Fara á efnissvæði

LYKILTÖLUR ÚR REKSTRI

Hér á eftir má sjá þróun rekstrar- og efnahagsstærða samstæðu Haga. 

Á 4. ársfjórðungi 2018/19 varð Olís hluti af samstæðu Haga og skýrir það þá miklu breytingu sem verður á bæði rekstri og efnahag samstæðunnar milli rekstraráranna 2018/19 og 2019/20. Auk þess tók í gildi á 1. ársfjórðungi 2019/20 leigustaðall IFRS 16 sem skýrir þá breytingu sem verður á EBITDA- og rekstrarkostnaðarhlutfalli.

SALA OG FRAMLEGÐ

REKSTRARKOSTNAÐUR

AFKOMA

HAGNAÐUR Á HLUT

EIGNIR

EIGIÐ FÉ

SKULDSETNING

Árið sem leið Ársreikningur

Ársreikningur Haga hf. fyrir rekstrarárið 2022/23 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 27. apríl 2023. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2022 til 28. febrúar 2023. Ársreikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) og viðeigandi ákvæði laga um ársreikninga. Endurskoðendur félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf., hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralausri áritun.

REKSTRARREIKNINGUR

Fjárhæðir í millj. kr. 2022/23 2021/22 Breyting %
Vörusala 161.992 135.758 26.234 19,3%
Kostnaðarverð seldra vara -131.005 -107.317 -23.688 22,1%
Framlegð 30.987 28.441 2.546 9,0%
Aðrar rekstrartekjur 1.031 525 506 96,4%
Hagnaður af sölu eigna 966 349 617 176,8%
Laun og launatengd gjöld -14.345 -12.992 -1.353 10,4%
Annar rekstrarkostnaður -6.598 -5.805 -793 13,7%
EBITDA 12.041 10.518 1.523 14,5%
Afskriftir -4.453 -4.241 -212 5,0%
Rekstrarhagnaður 7.588 6.277 1.311 20,9%
Hrein fjármagnsgjöld -1.887 -1.503 -384 25,5%
Áhrif hlutdeildarfélaga 392 209 183 87,6%
Hagnaður fyrir tekjuskatt 6.093 4.983 1.110 22,3%
Tekjuskattur -1.144 -982 -162 16,5%
Heildarhagnaður ársins 4.949 4.001 948 23,7%

 

Vörusala ársins nam 161.992 m.kr., samanborið við 135.758 m.kr. árið áður. Söluaukning milli ára nam 19,3%. Söluaukning verslana og vöruhúsa nam 10,6% og söluaukning hjá Olís nam 37,0%.

Fjöldi seldra stykkja í dagvöruverslunum jókst nokkuð á árinu og heimsóknum viðskiptavina fjölgaði sömuleiðis. Lítilsháttar samdráttur var í seldum eldsneytislítrum hjá Olís en seldum lítrum til stórnotenda fækkaði á meðan seldum lítrum í smásölu fjölgaði.

Framlegð samstæðunnar var 30.987 m.kr., samanborið við 28.441 m.kr. árið áður, eða aukning um 9,0%. Framlegðarhlutfall lækkaði hins vegar og var 19,1% í samanburði við 20,9% á fyrra ári. Framlegðarhlutfall dagvöru lækkar lítillega en að mestu leyti má rekja lækkunina til eldsneytishluta samstæðunnar.

Einskiptistekjur á árinu námu rúmum 1,4 ma. kr. sem tilkomnir eru vegna viðskipta Haga með Klasa (966 m.kr.) og endurgreiðslu flutningsjöfnunargjalds (451 m.kr.). Til samanburðar námu einskiptistekjur fyrra árs 349 m.kr.

Laun hækkuðu um 10,4% milli ára, bæði vegna lengri opnunartíma og aukinna umsvifa hjá Bónus en einnig vegna áhrifa kjarasamninga. Ársverkum fjölgaði um 52 hjá samstæðunni á árinu, einkum vegna fyrrnefndrar aukningar hjá Bónus en einnig þar sem Eldum rétt kom nýtt inn í samstæðuna seinni hluta árs. Annar rekstrarkostnaður hækkaði um 13,7% á árinu, einkum vegna áhrifa verðbólgu, hærra eldsneytisverðs o.fl.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 12.041 m.kr., samanborið við 10.518 m.kr. árið áður. EBITDA-hlutfall var 7,4%, samanborið við 7,7% á fyrra ári. EBITDA án einskiptisliða nam 10.624 m.kr. og 10.169 m.kr. á fyrra ári eða 4,5% hækkun milli ára.

Heildarhagnaður tímabilsins nam 4.949 m.kr., sem jafngildir 3,1% af veltu en heildarhagnaður á fyrra ári var 4.001 m.kr. eða 2,9% af veltu.

STARFSÞÁTTAYFIRLIT

EBITDA ÁRSFJÓRÐUNGA

EFNAHAGSREIKNINGUR

Fjárhæðir í millj. kr. 28.02.23 28.02.22 Breyting %
Eignir        
Fastafjármunir 50.502 45.064 5.438 12,1%
Veltufjármunir 21.505 17.740 3.765 21,2%
Eignir til sölu 0 2.388 -2.388 -
Eignir samtals 72.007 65.192 6.815 10,5%
         
Eigið fé        
Hlutafé 1.119 1.139 -20 -1,8%
Annað eigið fé 26.812 25.587 1.225 4,8%
Eigið fé samtals 27.931 26.726 1.205 4,5%
Skuldir        
Langtímaskuldir 21.101 20.950 151 0,7%
Skammtímaskuldir 22.975 17.516 5.459 31,2%
Skuldir samtals 44.076 38.466 5.610 14,6%
Eigið fé og skuldir samtals 72.007 65.192 6.815 10,5%

 

Heildareignir samstæðunnar í lok rekstrarárs námu 72.007 m.kr. og hækkuðu um 6.815 m.kr. frá árslokum 2021/22 eða um 10,5%.

Fastafjármunir voru 50.502 m.kr. og hækkuðu um 5.438 m.kr. frá árslokum 2021/22. Þar telur að mestu eignarhlutur Haga í Klasa sem bókfærður var í lok annars ársfjórðungs og hækkun óefnislegra eigna vegna kaupa Haga á Eldum rétt á þriðja ársfjórðungi.

Veltufjármunir voru 21.505 m.kr. og hækkuðu um 1.377 m.kr. frá árslokum 2021/22, að meðtöldum eignum til sölu á fyrra ári.

Birgðir í lok febrúar voru 12.717 m.kr. og veltuhraði birgða 11,2. Birgðir hækkuðu um 2.010 m.kr. frá lokum árs 2021/22 en hækkun birgða má að stærstum hluta rekja til hærri eldsneytisbirgða, sem orsakast að einhverju leyti af meira magni í lítrum talið en aðallega vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði milli ára. Veltuhraði birgða á fyrra ári var 11,0.

Viðskiptakröfur og aðrar skammtímakröfur lækka um 331 m.kr. á árinu. Innheimtutími viðskiptakrafna var 11,1 dagur samanborið við 11,7 daga á fyrra ári.

Veltufjárhlutfall var 0,94 og lausafjárhlutfall 0,38 í lok rekstrarárs. Aðgangur að skammtímafjármögnun í formi lánalína að upphæð 6,2 ma. kr. hjá viðskiptabanka er tryggður.

Eigið fé í lok rekstrarárs nam 27.931 m.kr. og eiginfjárhlutfall 38,8%. Arðsemi eigin fjár var 18,5%. Eiginfjárhlutfall við lok síðasta rekstrarárs var 41,0% og arðsemi eigin fjár 15,9%. Félagið átti 13,9 millj. eigin hluti í lok rekstrarárs.

Heildarskuldir samstæðunnar í lok rekstrarárs voru 44.076 m.kr. en þar af voru vaxtaberandi skuldir 15.154 m.kr. og leiguskuldir 9.068 m.kr. Nettó vaxtaberandi skuldir, með leiguskuldum, í lok rekstrarárs voru 21.353 m.kr. eða 1,8 x EBITDA ársins. Nettó vaxtaberandi skuldir, án leiguskulda, voru 1,0 x EBITDA.

Meðal vaxtaberandi skammtímaskulda eru víxilskuldir að fjárhæð 1.080 m.kr. auk þess sem lánalína var ádregin um 1.800 m.kr. í árslok. Stjórn Haga samþykkti þann 23. nóvember 2022 útgáfuramma um útgáfu skuldabréfa og víxla að fjárhæð 10.000 millj. kr. Þann 19. janúar 2023 var efnt til víxlaútboðs á 5 mánaða víxlaflokki og var tekið tilboðum að fjárhæð 1.080 m.kr. Víxlaflokkurinn var tekinn til viðskipta á Nasdaq Iceland þann 27. janúar sl.

FJÁRFESTINGAR ÁRSINS

SJÓÐSTREYMISYFIRLIT

Fjárhæðir í millj. kr. 2022/23 2021/22 Breyting %
Handbært fé frá rekstri 9.138 7.411 1.727 23,3%
Fjárfestingarhreyfingar -3.962 -1.864 -2.098 112,6%
Fjármögnunarhreyfingar -3.090 -5.152 2.062 -40,0%
Hækkun á handbæru fé 2086 395 1.691 428,1%
Handbært fé í ársbyrjun 783 388 395 101,8%
Handbært fé í árslok 2.869 783 2.086 266,4%

Handbært fé frá rekstri á árinu nam 9.138 m.kr., samanborið við 7.411 m.kr. á fyrra ári.

Fjárfestingarhreyfingar ársins voru 3.962 m.kr., samanborið við 1.864 m.kr. á fyrra ári. Fjárfesting í rekstrarfjármunum nam 2.301 m.kr. á árinu, sem einkum er vegna opnunar nýrrar verslunar Bónus á Norðurtorgi á Akureyri og endurnýjun verslana Bónus og Hagkaups ásamt endurnýjun á þjónustustöðvum Olís. Fjárfesting í óefnislegum eignum nam 709 m.kr. og sjóðstreymisáhrif af fjárfestingu í dótturfélagi nam 1.275 m.kr.

Fjármögnunarhreyfingar ársins voru 3.090 m.kr., samanborið við 5.152 m.kr. á fyrra ári. Endurkaup eigin bréfa á rekstrarárinu námu 1.500 m.kr. og arðgreiðsla í júní 2022 nam 2.265 m.kr. Til samanburðar námu endurkaup fyrra árs 1.000 m.kr. og arðgreiðsla 2021 nam 1.466 m.kr.

Handbært fé í lok rekstrarárs nam 2.869 m.kr. til samanburðar við 783 m.kr. í lok fyrra árs.

Árið sem leið Staðan og framtíðarhorfur

Árið sem nú var að líða einkenndist af miklum hækkunum á hrávörumörkuðum, þá einkum vegna stríðsátaka í Úkraínu. Umrót á mörkuðum síðastliðin þrjú ár, fyrst vegna heimsfaraldurs og nú vegna stríðsátaka, hefur valdið hnökrum í framleiðslu matvöru og í aðfangakeðjunni allri. Hefur þetta leitt til mikilla hækkana á verði aðfanga. Í róstursömu og krefjandi umhverfi hækkandi vaxtakostnaðar, mikilla verðhækkana og verðbólgu hefur velta aukist í krónum talið en á sama tíma hefur framlegðarhlutfall lækkað nokkuð, einkum í eldsneytishluta samstæðunnar. Hagar hafa lagt mikla áherslu á að sporna við hækkandi vöruverði til neytenda, sem endurspeglast í lækkuðu framlegðarhlutfalli félagsins, og þannig lagt sitt af mörkum til að tryggja viðskiptavinum sínum vörur og þjónustu á sem hagkvæmasta verði. Um leið hafa Hagar lagt lóð á vogarskálar til að halda aftur af verðbólgu.

Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið sem nú er liðið gerði ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) yrði á bilinu 10.200-10.700 m.kr., ef frá eru talin áhrif einskiptisliða sem tengjast sölu á eignum til Klasa og endurgreiðsla flutningsjöfnunargjalds. Áhrif einskiptisliða á EBITDA samstæðunnar voru á öðrum ársfjórðungi um 966 m.kr. vegna sölu á eignum til Klasa og á þriðja ársfjórðungi 451 m.kr. vegna endurgreiðslu flutningsjöfnunargjalds. Rekstrarhagnaður ársins fyrir afskriftir (EBITDA) án áhrifa skilgreindra einskiptisliða er 10.624 m.kr. og er innan útgefinnar afkomuspár.

Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2023/24 sem hófst 1. mars 2023 gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) verði á bilinu 11.000-11.500 m.kr., sem er að teknu tilliti til einskiptisliða 2022/23 nokkuð umfram afkomu síðastliðins rekstrarárs.

Fjárfestingaráætlun ársins 2023/24 nemur 5.000-5.500 m.kr. en stærsti einstaki liðurinn er fjárfesting í fasteign við Norðlingabraut 2 í Reykjavík, sem upphaflega var á áætlun ársins 2022/23. Þá er á döfinni opnun þriggja nýrra Bónusverslana, stór innleiðingarverkefni í upplýsingatækni og stafrænni þróun ásamt endurnýjun þjónustustöðva og matvöruverslana, m.a. í frekari sjálfbærnitengdum verkefnum líkt og kolsýruvæðingu kæli- og frystibúnaðar.

Fjárhagsleg staða samstæðu Haga hf. er sterk og er félagið vel í stakk búið til að takast á við krefjandi aðstæður í íslensku efnahagslífi. Fjármögnun samstæðunnar er tryggð til langs tíma og er aðgangur að skammtímafjármögnun í formi lánalína að fjárhæð 4,5 ma. kr. og USD 12,5 millj. einnig tryggður. Þá hefur félagið undanfarið nýtt sér skammtímafjármögnun í formi víxlaútgáfu en útgáfa víxlanna er í samræmi við grunnlýsingu 10 ma. kr. útgáfuramma sem stjórn félagsins hefur samþykkt. Gera má ráð fyrir að félagið horfi í meira mæli til markaðsfjármögnunar á næstu misserum.

Í janúar 2023 náðu Hagar samkomulagi við eigendur Dista ehf. um kaup Haga á öllu hlutafé Dista. Dista er heildverslun með áfengar og óáfengar drykkjarvörur og var stofnuð árið 2000. Kaupin eru gerð með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Árið sem leið Fréttir úr starfseminni

STÓRKAUP HEFUR REKSTUR OG OPNAR NÝJA NETVERSLUN

Stórkaup er nýtt félag í eigu Haga en það hóf rekstur í maí 2022. Stórkaup er heildverslun sem þjónustar stórnotendur með aðföng og eru leiðarljósin í rekstri fyrirtækisins hagkvæmni, nútímalegt þjónustustig og einfalt skipulag sölu og dreifingar.

Helstu vöruflokkar fyrirtækisins eru ýmsar rekstrar-, hreinlætis- og heilbrigðisrekstrarvörur auk helstu flokka matvöru. Viðskiptavinir Stórkaups eru m.a. framleiðendur, sjávarútvegur, rekstraraðilar, veitingageirinn, hótel og heilbrigðisstofnanir.

NÝ BÓNUS VERSLUN OPNUÐ Á AKUREYRI

Ný matvöruverslun Bónus opnaði í verslunarkjarnanum á Norðurtorgi á Akureyri í maí 2022. Verslunin er rúmir 2.000 fermetrar að stærð og er aðgengi að versluninni gott með fjölda bílastæða og rafhleðslustöðvum.

Nýja verslunin er byggð á grænum grunni og er þar m.a. notaður íslenskur CO2 kælimiðill fyrir kæli- og frystivélar frá Hæðarenda í Grímsnesi. Einnig eru LED lýsingar sem spara orku í allri versluninni, bæði að utan sem innan.

Verslunin hefur það að leiðarljósi að efla þjónustu við íbúa Norðurlands og leggur sérstaka áherslu á að bjóða vörur úr nærumhverfi. Verslunin Norðurtorgi er þriðja Bónus verslunin á Akureyri en verslanir við Langholt og Kjarnagötu hafa verið starfræktar um langt skeið.

HAGKAUP OPNAR VERSLANIR Á NETINU

Í maí 2022 opnaði Hagkaup stærstu snyrtivöruverslun landsins á netinu. Í vefversluninni má finna þúsundir vörunúmera frá mörgum af stærstu snyrtivörumerkjum heims. Þar má einnig finna efnismikið blogg og þar er alltaf hægt að leita í góð ráð og innblástur. 

Í október 2022 opnaði Hagkaup svo nýja leikfangaverslun á netinu og er það mikið ánægjuefni að með þessum tveimur nýju verslunum er nú hægt að þjónusta viðskiptavini Hagkaups um allt land en boðið er upp á sendingar hvert á land sem er, hratt og örugglega.

SALA Á MJÖLL FRIGG

Í júlí 2022 undirrituðu Olís og Takk Hreinlæti kaupsamning um kaup Takk Hreinlætis á öllu hlutafé í Mjöll Frigg, dótturfélagi Olís. Mjöll Frigg var afhent nýjum eigendum í ágústlok þegar samþykki Samkeppniseftirlitsins lá fyrir.

KAUP Á EIGNARHLUT Í KLASA SAMÞYKKT

Í desember 2021 undirrituðu Hagar samning um áskrift að hlutafé í fasteignaþróunarfélaginu Klasa ásamt Reginn og KLS eignarhaldsfélagi. Eignarhlutur Haga í Klasa nemur 1/3 af útgefnu hlutafé, líkt og eignarhlutur Regins og KLS eignarhaldsfélags. Í júní 2022 undirrituðu Hagar sátt við Samkeppniseftirlitið vegna kaupanna, með þremur skilyrðum sem Hagar skuldbinda sig til að hlíta. Viðskiptin komu til framkvæmda í lok ágúst 2022 en framlag Haga í viðskiptunum eru fasteignir og lóðir metnar á um 3,9 ma. kr.

Markmið Haga með samstarfi um fjárfestingu í Klasa er að flýta fyrir verðmætasköpun á grunni þróunareigna samstæðunnar, skapa ný tækifæri sem tengjast öðrum eignum Klasa og gera stjórnendum Haga kleift að einbeita sér fyrst og fremst að kjarnarekstri í dagvöru og eldsneyti.

Framundan eru spennandi verkefni við uppbyggingu eigna Klasa, þar sem vænt byggingarmagn núverandi verkefna er ríflega 300.000 fermetrar, þar af allt að 1.500 íbúðir.

ELDUM RÉTT VERÐUR HLUTI AF FJÖLSKYLDU HAGA

Í mars 2022 náðu Hagar samkomulagi við eigendur Eldum rétt um kaup Haga á öllu hlutfé Eldum rétt. Kaupin voru gerð með fyrirvara um afstöðu Samkeppniseftirlitsins en kaupin voru samþykkt í október 2022 og tóku Hagar formlega við félaginu þann 1. nóvember. 

Eldum rétt sérhæfir sig í gerð ljúffengra matarpakka sem viðskiptavinir geta pantað á netinu en í hverri viku geta viðskiptavinir valið á milli nýrra uppskrifta, með einföldum leiðbeiningum, og hagað matseðli vikunnar þannig að hann henti allri fjölskyldunni. Vöruframboð Eldum rétt er því frábær viðbót við þjónustuframboð Haga. Eldum rétt var stofnað árið 2013 en stjórnendur og starfsfólk fyrirtækisins hafa skapað sterkt vörumerki á skömmum tíma og eru Hagar stoltir af því að bjóða Eldum rétt velkomið í fjölskylduna.

Árið sem leið Hagar í Kauphöll

HLUTABRÉFIN

Viðskipti með hlutabréf Haga á Aðalmarkaði NASDAQ OMX Iceland hófust þann 16. desember 2011. Útgefið hlutafé í Högum nam 1.132.676.082 krónum í árslok og er hver hlutur 1 króna að nafnverði. Í lok árs námu eigin hlutir 13,9 milljónum króna að nafnverði. Auðkenni félagsins er HAGA. 

Í lok rekstrarársins, þann 28. febrúar 2023, stóð gengi hlutabréfa í Högum í 69,0 kr. á hlut, samanborið við 72,0 kr. á hlut í lok febrúar 2022 og lækkuðu bréf félagsins því um 4,2% á síðastliðnu rekstrarári. Verð í lok skráningardags þann 16. desember 2011 var 15,95 kr. á hlut.

ÞRÓUN HLUTABRÉFAVERÐS

HLUTHAFAR

Samkvæmt hlutaskrá félagsins voru hluthafar 986 talsins í byrjun rekstrarársins og 1.055 í lok þess. Stærsti einstaki hluthafinn er Gildi – lífeyrissjóður með 19,37% hlut. Lífeyrissjóðir starfsmanna ríkisins eiga óbeint 13,60% í félaginu en þeir samanstanda af A-, B- og S-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. 20 stærstu hluthafar félagsins eiga samtals 87,08% hlut en sömu hluthafar áttu samtals 82,89% hlut í lok síðasta árs. 20 stærstu hluthafarnir í lok rekstrarársins 2021/22 áttu þá 84,51% hlut.

 

  Hluthafi Fjöldi hluta 28.02.23 % Fjöldi hluta 28.02.22 %
1 Gildi - lífeyrissjóður 219.358.769 19,37% 216.348.121 18,74%
2 Lífeyrissj. starfsm. rík. A-deild 124.980.360 11,03% 123.930.000 10,74%
3 Lífeyrissjóður verzlunarmanna 118.717.852 10,48% 120.387.852 10,43%
4 Birta lífeyrissjóður 93.140.626 8,22% 90.562.891 7,85%
5 Brú lífeyrissjóður starfsm. sveitarfél. 88.761.215 7,84% 71.284.534 6,18%
6 Kaldbakur ehf. (áður Samherji hf.) 51.211.948 4,52% 51.211.948 4,44%
7 Festa - lífeyrissjóður 47.339.169 4,18% 47.539.169 4,12%
8 Stapi lífeyrissjóður 42.296.351 3,73% 53.189.251 4,61%
9 Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda 33.356.665 2,94% 33.356.665 2,89%
10 Íslensk verðbréf - safnreikningur 30.435.691 2,69% 30.435.691 2,64%
11 Lífeyrissj. starfsm. rík. B-deild 29.081.812 2,57% 29.070.000 2,52%
12 Lífeyrissjóður starfsm. Rvk.borgar 22.238.306 1,96% 16.138.306 1,40%
13 Hagar hf. 13.937.278 1,23% 14.867.063 1,29%
14 Frjálsi lífeyrissjóðurinn 13.800.574 1,22% 19.945.604 1,73%
15 Vanguard Total International S 12.831.173 1,13% 0 0,00%
16 Almenni lífeyrissjóðurinn 10.453.671 0,92% 10.453.671 0,91%
17 Arctic Funds PLC 10.015.000 0,88% 11.200.000 0,97%
18 Vanguard Emerging Markets Stock 9.329.400 0,82% 0 0,00%
19 Lífsverk lífeyrissjóður 7.528.431 0,66% 9.278.431 0,80%
20 Lífeyrissjóður Vestmannaeyja 7.507.778 0,66% 7.507.778 0,65%
  20 stærstu hluthafar 986.322.069 87,08% 956.706.975 82,89%
  Aðrir hluthafar 146.354.013 12,92% 197.525.904 17,11%
  Skráð hlutafé 1.132.676.082 100,00% 1.154.232.879 100,00%
  Hagar - eigin bréf 13.937.278 1,23% 14.867.063 1,29%
  Útistandandi hlutir 1.118.738.804 98,77% 1.139.365.816 98,71%

 

Eins og áður segir voru hluthafar í árslok 1.055 talsins en þeim má skipta í nokkra flokka. 821 einstaklingar eiga hlut í félaginu, með samtals um 3,0% af heildarhlutafé, en á sama tíma á fyrra ári voru 771 einstaklingar hluthafar í félaginu með 3,1%. 30 lífeyrissjóðir eiga 77,8% hlut í félaginu en á fyrra ári áttu 28 lífeyrissjóðir 75,5% hlut í því. Aðrir fjárfestar eru 170 talsins og eiga 12,9% hlut. Á fyrra ári voru aðrir fjárfestar 179 talsins með 18,0% hlut. Þá eru 33 erlendir fjárfestar í félaginu og eiga þeir 5,1% hlut til samanburðar við 2,2% á fyrra ári.

Flokkur Fjöldi hluta % Fjöldi hluthafa %
Lífeyrissjóðir 881.452.098 77,8% 30 2,8%
Aðrir fjárfestar 146.336.608 12,9% 170 16,1%
Einstaklingar 33.635.174 3,0% 821 77,8%
Erlendir fjárfestar 57.314.924 5,1% 33 3,1%
Eigin bréf 13.937.278 1,2% 1 0,1%
Hlutafé samtals 1.132.676.082 100,0% 1.055 100,0%

 

Í næstu töflu hér á eftir má sjá dreifingu hlutafjáreignar í félaginu í árslok. Flestir hluthafar, 482 talsins, eiga 1-9.999 hluti og samtals 0,1% hlutafjár. Þrír hluthafar eiga hvor um sig yfir 100.000.000 hluti í félaginu.

Fjöldi hluta Fjöldi hluthafa % Fjöldi hluta %
1-9.999 482 45,7% 1.574.911 0,1%
10.000-99.999 384 36,4% 13.411.645 1,2%
100.000-499.999 112 10,6% 23.536.103 2,1%
500.000-999.999 25 2,4% 17.821.853 1,6%
1.000.000-4.999.999 28 2,7% 64.934.942 5,7%
5.000.000-9.999.999 7 0,7% 49.440.268 4,4%
10.000.000-99.999.999 13 1,2% 484.962.201 42,8%
> 100.000.000 3 0,3% 463.056.981 40,9%
Samtals útistandandi 1.054 99,9% 1.118.738.804 98,8%
Eigin bréf 1 0,1% 13.937.278 1,2%
Samtals 1.055 100,0% 1.132.676.082 100,0%

 

ENDURKAUPAÁÆTLANIR

Á aðalfundi Haga sem haldinn var þann 1. júní 2022 var samþykkt að heimila félaginu að kaupa á næstu 18 mánuðum allt að 10% af heildarhlutafé í þeim tilgangi að koma á viðskiptavakt með hluti í félaginu og/eða til að setja upp formlega endurkaupaáætlun. Á rekstrarárinu 2022/23 voru settar í framkvæmd tvær endurkaupaáætlanir á grundvelli fyrrgreindrar samþykktar auk einnar endurkaupaáætlunar á grundvelli samþykktar aðalfundar 2021. Endurkaupin námu 20,6 millj. hluta fyrir samtals 1.500 millj. kr. Frá lokum rekstrarárs hafa verið keypt eigin bréf með öfugu tilboðsfyrirkomulagi að fjárhæð 832,5 millj. kr. og eiga Hagar nú 26,2 millj. eigin hluti eða 2,32% af útgefnu hlutafé. 

AÐALFUNDUR

Aðalfundur Haga hf. árið 2023 verður haldinn þann 1. júní 2023 og hefst hann kl. 15:00. Fundurinn verður haldinn á Hilton Reykjavík Nordica (Vox Club), Suðurlandsbraut 2 í Reykjavík. Dagskrá fundarins og tillögur stjórnar hafa þegar verið auglýstar en niðurstöður fundarins verða birtar í Kauphöll og á vefsíðu félagsins strax að honum loknum.

ARÐGREIÐSLA OG ARÐGREIÐSLUSTEFNA

Stjórn Haga hefur mótað arðgreiðslustefnu félagsins en hana má sjá í heild sinni hér.

Stjórn Haga hf. leggur til við aðalfund félagsins þann 1. júní 2023 að greiddur verði arður til hluthafa vegna reikningsársins 2022/23 sem nemi 50,0% hagnaðar ársins eða samtals 2.475 milljónir króna. Arðgreiðslan nemur því 2,24 kr. á hlut útistandandi hlutafjár.

Samþykki aðalfundur tillöguna skal arðsréttindadagur vera 5. júní 2023 þ.e. réttur hluthafa til arðgreiðslu verður miðaður við hlutaskrá félagsins í lok þess viðskiptadags. Arðleysisdagur, þ.e. sá dagur sem viðskipti hefjast með bréf félagsins án réttar til arðs vegna reikningsársins 2022/23 verður því 2. júní 2023, eða næsti viðskiptadagur eftir aðalfund. Útborgunardagur arðs verður 13. júní 2023.

FJÁRHAGSDAGATAL

Birting árs- og árshlutauppgjöra á sér stað eftir lokun markaða hverju sinni. Kynningarfundir eru alla jafna haldnir kl. 08:30 daginn eftir birtingu uppgjörs og er tilkynnt tímanlega um staðsetningu fundar hverju sinni.

Eftirfarandi fjárhagsdagatal fyrir rekstrarárið 1. mars 2023 til 29. febrúar 2024 hefur verið samþykkt af stjórn félagsins:

Rekstrarárið 2023/24 Vikudagur Birtingardagur
1. ársfj. Miðvikudagur 28. júní 2023
2. ársfj. Miðvikudagur 18. október 2023
3. ársfj. Fimmtudagur 11. janúar 2024
4. ársfj. Þriðjudagur 23. apríl 2024
Aðalfundur 2024 Fimmtudagur 30. maí 2024