Banana einnig uppfært. Hingað til hefur megin áhersla Banana verið þjónustu-, innflutnings- og dreifingarfyrirtæki en nú mun hlutverk Banana fyrst og fremst snúa að því að leggja sitt af mörkum til að bæta lýðheilsu íslensku þjóðarinnar og þannig vera „hjartað í lýðheilsu Íslendinga“. Auk þess var farið í umfangsmikla stefnumótunarvinnu í sjálfbærni og hafa Bananar sett sér skýra lykilmælikvarða og undirmarkmið til ársins 2027.

Í framhaldi af mikilli stefnumótunarvinnu hefur orðið breyting á grunnrekstri Banana, sem hefur hingað til snúist um kaup og sölu á ávöxtum og grænmeti. Á árinu voru settar á laggirnar nýjungar sem fela í sér framleiðslu á vörum úr eigin hráefnum og hefur þannig verið aukið verulega við vöruúrval á tilbúnum vörum.

Framkvæmdastjórn Banana
Framkvæmdastjórn Banana skipa (frá vinstri): Pétur Smári Sigurgeirsson, sölustjóri veitingamarkaðar, Jóhanna Þ. Jónsdóttir, framkvæmdastjóri, Guðbjörg Helgadóttir, fjármálastjóri og Örvar Karlsson, sölustjóri. Á myndina vantar Sigurð Helgason, innkaupastjóra.

Um Haga Stórkaup

Hópur
Lógó
Bílar
Lager
Skrifstofa
  • Stofnað 2022

  • Starfsmenn 19

  • Viðskiptavinir 4.000+

  • Vörunúmer 3.000+

Um Stórkaup

Stórkaup er nýtt félag í eigu Haga en það var stofnað árið 2022 og hóf rekstur sinn í maí sama ár. Stórkaup er heildverslun sem þjónar stórnotendum með aðföng á breiðum grunni þar sem leiðarljósin í rekstri eru hagkvæmni, nútímalegt þjónustustig og einfalt skipulag sölu og dreifingar.

Helstu vöruflokkar fyrirtækisins eru ýmsar rekstrar-, hreinlætis- og heilbrigðisrekstrarvörur auk helstu flokka matvöru. Viðskiptavinir Stórkaups eru m.a. framleiðendur, sjávarútvegur, rekstraraðilar, veitingageirinn, hótel og heilbrigðisstofnanir.

Markmið Stórkaups er að bjóða gæða vörur á samkeppnishæfu verði, veita góða þjónustu og áreiðanleika í vöruframboði og afhendingum. Hjá Stórkaup starfar samhentur hópur með mikla reynslu og sérfræðiþekkingu á sínu sviði.

Hjá fyrirtækinu störfuðu í árslok 19 starfsmenn í 14 stöðugildum.

Árið sem leið

Stórkaup var stofnað í byrjun árs 2022 en stofnun þess byggir á grunni valinna vöruflokka fyrirtækjasviðs Olís þar sem Stórkaup tók yfir sölu, þjónustu og birgja á ýmsum rekstrar- og heilbrigðisvörum til stórnotenda. Í maí 2022 hóf Stórkaup svo formlega rekstur sinn og opnaði samhliða netverslun fyrir viðskiptavini sína.

Fyrsta starfsár Stórkaups einkenndist af innleiðingu á nýjum kerfum og ferlum. Reksturinn hefur farið vel af stað og hefur viðskiptavinum fjölgað jafnt og þétt. Þá hefur vörunúmerum einnig fjölgað og var matvöru nú nýlega bætt við starfsemina. Viðskiptavinir nýta sér ýmist þjónustu sölufólks en ánægjulegt er að notkun netverslunarinnar hefur aukist jafnt og þétt og hlutfall sölu í gegnum netsíðuna sömuleiðis.

Framkvæmdastjórn Stórkaups
Framkvæmdastjórn Stórkaups skipa (frá vinstri): Bjartur Logi Finnsson, sölustjóri matvöru, Guðmundur Elías Sæmundsson, sölustjóri heilbrigðisvöru, Þórey Anna Grétarsdóttir, verkefnastjóri og Árni Ingvarsson, rekstrarstjóri. Á myndina vantar Jón Berg Torfason, sölustjóra rekstrarvöru.

Um Haga Zara

Starfsmaður KVK
Poki
Hópur
Afgreiðslumaður
Starfsmaður KK
  • Stofnað 2001

  • Starfsmenn 53

  • Heimsóknir viðskiptavina 220.000+

Um Zara

Noron ehf. rekur verslun á Íslandi undir vörumerki Zara. Zara er ein stærsta tískuverslunarkeðja í heimi og selur fatnað og fylgihluti fyrir dömur, herra og börn á góðu verði.

Grunnurinn að velgengni vörumerkisins Zara á heimsvísu felst einna helst í því að greina óskir viðskiptavina og bregðast hratt við þeim. Varan er hönnuð í takt við stefnur og strauma í tískuheiminum hverju sinni og ráða viðtökur og óskir viðskiptavina frekari framleiðslu og vöruþróun.

Mikil áhersla er lögð á sanngjarnt verð og hraða vöruveltu en áhersla er lögð á að nýjar vörur séu á boðstólnum að lágmarki tvisvar í viku. Einnig hefur verslunarkeðjan unnið ötullega í sjálfbærni, meðal annars með því að endurvinna notaðan fatnað. Ný efni eru þá ofin úr notuðum þráðum og þau hönnuð og framleidd undir vörulínunni JOIN LIFE. Vörulínan er fáanleg í öllum deildum, dömu, herra og barna. Mikill metnaður er lagður í að allt efni sem notað er við framleiðslu á fatnaði sé umhverfisvænt.

Í daglegum rekstri verslunarinnar er allt sorp flokkað og endurunnið að því marki sem endurvinnsla er möguleg. Sömuleiðis er unnið að virku hringrásarhagkerfi með endursendingum til vöruhúsa á öllu endurnýtanlegu hráefni.

Fyrsta verslun Zara opnaði á Íslandi árið 2001 og í dag starfrækja Hagar eina verslun og vefverslun undir merki Zara með sérleyfissamningi frá Inditex á Spáni. Verslunin er staðsett í Smáralind.

Hjá fyrirtækinu störfuðu í árslok 53 starfsmenn í 29 stöðugildum.

Árið sem leið

Zara á gott ár að baki þar sem velta jókst nokkuð í krónum talið og fjöldi seldra stykkja og viðskiptavina stóð nánast í stað milli ára. Hlutfall netverslunar af heildarsölu hefur farið stækkandi undanfarin ár og var á árinu rúm 11%.

Árangur ársins er ánægjulegur, sérstaklega í ljósi aukinna ferðalaga landsmanna utan landsteinanna og efnahagsástandsins almennt.

Rekstrarstjóri Zara
Frá vinstri: Ingibjörg Sverrisdóttir, rekstrarstjóri og Guðrún Sólborg Tómasdóttir, verslunarstjóri.