Fara á efnissvæði

LYKILTÖLUR ÚR REKSTRI

Hér á eftir má sjá þróun rekstrar- og efnahagsstærða samstæðu Haga. 

Á 4. ársfjórðungi 2018/19 varð Olís hluti af samstæðu Haga og skýrir það þá miklu breytingu sem verður á bæði rekstri og efnahag samstæðunnar milli rekstraráranna 2018/19 og 2019/20. Auk þess tók í gildi á 1. ársfjórðungi 2019/20 leigustaðall IFRS 16 sem skýrir þá breytingu sem verður á EBITDA- og rekstrarkostnaðarhlutfalli.

SALA OG FRAMLEGÐ

REKSTRARKOSTNAÐUR

AFKOMA

HAGNAÐUR Á HLUT

EIGNIR

EIGIÐ FÉ

SKULDSETNING

Árið sem leið Ársreikningur

Ársreikningur Haga hf. fyrir rekstrarárið 2021/22 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 28. apríl 2022. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2021 til 28. febrúar 2022. Ársreikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) og viðeigandi ákvæði laga um ársreikninga. Endurskoðendur félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf., hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralausri áritun.

REKSTRARREIKNINGUR

Fjárhæðir í millj. kr. 2021/22 2020/21 Breyting %
Vörusala 135.758 119.582 16.176 13,5%
Kostnaðarverð seldra vara -107.317 -93.067 -14.250 15,3%
Framlegð 28.441 26.515 1.926 7,3%
Aðrar rekstrartekjur 874 409 465 113,7%
Laun og launatengd gjöld -12.992 -12.812 -180 1,4%
Annar rekstrarkostnaður -5.805 -5.307 -498 9,4%
EBITDA 10.518 8.805 1.713 19,5%
Afskriftir -4.241 -4.258 17 -0,4%
Rekstrarhagnaður 6.277 4.547 1.730 38,0%
Hrein fjármagnsgjöld -1.503 -1.553 50 -3,2%
Áhrif hlutdeildarfélaga 209 125 84 67,2%
Hagnaður fyrir tekjuskatt 4.983 3.119 1.864 59,8%
Tekjuskattur -982 -600 -382 63,7%
Heildarhagnaður ársins 4.001 2.519 1.482 58,8%

 

Vörusala ársins nam 135.758 m.kr., samanborið við 119.582 m.kr. árið áður. Söluaukning milli ára nam 13,5%. Söluaukning verslana og vöruhúsa nam 4,9% og söluaukning hjá Olís nam 38,1%. Að teknu tilliti til aflagðrar starfsemi þá jókst vörusala ársins um 16,0%.

Framlegð samstæðunnar var 28.441 m.kr., samanborið við 26.515 m.kr. árið áður eða 20,9% framlegðarhlutfall í samanburði við 22,2% árið áður. Helstu ástæður lækkandi framlegðarhlutfalls má rekja til hækkandi heimsmarkaðsverðs á olíu og aukinnar sölu til stórnotenda hjá Olís.

Meðal annarra rekstrartekna er hagnaður af sölu Reykjavíkur Apóteks ehf. og sölu eigna Útilífs en hann nam samtals 349 m.kr. og var bókfærður á fyrri hluta rekstrarárs.

Launakostnaður hækkaði um 1,4% milli ára en hagræðingaraðgerðir hjá Olís hafa skilað góðum árangri á árinu. Ársverkum hjá samstæðunni hefur fækkað um 38 milli ára, ef frá er talin fækkun vegna seldra rekstrareininga. Þá hefur tímanotkun minnkað um 2,3% milli ára.

Annar rekstrarkostnaður hækkaði um 9,4% milli ára en kostnaðarhlutfallið er 4,3% í samanburði við 4,4% árið áður. Hærri rekstrarkostnaður skýrist m.a. af stefnumótun, vörumerkjavinnu, vísitölu-tengdum kostnaði o.fl.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 10.518 m.kr., samanborið við 8.805 m.kr. árið áður. EBITDA-hlutfall var 7,7%, samanborið við 7,4% árið áður. EBITDA verslana og vöruhúsa hækkar um 14,4% milli ára og EBITDA Olís hækkar um 49,1%.

Heildarhagnaður tímabilsins nam 4.001 m.kr., sem jafngildir 2,9% af veltu en heildarhagnaður á fyrra ári var 2.519 m.kr. eða 2,1% af veltu.

STARFSÞÁTTAYFIRLIT

EBITDA ÁRSFJÓRÐUNGA

EFNAHAGSREIKNINGUR

Fjárhæðir í millj. kr. 28.02.22 28.02.21 Breyting %
Eignir        
Fastafjármunir 45.064 47.816 -2.752 -5,8%
Veltufjármunir 17.740 13.832 3.908 28,3%
Eignir til sölu 2.388 0 2.388 -
Eignir samtals 65.192 61.648 3.544 5,7%
         
Eigið fé        
Hlutafé 1.139 1.154 -15 -1,3%
Annað eigið fé 25.587 24.035 1.552 6,5%
Hlutdeild minnihluta 0 -2 2 -
Eigið fé samtals 26.726 25.187 1.539 6,1%
Skuldir        
Langtímaskuldir 20.950 18.592 2.358 12,7%
Skammtímaskuldir 17.516 17.869 -353 -2,0%
Skuldir samtals 38.466 36.461 2.005 5,5%
Eigið fé og skuldir samtals 65.192 61.648 3.544 5,7%

 

Heildareignir samstæðunnar í lok árs námu 65.192 m.kr. og hækkuðu um 3.544 m.kr. frá árslokum 2020/21.

Fastafjármunir voru 45.064 m.kr. og lækkuðu um 2.752 m.kr. frá árslokum, sem skýrist einkum af endurflokkun eigna sem afhentar verða Klasa sem greiðsla fyrir hlutafé í félaginu. Fjárfesting í áhöldum og innréttingum nam 1.651 m.kr. á árinu.

Veltufjármunir, að meðtöldum eignum til sölu, voru 20.128 m.kr. og hækkuðu um 6.296 m.kr. frá árslokum 2020/21.

Birgðir í lok árs voru 10.707 m.kr. og veltuhraði birgða 11,0. Birgðir hafa hækkað um 1.916 m.kr. milli ára en hækkun birgða má að mestu leyti rekja til hærri öryggisbirgða í matvöru og hærri eldsneytisbirgða, sem orsakast af töluvert hærra eldsneytisverði og meiri umsvifum. Veltuhraði birgða á fyrra ári var 10,8.

Viðskiptakröfur hækka um 1.597 m.kr. milli ára og er innheimtutími viðskiptakrafna nú 11,7 dagar samanborið við 10,3 daga á fyrra ári. Viðskiptakröfur hækka einkum vegna meiri sölu til stórnotenda hjá Olís.

Veltufjárhlutfall er 1,15 og lausafjárhlutfall 0,54 í lok árs. Aðgangur að skammtímafjármögnun í formi lánalína að upphæð 6,2 ma. kr. hjá viðskiptabanka er tryggður.

Eigið fé í lok tímabilsins var 26.726 m.kr. og eiginfjárhlutfall 41,0%. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 15,9%. Eiginfjárhlutfall við lok síðasta rekstrarárs var 40,9% og arðsemi eigin fjár 10,2%. Félagið átti 14,9 millj. eigin hluti í lok rekstrarárs.

Heildarskuldir samstæðunnar í lok árs voru 38.466 m.kr. en þar af voru vaxtaberandi skuldir 12.171 m.kr. og leiguskuldir 8.884 m.kr. Nettó vaxtaberandi skuldir, með leiguskuldum, í lok tímabils voru 20.272 m.kr. eða 1,9 x 12 mánaða EBITDA. Nettó vaxtaberandi skuldir, án leiguskulda, voru 1,1 x 12 mánaða EBITDA.

Óverðtryggður skuldabréfaflokkur, HAGA181024, að upphæð 2.500 m.kr. var gefinn út í október 2021 til endurfjármögnunar á skuldabréfaflokki HAGA181021. Skuldabréfaflokkurinn er til 3ja ára en bréfin eru vaxtagreiðslubréf með gjalddaga tvisvar á ári og bera 3,72% fasta vexti. Skuldabréfin voru tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland þann 29. desember 2021.

FJÁRFESTINGAR ÁRSINS

SJÓÐSTREYMISYFIRLIT

Fjárhæðir í millj. kr. 2021/22 2020/21 Breyting %
Handbært fé frá rekstri 7.411 6.627 784 11,8%
Fjárfestingarhreyfingar -1.864 -3.591 1.727 -48,1%
Fjármögnunarhreyfingar -5.152 -4.880 -272 5,6%
Hækkun/-lækkun á handbæru fé 395 -1.844 2.239 -121,4%
Handbært fé í ársbyrjun 388 2.232 -1.844 -82,6%
Handbært fé í árslok 783 388 395 101,8%

Handbært fé frá rekstri á árinu nam 7.411 m.kr., samanborið við 6.627 m.kr. á fyrra ári en breytingu á milli ára má fyrst og fremst rekja til betri afkomu samstæðunnar.

Fjárfestingarhreyfingar ársins voru 1.864 m.kr., samanborið við 3.591 m.kr. á fyrra ári. Fjárfesting ársins í fasteignum í rekstri nam 129 m.kr. samanborið við 1.835 m.kr. á fyrra ári þegar m.a. nýtt kæli- og frystivöruhús Aðfanga var tekið í notkun. Fjárfesting í áhöldum og innréttingum á árinu nam 1.651 m.kr. sem var að stærstum hluta vegna endurnýjunar Bónus og Hagkaupsverslana. Á fyrra ári nam fjárfesting í áhöldum og innréttingum 2.040 m.kr.

Fjármögnunarhreyfingar ársins voru 5.152 m.kr., samanborið við 4.880 m.kr. á fyrra ári. Í júní 2021 var greiddur 1,27 kr. arður á hlut til hluthafa, samtals að fjárhæð 1.466 m.kr. Til samanburðar var enginn arður greiddur á rekstrarárinu 2020/21.

Árið sem leið Fréttir úr starfseminni

SALA Á REKSTRAREININGUM

Í mars og apríl 2021 var skrifað undir samninga um sölu á 90% eignarhlut Haga hf. í Reykjavíkur Apóteki ehf., sem og sölu á eignum tengdum rekstri Reykjavíkur Apóteks í Skeifunni 11. Afhending á eignum tengdum rekstri í Skeifunni 11 fór fram þann 21. maí 2021 og afhending á eignarhlut Haga í Reykjavíkur Apóteki fór fram þann 18. júní 2021 en viðmiðunardagur uppgjörs viðskiptanna var 31. maí 2021. Afkomuáhrif vegna sölunnar komu fram í rekstrarreikningi fyrsta ársfjórðungs, samtals að fjárhæð 76 millj. kr.

Þann 31. mars 2021 var skrifað undir samning um sölu á rekstri og eignum tengdum smásöluversluninni Útilíf. Afhending fór fram þann 31. ágúst 2021 og komu afkomuáhrif vegna sölunnar fram á öðrum ársfjórðungi, samtals að fjárhæð 273 millj. kr.

HAGAR KAUPA HLUT Í LEMON

Í maí 2021 náðu Hagar hf. og eigendur Djús ehf. samkomulagi um kaup Haga hf. á 49% hlut í Djús ehf., sem á og rekur veitingastaði undir merkjum Lemon. Kaupin voru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins en fyrirvaranum var aflétt þann 2. júlí 2021. Áhrif kaupanna koma því fram, í formi hlutdeildartekna, frá og með 2. júlí 2021.

Lemon býður upp á ferskan og hollan mat útbúinn á staðnum úr besta mögulega hráefni hverju sinni. Samlokur og djúsar hafa verið vinsælustu vörur Lemon frá upphafi en vefjur, salöt, hafragrautar og orkuskot njóta einnig aukinna vinsælda.

Undir merkjum Lemon eru reknir sjö veitingastaðir, fjórir á höfuðborgarsvæðinu og þrír á Norðurlandi en nýr staður var opnaður í desember 2021 á Olís í Norðlingaholti.

SAMNINGAR VIÐ REYKJAVÍKURBORG

Þann 25. júní 2021 skrifuðu Hagar og Olís undir samkomulag við Reykjavíkurborg vegna fækkunar eldsneytisstöðva innan borgarmarkanna, sem og framtíðaruppbyggingar Haga á lóðum í Mjóddinni. Nánar tiltekið er um að ræða rammasamkomulag vegna fyrirhugaðra breytinga á aðstöðu eldsneytisstöðva Olís og ÓB og samkomulag vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðunum að Álfabakka 7, Álfheimum 49, Egilsgötu 5 og Stekkjarbakka 4-6. Samningarnir hafa í för með sér fækkun á eldsneytisdælum og þjónustustöðvum hjá Olís og ÓB á næstu fimm árum en samkomulagið inniheldur einnig ýmis atriði varðandi framtíðar uppbyggingu Haga, m.a. nýir lóðaleigusamningar og leyfi fyrir matvöruverslun í Stekkjarbakka.

BREYTING Á FRAMKVÆMDASTJÓRN

Í ágúst 2021 var tilkynnt um breytingu á framkvæmdastjórn Olís ehf. og Banana ehf. Frosti Ólafsson var ráðinn framkvæmdastjóri Olís en hann býr að víðtækri reynslu sem stjórnandi og ráðgjafi, bæði hérlendis og erlendis. Jóhanna Þ. Jónsdóttir var ráðin framkvæmdastjóri Banana en hún hafði undanfarin ár starfað sem framkvæmdastjóri aðfangakeðju Innnes ehf. Frosti og Jóhanna hófu bæði störf í september 2021.

SAMNINGUR UM KAUP Á HLUTAFÉ Í KLASA

Þann 3. desember 2021 undirrituðu Hagar samning um áskrift að hlutafé í fasteignaþróunarfélaginu Klasa ehf. en líkt og tilkynnt var þann 24. september 2021 undirrituðu Hagar hf., Reginn hf., Klasi ehf. og KLS eignarhaldsfélag ehf. viljayfirlýsingu um frekari uppbyggingu og rekstur fasteignaþróunarfélagsins Klasa ehf.

Hagar munu greiða fyrir eignarhlut sinn í Klasa með þróunareignum sem ekki eru hluti af kjarnastarfsemi félagsins en eignirnar eru Stekkjarbakki 4-6, Álfabakki 7, Klettagarðar 27, Álfheimar 49, Egilsgata 5, Tjarnarvellir 5 og Nýbýlavegur 1. Framlag Haga í viðskiptunum er metið á rúmlega 3,9 ma. kr. og verður eignarhlutur Haga í Klasa 1/3 af útgefnu hlutafé, líkt og eignarhlutur Regins og KLS eignarhaldsfélags. Verðmæti eigna Klasa eftir viðskiptin verður um 14,8 ma. kr. og eiginfjárhlutfall félagsins í upphafi 79%. Fyrirhuguð viðskipti eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, sem ekki liggur fyrir við undirritun ársreikningsins, en áreiðanleikakönnunum er nú lokið.

Áhrif af áætluðum innleystum söluhagnaði eigna Haga, að frádregnum áætluðum sölukostnaði, á EBITDA afkomu eru um 940 millj. kr. og áætluð jákvæð áhrif á hagnað félagsins eftir skatta eru um 750 millj. kr. Fjárhagsleg áhrif eru ekki komin fram í ársreikningi félagsins en endanleg tímasetning viðskiptanna er háð fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Í efnahagsreikningi 28. febrúar 2022 eru eignirnar endurflokkaðar, og eru nú flokkaðar sem eignir til sölu í stað rekstrarfjármuna og fjárfestingarfasteigna.

Árið sem leið Hagar í Kauphöll

HLUTABRÉFIN

Viðskipti með hlutabréf Haga á Aðalmarkaði NASDAQ OMX Iceland hófust þann 16. desember 2011. Útgefið hlutafé í Högum nam 1.154.232.879 krónum í árslok og er hver hlutur 1 króna að nafnverði. Í lok árs námu eigin hlutir 14,9 milljónum króna að nafnverði. Auðkenni félagsins er HAGA. 

Í lok rekstrarársins, þann 28. febrúar 2022, stóð gengi hlutabréfa í Högum í 72,0 kr. á hlut, samanborið við 57,3 kr. á hlut í lok febrúar 2021 og hækkuðu bréf félagsins því um 25,7% á síðastliðnu rekstrarári. Verð í lok skráningardags þann 16. desember 2011 var 15,95 kr. á hlut.

ÞRÓUN HLUTABRÉFAVERÐS

HLUTHAFAR

Samkvæmt hlutaskrá félagsins voru hluthafar 784 talsins í byrjun rekstrarársins og 986 í lok þess. Stærsti einstaki hluthafinn er Gildi – lífeyrissjóður með 18,74% hlut. Lífeyrissjóðir starfsmanna ríkisins eiga óbeint 13,26% í félaginu en þeir samanstanda af A-, B- og S-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. 20 stærstu hluthafar félagsins eiga samtals 84,51% hlut en sömu hluthafar áttu samtals 82,25% hlut í lok síðasta árs. 20 stærstu hluthafarnir í lok rekstrarársins 2020/21 áttu þá 82,06% hlut.

  Hluthafi Fjöldi hluta 28.02.22 % Fjöldi hluta 28.02.21 %
1 Gildi - lífeyrissjóður 216.348.121 18,74% 200.189.721 16,96%
2 Lífeyrissj. starfsm. rík. A-deild 123.930.000 10,74% 115.152.500 9,75%
3 Lífeyrissjóður verzlunarmanna 120.387.852 10,43% 130.887.852 11,09%
4 Birta lífeyrissjóður 90.562.891 7,85% 82.108.918 6,95%
5 Brú lífeyrissjóður starfsm. sveitarfél. 71.284.534 6,18% 38.006.596 3,22%
6 Stapi lífeyrissjóður 53.189.251 4,61% 66.524.251 5,63%
7 Samherji hf. 51.211.948 4,44% 51.211.948 4,34%
8 Festa - lífeyrissjóður 47.539.169 4,12% 49.375.169 4,18%
9 Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda 33.356.665 2,89% 32.856.665 2,78%
10 Íslensk verðbréf - safnreikningur 30.435.691 2,64% 40.541.541 3,43%
11 Lífeyrissj. starfsm. rík. B-deild 29.070.000 2,52% 22.831.200 1,93%
12 Frjálsi lífeyrissjóðurinn 19.945.604 1,73% 28.928.978 2,45%
13 Lífeyrissjóður starfsm. Reykjav.borgar 16.138.306 1,40% 7.138.306 0,60%
14 Hagar hf. 14.867.063 1,29% 26.391.689 2,24%
15 Arctic Funds PLC 11.200.000 0,97% 10.450.000 0,89%
16 Almenni lífeyrissjóðurinn 10.453.671 0,91% 10.453.671 0,89%
17 Kvika - innlend hlutabréf 9.603.453 0,83% 5.840.282 0,49%
18 Lífsverk lífeyrissjóður 9.278.431 0,80% 9.396.878 0,80%
19 Sjóvá-Almennar tryggingar hf. 9.003.363 0,78% 12.029.404 1,02%
20 Miranda ehf. 7.687.870 0,67% 9.019.170 0,76%
  20 stærstu hluthafar 975.493.883 84,51% 949.334.739 80,41%
  Aðrir hluthafar 178.738.996 15,49% 231.289.829 19,59%
  Skráð hlutafé 1.154.232.879 100,00% 1.180.624.568 100,00%
  Hagar - eigin bréf 14.867.063 1,29% 26.391.689 2,24%
  Útistandandi hlutir 1.139.365.816 98,71% 1.154.232.879 97,76%

 

Eins og áður segir voru hluthafar í árslok 986 talsins en þeim má skipta í nokkra flokka. 771 einstaklingur á hlut í félaginu, með samtals um 3,1% af heildarhlutafé, en á sama tíma á fyrra ári voru 598 einstaklingar hluthafar í félaginu með 3,3%. 28 lífeyrissjóðir eiga 75,5% hlut í félaginu en á fyrra ári áttu 32 lífeyrissjóðir 70,1% hlut í því. Aðrir fjárfestar eru 179 talsins og eiga 18,0% hlut. Á fyrra ári voru aðrir fjárfestar 148 talsins með 21,6% hlut. Þá eru sjö erlendir fjárfestar í félaginu og eiga þeir 2,2% hlut til samanburðar við 2,8% á fyrra ári.

Flokkur Fjöldi hluta % Fjöldi hluthafa %
Lífeyrissjóðir 871.307.290 75,5% 28 2,8%
Aðrir fjárfestar 207.758.683 18,0% 179 18,2%
Einstaklingar 35.466.505 3,1% 771 78,2%
Erlendir fjárfestar 24.833.338 2,2% 7 0,7%
Eigin bréf 14.867.063 1,3% 1 0,1%
Hlutafé samtals 1.154.232.879 100,0% 986 100,0%

 

Í næstu töflu hér á eftir má sjá dreifingu hlutafjáreignar í félaginu í árslok. Flestir hluthafar, 410 talsins, eiga 1-9.999 hluti og samtals 0,1% hlutafjár. Þrír hluthafar eiga hvor um sig yfir 100.000.000 hluti í félaginu.

Fjöldi hluta Fjöldi hluthafa % Fjöldi hluta %
1-9.999 410 41,6% 1.405.456 0,1%
10.000-99.999 368 37,3% 12.721.599 1,1%
100.000-499.999 123 12,5% 23.805.445 2,1%
500.000-999.999 21 2,1% 13.853.910 1,2%
1.000.000-4.999.999 38 3,9% 89.450.934 7,7%
5.000.000-9.999.999 10 1,0% 73.074.769 6,3%
10.000.000-99.999.999 12 1,2% 464.387.730 40,2%
> 100.000.000 3 0,3% 460.665.973 39,9%
Samtals útistandandi 985 99,9% 1.139.365.816 98,7%
Eigin bréf 1 0,1% 14.867.063 1,3%
Samtals 986 100,0% 1.154.232.879 100,0%

 

ENDURKAUPAÁÆTLANIR

Á aðalfundi Haga sem haldinn var þann 3. júní 2021 var samþykkt að heimila félaginu að kaupa á næstu 18 mánuðum allt að 10% af heildarhlutafé í þeim tilgangi að koma á viðskiptavakt með hluti í félaginu og/eða til að setja upp formlega endurkaupaáætlun. Á rekstrarárinu 2021/22 voru settar í framkvæmd tvær endurkaupaáætlanir á grundvelli fyrrgreindrar samþykktar. Endurkaupin námu 14,9 millj. hluta fyrir samtals 1.000 millj. kr. Þá hefur auk þess ein endurkaupaáætlun verið kláruð frá lokum rekstrarárs, að fjárhæð 500 millj. kr. og eiga Hagar nú 21,6 millj. eigin hluti eða 1,87%. 

AÐALFUNDUR

Aðalfundur Haga hf. árið 2022 verður haldinn þann 1. júní 2022 og hefst hann kl. 15:00. Fundurinn verður haldinn á Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut 2 í Reykjavík. Dagskrá fundarins og tillögur stjórnar hafa þegar verið auglýstar en niðurstöður fundarins verða birtar í Kauphöll og á vefsíðu félagsins strax að honum loknum.

ARÐGREIÐSLA OG ARÐGREIÐSLUSTEFNA

Stjórn Haga hefur mótað arðgreiðslustefnu félagsins en hana má sjá í heild sinni hér.

Stjórn Haga hf. leggur til við aðalfund félagsins þann 1. júní 2022 að greiddur verði arður til hluthafa vegna reikningsársins 2021/22 sem nemi 56,8% hagnaðar ársins eða samtals 2.266 milljónir króna. Arðgreiðslan nemur því 2,00 kr. á hlut.

Samþykki aðalfundur  tillöguna skal arðsréttindadagur vera 3. júní 2022, þ.e. réttur hluthafa til arðgreiðslu verður miðaður við hlutaskrá félagsins í lok þess viðskiptadags. Arðleysisdagur, þ.e. sá dagur sem viðskipti hefjast með bréf félagsins án réttar til arðs vegna reikningsársins 2021/22 verður því 2. júní 2022, eða næsti viðskiptadagur eftir aðalfund. Útborgunardagur arðs verður 15. júní 2022.

FJÁRHAGSDAGATAL

Birting árs- og árshlutauppgjöra á sér stað eftir lokun markaða hverju sinni. Kynningarfundir eru haldnir kl. 08:30 daginn eftir birtingu uppgjörs og er tilkynnt um staðsetningu fundar hverju sinni.

Eftirfarandi fjárhagsdagatal fyrir rekstrarárið 1. mars 2022 til 28. febrúar 2023 hefur verið samþykkt af stjórn félagsins:

Rekstrarárið 2022/23 Vikudagur Birtingardagur
1. ársfj. Fimmtudagur 30. júní 2022
2. ársfj. Miðvikudagur 19. október 2022
3. ársfj. Miðvikudagur 11. janúar 2023
4. ársfj. Fimmtudagur 27. apríl 2023
Aðalfundur 2023 Fimmtudagur 1. júní 2023

Árið sem leið Staðan og framtíðarhorfur

Undanfarin tvö rekstrarár hefur COVID-19 heimsfaraldurinn haft töluverð áhrif á Haga og dótturfélög, en starfsemin hefur litast af aðgerðum til að takmarka neikvæðar afleiðingar faraldursins og tryggja öryggi starfsfólks, viðskiptavina og annarra samstarfsaðila samstæðunnar. Áhrif faraldursins hafa frekar verið jákvæð á rekstur dagvöruhluta samstæðunnar þar sem velta og afkoma hafa heldur aukist. Áhrif á rekstur í eldsneytishluta samstæðunnar hafa hins vegar frekar verið neikvæð, þá sér í lagi á fyrsta ársfjórðungi síðasta rekstrarárs, en velta og afkoma er nú farin að nálgast það sem vænta má í eðlilegra árferði. Vegna ýmissa hnökra í framleiðslu matvöru og í aðfangakeðju þá hefur verð á aðföngum í starfsemi Haga hækkað töluvert á undanförnum misserum. Gert er ráð fyrir áframhaldandi verðhækkunum, bæði vegna eftirstöðva COVID-19 faraldursins og einnig vegna afleiðinga stríðsátaka í Úkraínu sem hófust í febrúar 2022.

Í ljósi aðstæðna þá gekk rekstur á fyrsta ársfjórðungi 2021/22 vel. Samanburður við fyrsta ársfjórðung síðasta rekstrarárs var hagstæður þar sem sá ársfjórðungur varð fyrir höggi þegar gengisfall íslensku krónunnar og lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu höfðu mikil áhrif á afkomu Olís og Haga. Rekstrarniðurstaða annars ársfjórðungs var umfram áætlanir og nokkuð betri en á síðasta ári sem m.a. má rekja til sölu eigna tengt rekstri Útilífs. Rekstur á þriðja ársfjórðungi gekk vel með heildarveltu og afkomu töluvert umfram áætlanir og síðasta ár. Rekstur á fjórða ársfjórðungi gekk einnig vel með veltu nokkuð umfram veltu síðasta árs en afkoman var aðeins lakari. Að teknu tilliti til einskiptisliða þá er afkoma fjórðungsins þó heldur hærri en á fyrra ári.

Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið sem nú er liðið gerði ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) yrði 10.000-10.500 millj. kr., að meðtöldum hagnaði af sölu rekstrareininga. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 10.518 millj. kr. og er því lítillega umfram útgefna áætlun en EBITDA að frádregnum fyrrnefndum söluhagnaði nam 10.169 millj. kr.

Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2022/23 sem nú var að hefjast gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) verði á bilinu 9.900-10.400 millj. kr., sem er að teknu tilliti til einskiptisliða vegna sölu rekstrareininga á árinu 2021/22 svipuð eða heldur umfram afkomu síðastliðins rekstrarárs. Fjárfestingaráætlun ársins 2022/23 nemur 4,0 ma. kr. en stærstu liðir eru vegna fjárfestinga í fasteignum, stafrænni þróun og upplýsingatækni ásamt endurnýjun verslana og þjónustustöðva. Fjárhagsleg staða samstæðu Haga hf. er sterk og er félagið vel í stakk búið til að takast á við krefjandi aðstæður í íslensku efnahagslífi. Fjármögnun samstæðunnar er tryggð til langs tíma og er aðgangur að skammtímafjármögnun í formi lánalína að fjárhæð 4,5 ma. kr. og USD 12,5 millj. einnig tryggður.

Í mars 2022 náðu Hagar samkomulagi við eigendur Eldum rétt ehf. um kaup Haga á öllu hlutafé Eldum rétt. Eldum rétt sérhæfir sig í gerð matarpakka sem viðskiptavinir geta pantað á netinu en í hverri viku geta viðskiptavinir valið á milli nýrra uppskrifta. Eldum rétt var stofnað árið 2013 en stjórnendur og starfsfólk fyrirtækisins hafa skapað sterkt vörumerki á skömmum tíma. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins sem ekki liggur fyrir við undirritun ársreikningsins.