Fara á efnissvæði

Á vegum Haga eru reknar sjö sjálfstæðar rekstrareiningar með ólík rekstrarform og menningu. Allar einingarnar leggja áherslu á hagkvæman rekstur, góða þjónustu og hámörkun á virði fyrir viðskiptavini og eigendur félagsins. Rekstrareiningar Haga búa yfir áralangri þekkingu á viðskiptum og smásölu og byggja á trausti viðskiptavina sem áunnist hefur um langt árabil.

STEFNA HAGA UM SAMFÉLAGSLEGA ÁBYRGÐ

Hagar hafa lagt metnað frá upphafi í að þjóna íslenskum neytendum með ábyrgum hætti. Stefna Haga um samfélagslega ábyrgð er langtímaáætlun félagsins um hvernig það getur lagt sitt að mörkum til betra og heilbrigðara samfélags og umhverfis, samhliða heilbrigðum rekstri.

Stefna Haga um samfélagslega ábyrgð byggir á fimm meginstoðum

Stoðirnar móta áherslur félagsins og þau lykilverkefni sem unnið er að hverju sinni. Meginstoðirnar fimm í stefnunni eru ekki innbyrðis háðar og ein stoð er ekki annarri mikilvægari.

Stefnan segir auk þess til um hvernig samskiptum við hagsmunaaðila verði háttað. Helstu hagsmunaaðilar Haga eru starfsfólk, hluthafar, viðskiptavinir, birgjar og fjármögnunaraðilar, fjölmiðlar auk samfélagsins í heild sinni. Samfélagsleg ábyrgð er hluti af grunnrekstri félagsins og er höfð að leiðarljósi við ákvarðanatöku í öllum málefnum. Við mat á árangri skal horft til þeirra áhrifa sem félagið hefur á samfélag sitt og umhverfi, auk arðsemi.

Hagar hafa sett sérstaka stefnu í umhverfismálum fyrir Haga og dótturfélög. Stefnan er sett fram í þeim tilgangi að leggja áherslu á umhverfissjónarmið í öllum daglegum rekstri.

Hagar eru aðilar að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð. Einnig hafa Hagar gert samning við Klappir Grænar lausnir hf. en markmið með samningnum er að ná mælanlegum árangri í umhverfismálum og málum tengdum sjálfbærni. Einnig hafa Hagar gerst bakhjarlar Grænvangs, samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um loftlagsmál og grænar lausnir. 

HEIMSMARKMIÐ SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA

Hagar hafa valið sex af sautján heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna til þess að styðja enn frekar við stefnu félagsins í samfélagslegri ábyrgð. Markmiðin eru; 9: Nýsköpun og uppbygging, 12: Ábyrg neysla og framleiðsla, 10: Aukinn jöfnuður, 5: Jafnrétti kynjanna, 8: Góð atvinna og hagvöxtur, 13: Aðgerðir í loftlagsmálum

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmiðin styðja stefnustoðir félagsins og er ætlað að virkja stjórnendur til innleiðingar á framkvæmdaráætlun í sjálfbærni og samfélagslegum verkefnum. Rekstrarfélögin Bónus, Hagkaup og Olís hafa öll valið sér heimsmarkmið í samræmi við rekstrarlegar áherslur og eru þau ítarlega kynnt í samfélagsskýrslum fyrirtækjanna sem finna má hér neðar á síðunni.

SJÁLFBÆRNIUPPGJÖR HAGA (UFS)

Hagar og öll rekstrarfélögin hafa í samvinnu við Klappir Grænar lausnir hf. innleitt umhverfisstjórnunarkerfi Klappa og unnið að greiningu á mælanlegum árangri félagsins í umhverfismálum og öðrum málum tengdum sjálfbærni. Klappir hafa í samvinnu við Haga tekið saman samfélagsuppgjör samstæðunnar fyrir rekstrarárið 2021 skv. UFS leiðbeiningum Nasdaq. Niðurstöðum samfélagsuppgjörs Haga er skipt í þrjá hluta: umhverfisþættir , félagslegir þættir og stjórnarhættir.

LYKILÞÆTTIR ÚR SJÁLFBÆRNIUPPGJÖRI HAGA

  • Losun félagsins nam 4.150,2 tonnum koltvísýringsígilda (tCO2í), en það er 6,4% lækkun frá 2020.
  • Losunarkræfni tekna árið 2021 var 30,6 tCO2í/milljón ISK, en það er 17,6% lækkun frá 2020.
  • Heildarorkunotkun félagins nam 69.114.036 kWst. Orkunotkun samanstendur af rafmagns-, heitavatns-, og eldsneytisnotkun. Óbein orkunotkun vegna rafmagns og heitavatnsnotkunar nam 65.400.670 kWst.
  • Heildarmagn úrgangs frá rekstri Haga hf. árið 2021 nam 5.077.119 kg, sem er 10,8% lækkun frá 2020.
  • Flokkunarhlutfall Haga hf. hækkaði um 2,3 prósentustig frá 2020, úr 66,2% í 68,5%.
  • Úrgangskræfni tekna var 37,4 kg/milljón ISK, en það er 21,4% lækkun frá 2020.

Hagar hafa kolefnisjafnað rekstur sinn að fullu með mótvægisaðgerðum með fjárfestingu í verkefnum á vegum Kolviðar og Landgræðslunnar. Samtals mótvægisaðgerðir jafngilda 4.150,2 tCO2í.

REKSTRAREININGAR OG SAMFÉLAGSLEG ÁBYRGÐ

Fyrirtækin Bónus, Hagkaup og Olís hafa gefið út samfélagsskýrslu fyrir rekstarárið 2021. Í skýrslunum má sjá samantekt á helstu sjálfbærni- og samfélagsverkefnum á árinu sem og markmið fyrirtækjanna í sjálfbærni fyrir árið 2022. Aðföng, Bananar og Zara hafa einnig gefið út sjálfbærniuppgjör í samvinnu við Klappir fyrir árið 2021. Skýrslurnar má sjá hér fyrir neðan. 

Sjálfbærniuppgjör Umhverfisþættir

Losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri samstæðu Haga er skilgreind út frá "Operational Control" aðferðafræðinni og skiptist hún í umfang 1, 2 og 3. Innan rekstrarmarka Haga er losun í umfangi 1 vegna beinnar orkunotkunar, þ.e.  eldsneytisnotkunar farartækja í eigu og rekstri Haga og dótturfélaga og í umfangi 2 fyrir óbeina orkunotkun (raforku- og vatnsnotkun) á skrifstofu móðurfélagsins og á skrifstofum, í verslunum, vöruhúsum, kjötvinnslu og dælustöðvum eldsneytis dótturfélaga. Óbein losun í umfangi 3 er vegna flugferða starfsmanna vegna vinnu, úrgangsmyndunar starfsstöðva og dreifingar á eldsneyti fyrir dælustöðvar Olís.

Heildar kolefnisspor samstæðu Haga vegna ársins 2021 er 4.150,2 tonn CO2 en var til samanburðar 4.436,1 tonn CO2 árið 2020, sem jafngildir 6,4% lækkun milli ára. Hagar kolefnisjafna nú rekstur samstæðunnar í þriðja sinn, samtals 4.150,2 tonn CO2, m.a. með gróðursetningu á 17.381 trjám. Mótvægisaðgerðir með skógrækt eru unnar í samstarfi við Kolvið og hafa allar rekstrareiningar samstæðunnar, að Olís undanskyldu, samið við Kolvið um bindingu jarðvegs og auðgun gróðurvistkerfa með skógrækt. Mótvægisaðgerðir Olís eru unnar í samstarfi við Landgræðsluna og hófst það samstarf fyrst árið 1992. Þær mótvægisaðgerðir miða að því að stöðva jarðvegsrof og endurheimta röskuð vistkerfi, svo sem náttúruskóga, framræst votlendi o.fl. Nánari upplýsingar um losunarbókhald samstæðunnar má finna í sjálfbærniuppgjöri 2021.

GRÓÐURHÚSALOFTTEGUNDIR

MÓTVÆGISAÐGERÐIR

LOSUNARKRÆFNI

Losunarkræfni sýnir heildarlosun gróðurhúsalofttegunda miðað við helstu rekstrarbreytur samstæðunnar. Þannig er losun hér sett í samhengi við heildartekjur, eignir, eigið fé, fjölda stöðugilda og fjölda fermetra sem notaðir eru í rekstrinum, þ.e. hagkvæmni auðlindanýtingar innan samstæðunnar er sett í samhengi við efnahagslega verðmætasköpun.

Losunarkræfni gróðurhúsalofttegunda Eining 2019 2020 2021
Losunarkræfni orku kgCO2í/MWst 64,7 62,7 60,1
Losunarkræfni starfsmanna kgCO2í/stöðugildi 2.987,1 3.011,6 2.960,2
Losunarkræfni eigna kgCO2í/milljón 72,5 72,0 63,7
Losunarkræfni tekna kgCO2í/milljón 39,1 37,1 30,6
Losunarkræfni eiginfjár kgCO2í/milljón 184,9 176,1 155,3
Losunarkræfni pr. m2 kgCO2í/m2 37,5 35,8 34,4

HEILDARORKUNOTKUN

Hér í töflu má sjá samantekt á heildarorkunotkun samstæðu Haga. Ítarlegri upplýsingar um orkunotkun má finna í sjálfbærniuppgjöri 2021.

Umhverfisþættir Eining 2019 2020 2021
Heildarorkunotkun kWst 70.279.187 70.808.529 69.114.036
Heildareldsneytisnotkun kg 300.362 304.181 311.067
Heildarvatnsnotkun m3 850.518 930.978 812.403
Heildarnotkun raforku kWst 33.771.229 32.174.968 29.309.611

Heildarorkunotkun samstæðunnar hefur minnkað um 2,4% milli ára en m.a. hefur heildarnotkun raforku minnkað um 8,9% milli ára. Á undanförnum árum hefur mikil áhersla verið lögð á umhverfisvænni kælimiðla og orkusparandi perur (LED) í rekstri verslana og vöruhúsa Haga. Allar nýjar og endurnýjaðar matvöruverslanir byggja á grænum grunni og nota nú íslenskan umhverfisvænan kælimiðil í stað freons áður. Kerfið er talið fremst á sviði umhverfisvænna kælikerfa og er auk þess sjálfbært og öruggt. Vélbúnaður kerfisins nýtir orkuna betur og allir kælar og frystar eru lokaðir, sem tryggir jafnara hitastig og þar af leiðandi betri gæði frystivara. Ný LED lýsing, ásamt lokum á kæla og frysta, sparar verslunum allt að 30% af rafmagni. Þá er lokun á kælum og frystum mikilvæg í baráttunni við matarsóun þar sem betri kæling tryggir betri gæði á matvörum. 

MEÐHÖNDLUN ÚRGANGS

Um árabil hefur mikil áhersla verið lögð á flokkun úrgangs hjá rekstrareiningum Haga en tilgangur flokkunar er fyrst og fremst að minnka það magn sem fer til endanlegrar urðunar þar sem nákvæmni í flokkun er forsenda endurnýtingar og endurvinnslu. Markviss vinna undanfarinna ára hefur skilað nákvæmari flokkun sem skilar sér síðan í lægri rekstrarkostnaði, þar sem verslanir og vöruhús fá greitt fyrir bylgjupappann, auk þess sem lægri sorpgjöld eru greidd af flokkuðu rusli.

Heildarmagn úrgangs frá rekstri samstæðu Haga hefur minnkað um 10,8% milli ára og þá hefur flokkunarhlutfall hækkað um 6,4%-stig frá árinu 2019 og endurvinnsluhlutfall hefur hækkað um 9,1%-stig á sama tímabili.

UMHVERFISSTJÓRNUN

Hagar og dótturfélög þess hafa um árabil lagt mikla áherslu á umhverfismál í allri sinni starfsemi. Félagið leggur áherslu á að þekkja þau neikvæðu áhrif sem starfsemi þess hefur á umhverfið og leitast við að draga úr þeim eftir fremsta megni. Umhverfisstefna samstæðunnar var síðast endurskoðuð í apríl 2021. Þá snýr ein af fimm meginstoðum í stefnu Haga um samfélagslega ábyrgð, sem upphaflega var samþykkt árið 2017, að mikilvægi umhverfismála.

Umhverfisstefnan nær til allrar starfsemi Haga og dótturfélaga auk starfsfólks samstæðunnar. Meginmarkmiðið er að félagið leggi sitt af mörkum í þágu sjálfbærrar þróunar og samfélagslegrar ábyrgðar og styðji við mikilvægi þess að starfsfólk sé meðvitað um aðgerðir félagsins í þágu umhverfisins. Hagar vilja nýta auðlindir landsins á sjálfbæran hátt í þágu atvinnulífsins, landsmanna og komandi kynslóða til efnahagslegs og félagslegs ábata og jafnframt stuðla að sjálfbærni auðlinda eins og kostur er.

Sem hluti af þeirri umhverfisstefnu sem hér um ræðir var vatns-, orku- og endurvinnslustefna einnig samþykkt þar sem sérstaklega er hugað að aðgerðum hvað varðar vatn, orku og endurvinnslu í allri starfsemi Haga, hvort sem er á skrifstofum, í verslunum, á starfsstöðvum og í framkvæmdum á vegum félagsins.

Hagar notast ekki við viðurkennt orkustjórnunarkerfi, líkt og ISO 50001. Allar rekstrareiningar í samstæðunni notast hins vegar við umhverfisstjórnunarkerfi frá Klöppum Grænum lausnum hf. 

FJÁRFESTING Í LOFTSLAGSTENGDUM INNVIÐUM

Á árinu 2021 var 456,4 milljónum króna varið í fjárfestingu í loftslagstengdum innviðum. Helst er um að ræða endurnýjun á tækni- og tækjabúnaði þar sem leitast er við að nota umhverfisvænni og orkusparandi lausnir, t.d. með LED lýsingu í verslunum og vöruhúsum, kælimiðlum hefur verið skipt úr freoni í íslenskt og vistvænt koldíoxíð og kælum lokað með gleri þar sem kostur er. 

Sjálfbærniuppgjör Félagslegir þættir

Allar rekstrareiningar Haga hafa lokið jafnlaunavottun, sbr. breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem lögfest var í júní 2017, og hafa þau innleitt jafnlaunakerfi sbr. staðal ÍST 85 um jafnlaunavottun. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinan gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði, sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020. Samhliða jafnlaunavottun hafa allar rekstrareiningar Haga markað sér jafnlaunastefnu og jafnréttisstefnu ásamt aðgerðaráætlun í samræmi við jafnlaunakerfi ÍST 85.

LAUNAMUNUR KYNJANNA

  Eining 2019 2020 2021
Miðgildi heildarlauna karla sem hlutfall af  miðgildi heildarlauna kvenna X:1 1,10 1,10 1,00
         
Niðurstaða jafnlaunavottunar*        
Bónus % 1,0% 1,2% 1,8%
Hagkaup % 2,9% 2,3% 0,9%
Olís % 1,3% 1,3% 0,5%
Aðföng % 0,6% -1,2% 0,3%
Bananar % 2,5% 2,5% 1,4%
Noron % 4,4% -2,4% 0,5%

 

* Ef niðurstaða jafnlaunavottunar er mínus þá eru heildarlaun kvenna hærri en heildarlaun karla.

KYNJAFJÖLBREYTNI

Á árinu 2021 voru konur 43,6% starfsmanna samstæðunnar og karlar 56,4% og er hlutfallið nánast óbreytt frá árinu 2020. Af þeim starfsmönnum sem eru í stöðu yfirmanns eða stjórnenda eru 61,0% karlar og 39,0% konur en hlutfall kvenna hefur aukist um 0,5%-stig frá árinu 2020.

Nánari upplýsingar um launamun kynjanna, starfsmannaveltu og kynjafjölbreytni má finna í sjálfbærniuppgjöri 2021.

JAFNRÉTTIS- OG MANNRÉTTINDASTEFNA HAGA

Í september 2021 endurskoðaði stjórn Haga jafnréttis- og  mannréttindastefnu félagsins og samþykkti hana með breytingum en stefnan byggir á lögum nr. 150/2020. Markmið stefnunnar er að stuðla að jafnri stöðu kynjanna innan félagsins og jöfnum tækifærum einstaklinga á sem flestum sviðum, óháð kyni, uppruna, þjóðerni, litarhætti o.s.frv. 

Stefna Haga er að gætt skuli fyllsta jafnréttis milli kynjanna og að hver starfsmaður Haga sé metinn að eigin verðleikum, óháð kyni, aldri, kynhneigð og uppruna. Allt starfsfólk skal njóta sömu virðingar og skulu kynin hafa jafna stöðu innan fyrirtækisins. Þannig er tryggt gott starfsumhverfi sem gefur af sér tækifæri fyrir hvern þann sem vill. Hvers konar mismunun er óheimil og verður ekki liðin og er það stefna fyrirtækisins að koma í veg fyrir að slíkt ranglæti eigi sér stað.

Hagar virða mannréttindi í allri starfsemi félagsins líkt og kveður á um í Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Félagið líður aldrei barnaþrælkun og virðir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hvað varðar réttindi barna. Þá eru nauðungarvinna, sem og þrælahald ekki liðið innan félagsins. Hagar áskilja sér rétt til að slíta viðskiptasambandi við þá birgja eða samstarfsaðila sem virða þessi mikilvægu málefni að vettugi.

Sjálfbærniuppgjör Stjórnarhættir

Stjórnarhættir Haga eru markaðir af lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, samþykktum félagsins og starfsreglum stjórnar. Í samþykktum er kveðið á um tilgang félagsins í kafla 1, hlutafé í kafla 2, hluthafafundi í kafla 3, um stjórn og forstjóra í kafla 4 og 5 og um reikningshald og endurskoðun í kafla 6. Gildandi starfsreglur, sem voru samþykktar af stjórn þann 7. apríl 2022, eru settar skv. 5. mgr. 70. gr. laga um hlutafélög og eru samþykktum félagsins til fyllingar, samanber grein 4.20 í samþykktum. Gildandi starfskjarastefna Haga var staðfest á aðalfundi félagsins þann 3. júní 2021, en hún nær til allra helstu þátta í starfs- og launakjörum stjórnarmanna félagsins, forstjóra og annarra æðstu stjórnenda samstæðunnar. Endurskoðuð starfskjarastefna verður lögð fyrir næsta aðalfund félagsins þann 1. júní 2022.

  • Hlutfall kvenna í stjórn 60%

  • Hlutfall óháðra stjórnarmanna 100%

  • Hlutfall kvenna í formennsku nefnda 67%

Stjórn Haga er skipuð fimm einstaklingum en samkvæmt samþykktum félagsins skal við stjórnarkjör tryggja að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%. Á árinu 2021 voru konur 60% stjórnarmeðlima, óbreytt frá fyrra ári. Þá eru starfandi þrjár nefndir hjá félaginu, endurskoðunarnefnd, starfskjaranefnd og tilnefningarnefnd. Á árinu 2021 voru formenn endurskoðunarnefndar og starfskjaranefndar kvenkyns, líkt og árið 2020.

  • Hlutfall starfsmanna sem falla undir almenna kjarasamninga 96,4%

  • Framfylgir fyrirtækið siðareglum

  • Leggur fyrirtækið áherslu á tiltekin heimsmarkmið SÞ

  • Framfylgir fyrirtækið persónuverndarstefnu

Nánari upplýsingar um stjórnarhætti má finna í sjálfbærniuppgjöri 2021 og í sérstökum kafla í ársskýrslu þessari.

Sjálfbærniuppgjör Styrkir til góðra málefna

Hagar og dótturfélög leggja mikla áherslu á að styðja við og gefa aftur til samfélagsins, til að mynda með því að styrkja verkefni sem hvetja til hollustu og hreyfingar barna, hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu samfélagsins og huga að heilsu og öryggi landsmanna. Málaflokkarnir eru margir og mismunandi og er ákvörðun um þær áherslur og stefnur teknar innan hvers fyrirtækis fyrir sig. Hér má sjá samantekt á nokkrum skemmtilegum verkefnum á árinu. 

AÐGENGI FYRIR ALLA

Hagar voru einn af stofnaðilum að verkefninu Römpum upp Reykjavík. Markmið verkefnisins var að koma fyrir 100 römpum í Reykjavík fyrir fólk á hjólastólum. Haraldur Þorleifsson var forsprakki verkefnisins og var unnið að uppsetningunni á römpunum í samstarfi við Reykjavíkurborg. Sjá nánari umfjöllun í frétt.

Römpum upp Reykjavík 2021

UMHVERFIÐ

Hagar gerðust á árinu bakhjarlar Grænvangs, samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um loftlagsmál og grænar lausnir. Grænvangur leiðir saman íslensk fyrirtæki og stjórnvöld til að vinna að sameiginlegu markmiði um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Hagar hafa farið í viðamiklar aðgerðir í allri sinni starfsemi til þess að draga úr losun í starfseminni og mun félagið halda áfram að leggja áherslu á slík verkefni. Því er samstarfið við Grænvang skref til aukins samstarfs við atvinnulífið í málaflokknum. Sjá nánari umfjöllun í frétt

Hagar og Grænvangur

Bónus hefur um árabil verið stuðningsaðili Veraldarvina sem eru íslensk sjálfboðasamtök sem setja umhverfismál í öndvegi. Markmið Veraldarvina er að stuðla að heilbrigðum lífsháttum og betri umgengni manna við umhverfið. Um 1500 sjálfboðaliðar koma til landsins á vegum Veraldarvina árlega og einbeita sér að náttúruvernd, m.a. með því að leggja gönguleiðir og rækta plöntur en einnig með hreinsun íslensku strandlengjunnar. Mikið magn af plasti, netadræsum og öðru rusli rekur á íslenskar strandir og hafa sjálfboðaliðar Veraldarvina safnað slíku rusli um allt land í vetur. Sjá nánari umfjöllun í frétt.  

Bónus og Veraldarvinir

Verslanir Haga eru samstarfsaðili Pokasjóðs. Pokasjóður, sem áður hét Umhverfissjóður verslunarinnar úthlutar styrkjum til verkefna sem heyra undir almannaheill. Má þar nefna verkefni eins og umhverfismál, menningarmál, listir, íþróttir og mannúðarmál. Pokasjóður fær tekjur af sölu plastburðarpoka í verslunum og skiptist sjóðurinn í tvær deildir; sameignarsjóð og séreignarsjóð. Sjá nánari upplýsingar um starfsemi Pokasjóðs. 

Nýsköpunardagur Haga var haldinn í fyrsta sinn í apríl 2021. Viðburðurinn var stafrænn og öllum opinn og ætlaður sem hvatning til frumkvöðla til þess að huga að sjálfbærni við nýsköpun í matvælaframleiðslu. Fjölmargir aðilar héldu erindi á viðburðinum og yfir 2000 gestir sóttu viðburðinn. Í lok viðburðarins var nýr nýsköpunarsjóður Haga kynntur, Uppsprettan. Hér að neðan má sjá erindi Snjólaugar Ólafsdóttur frá Ernst & Young á Nýsköpunardeginum. Sjá nánari umfjöllun í frétt.  

SAMFÉLAG

Eitt af skemmtilegri verkefnum ársins var að taka þátt í að gleðja börn á Grænlandi með íslenskum páskaeggjum. Bónus hefur frá upphafi stutt við sjálfboðastarf Hrafns Jökulssonar og félaga á Grænlandi. Stærsta verkefnið síðustu ár hefur verið Páskahátíð Hróksins í Ittoqqortoormiit, sem er afskekktasta þorp Grænlands. Í ár var ekki hægt að halda hátíðina vegna kórónuveirunnar en með samstilltu átaki tókst að senda páskaegg til allra barnanna í bænum. Á þriðja hundrað páskaegg voru gefin. Sjá nánari umfjöllun í frétt

Bónus gefur börnum á Grænlandi páskaegg

SLYSAVARNIR

Frá árinu 2012 hefur Olís verið einn aðalstyrktaraðili Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Styrkirnir felast meðal annars í beinum fjárstuðningi til samtakanna ásamt góðum afsláttarkjörum á eldsneyti. Einnig heldur Olís sérstaka fjáröflunardaga undir yfirskriftinni Dælum til góðs, þar sem að hluti af sölu á eldsneyti þá daga rennur til Landsbjargar. Olís hefur einnig gert samning við Landsbjörg um að Olís opnar afgreiðslustöðvar sínar um allt land, á öllum tíma sólarhrings ef aðgengi þarf að eldsneyti og öðrum búnaði vegna björgunaraðgerða. Sjá nánari umfjöllun í frétt

Olís styður Landsbjörg

GRÆNT LAND OG HREINT LOFT

Bónus er samstarfsaðili Landgræðslunnar og Skógræktarinnar í birkisöfnunarverkefni. Átakið er liður í því að útbreiða á ný birkiskóglendi sem þakti a.m.k fjórðung landsins við landnám. Á rýru landi er gjarnan kolefnislosun því þar er gamall jarðvegur enn að rotna. Ef landið er grætt birkiskógi stöðvast þessi losun og binding hefst í staðinn. Verkefnið er því að stóru hluta loftlagsverkefni. Sjá nánari umfjöllun í frétt. 

Bónus og birkifræsöfnun

Bónus hefur verið án tóbaks í yfir 30 ár og aldrei selt tóbak eða sígarettur í verslunum sínum. Það stuðlar ekki einungis að aukinni lýðheilsu ungmenna og landsmanna allra, heldur verndar það líka umhverfið þar sem sígarettustubbar eru mjög mengandi. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eru stubbarnir einn helsti mengunarvaldur sjávar þar sem þeir innihalda ýmis skaðleg eiturefni, þar á meðal þungmálma. Síurnar í stubbunum eru líka gerðir úr vissri tegund af plasti sem er mjög lengi að brotna niður í náttúrunni. 

ÍÞRÓTTIR OG HEILSA

Olís, Bónus og Hagkaup hafa öll stutt öturlLega við íþrótta- og æskulýðsstarfi um allt land á árinu. Má þar sérstaklega nefna Olís sem hefur átt í góðu samstarfi við HSÍ um efstu deildirnar í handbolta. Efsta deild karla og kvenna er kölluð Olís-deildin og önnur deild karla og kvenna kallast Grill 66 deildin. Þá fá helstu félagslið á svæðum þar sem Olís er með útibú eða starfsstöð styrk frá fyrirtækinu og er þar lögð áhersla á uppbyggingu æskulýðsstarfs íþróttafélaganna.

Bónus hefur einnig stutt vel við hvers kyns íþróttaiðkun og æskulýðsstarf í gegnum árin. Verslunarkeðjan styrkti yfir 20 íþróttafélög um allt land á árinu, þá einna helst í handbolta, fótbolta og körfubolta. Má þar nefna FH, Stjörnuna, Hauka, Fjölni, ÍBV, Gróttu, Reyni Sandgerði, KA og Aftureldingu. 

Sömuleiðis hefur Hagkaup verið stoltur stuðningsaðili íþrótta- og æskulýðsstarfa hér á landi í fjölmörg ár. 

Fram og Hagkaup í samstarf

Hagkaup leggur mikla áherslu á fjölbreytt og gott úrval af heilsusamlegum valkostum og grænkera vörum. Sérstakir heilsu- og lífsstílsdagar Hagkaups eru haldnir í upphafi árs þar sem markmiðið er að hveta viðskiptavini til að huga að fæðuvali og lífsstíl. Hagkaup gefur einnig út sérstakt heilsublað þar sem að ítarlegar umfjallanir eru tengdar heilsu og næringu. Sjá nánari umfjöllun í frétt. 

 

Sjálfbærniuppgjör Styrkir til nýsköpunar

Uppsprettan - nýsköpunarsjóður Haga

UPPSPRETTAN - NÝSKÖPUNARSJÓÐUR HAGA

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna 9: Nýsköpun og uppbygging er eitt af þeim markmiðum sem Hagar hafa valið í stefnu sinni í samfélagslegri ábyrgð.

Í upphafi árs 2021 tóku Hagar mikilvægt skref í stuðningi við nýsköpun í matvælaiðnaði með stofnun á nýsköpunarsjóðnum Uppsprettunni. Hlutverk sjóðsins er að virkja og styðja frumkvöðla til nýsköpunar og þróunar í íslenskri matvælaframleiðslu.

Sjóðurinn leggur áherslu á stuðning við sprotaverkefni í matvælaframleiðslu sem taka tillit til sjálfbærni og styðja við innlenda framleiðslu. Sjóðurinn leggur sérstaka áherslu á að hafa umsóknar- og matsferlið einfalt í þeim tilgangi að virkja góðar hugmyndir í matvælaframleiðslu. 

Í myndbandinu hér fyrir neðan segir Finnur Oddsson, forstjóri Haga, frá tilkomu sjóðsins og árangri verkefna sem fengu styrkveitingu í fyrstu úthlutun sjóðsins árið 2021. Einnig er rætt við nokkra frumkvöðla sem hlutu styrkveitingu Uppsprettunnar og hafa komið með vörur á markað sem nú eru til sölu í verslunum Haga. Þau deila reynslu sinni af ferlinu, allt frá því að fá hugmynd og að sölu í verslun. 

Nafn sjóðsins, Uppsprettan, er táknrænt fyrir hlutverk hans og ferlið við nýsköpun. Góð hugmynd kviknar, hún er vökvuð til vaxtar og upp sprettur sproti.

STYRKHAFAR UPPSPRETTUNNAR 2021

Alls bárust tugir umsókna um styrk í sjóðinn og valdi matsnefnd níu verkefni til styrkveitingar að verðmæti 11 milljóna króna fyrir styrkárið 2021.

Styrkhafar Uppsprettunnar 2021

Eftirfarandi verkefni hlutu styrkveitingu 2021

The optimistic good group fékk styrk til framleiðslu á ferskum vegan vörum. Fyrsta varan á markað var Happyroni sem er vegan pepperoni.

Responsible Foods vinnur að framleiðslu á osta smásnakkinu Crunchy Toppers sem er framleitt með nýstárlegri tækni og eykur nýtingu á hráefnum við ostaframleiðslu.

Vegangerðin framleiðir matvöru sem inniheldur engar dýraafurðir úr nærumhverfi. Fyrsta vara Vegangerðarinnar verður Tempeh sem er kolvetnarík grænkera vara.

Kokteilskólinn hlaut styrk til framleiðslu á kokteilasírópi í hæsta gæðaflokki. Sírópið er ætlað að auðvelda gerð kokteila, bæði óáfengra og áfengra.

Plantbase Iceland vinnur að framleiðslu á grænum próteingjöfum. Bongó Bongó verður fyrsta próteinríka vara Plantbase á markað.

Livefood ehf. vinnur að framleiðslu á hágæða íslenskum grænkera ostum. Ostarnir verða unnir úr íslenskum kartöflum og því einstakir á heimsvísu.

Grásteinn vinnur að þróun á íslenskum hamborgurum úr ærkjöti. Verkefnið hefur það markmið að nýta ærkjöt sem að annars þætti þriðja flokks vara og vinna hana þannig að hún yrði fyrsta flokks.

Praks framleiðir íslenskar sápur undir vörumerkinu Baða. Sápurnar eru einstakar þar sem að þær innihalda íslensk hráefni og ávexti og grænmeti sem falla til í verslunum Haga. 

Hvítlauksræktun á Efri-ÚlfsstöðumRæktun og vinnsla á fyrsta íslenska hvítlauknum. 

 

REYNSLA FRUMKVÖÐLA AF STYRKVEITINGUNNI

Viðtöl við stofnendur Baða, Vegangerðarinnar og fyrsta hvítlauksbóndann á Íslandi. Öll fengu þau styrk Uppsprettunnar árið 2021 og deila reynslu sinni af styrkveitingunni og vel völdum ráðum í að koma nýsköpunarhugmynd í framkvæmd.

Nánari upplýsingar um Uppsprettuna og næstu styrkúthlutanir má finna á heimasíðu sjóðsins www.uppsprettan.hagar.is