Fara á efnissvæði

MIKILVÆGT HLUTVERK Í ÍSLENSKU SAMFÉLAGI

Síðastliðið rekstrarár var um margt sögulegt hjá Högum. Starfsemi félagsins gekk vel og einkenndist af dvínandi áhrifum COVID-19 heimsfaraldursins á íslenskt samfélag og auknum umsvifum efnahagslífs. Samgöngur færðust nær fyrra horfi, landsmenn ferðuðust mikið innanlands, erlendir ferðamenn létu aftur sjá sig og loðnan sömuleiðis. Þessar breytingar, samhliða eftirfylgni við nýjar áherslur og umbótaverkefni í rekstri, skiluðu sér í tekjuvexti á öllum sviðum Haga og bættri afkomu, sérstaklega í samanburði við árið á undan. Tekjur ársins námu 136 ma.kr., EBITDA 10,5 ma. kr. og hagnaður 4,0 ma. kr., og stærstu rekstrareiningar Haga, þ.e. Bónus, Hagkaup og Olís, skiluðu umtalsvert bættri rekstrarafkomu á milli ára.

Aðstæður á Íslandi síðustu tvö ár drógu fram samfélagslegt mikilvægi verslunar og þjónustu fyrir fjölskyldur og heimili landsins. Framan af á þessum tíma þá snerust helstu áskoranir okkar um að halda vöruhúsum gangandi og verslunum og þjónustustöðvum opnum fyrir viðskiptavinum í hörðum og síbreytilegum sóttvarnaraðgerðum. Heilt yfir gekk það vel og er samstilltu átaki starfsfólks og viðskiptavina fyrir að þakka. 

Á undanförnum mánuðum hafa áherslur hins vegar breyst og færst frá viðbragði við sóttvörnum yfir í að tryggja framboð og hagkvæm verð á nauðsynjum í skugga mikilla verðhækkana á hrá- og neytendavöru sem einnig má rekja til faraldursins og munu væntanlega ágerast vegna stríðsátaka í Úkraínu. Hér nutu viðskiptavinir sterkra innviða Haga þegar kemur að innkaupum og aðfangakeðju og því leiðarljósi Bónus að bjóða ávallt upp á hagkvæmustu matvörukörfu landsins. 

Síðastliðið rekstrarár var um margt sögulegt hjá Högum. Starfsemi félagsins gekk vel og einkenndist af dvínandi áhrifum COVID-19 heimsfaraldursins á íslenskt samfélag og auknum umsvifum efnahagslífs. 

Í ljósi þessara aðstæðna, þá erum við ánægð með rekstrarniðurstöðu ársins og teljum að styrkleikar Haga nýtist vel til að kljást við ögrandi viðfangsefni sem verða á vörumörkuðum næstu misserin og eru afleiðingar heimsfaraldurs COVID-19 og átaka Úkraínu og Rússlands.

VELTUAUKNING OG BÆTT AFKOMA

Vörusala samstæðu nam 136 ma. kr. sem samsvarar tæplegt 14% aukningu á milli ára, en nær 16% að teknu tilliti til aflagðrar starfsemi, þ.e. eftir sölu á Útilíf og Reykjavíkur Apóteki. Auknum umsvifum var nokkuð misjafnlega skipt á milli starfsþátta félagsins. Tekjur af eldsneytissölu Olís námu 42 ma. kr. og jukust um 38% á milli ára, sem helgast af verulegum hækkunum á heimsmarkaðsverði olíu, stórauknum umsvifum og eldsneytisþörf atvinnulífs og fjölgun erlendra ferðmanna á vegum landsins. Tekjur af dag- og sérvöruverslun námu tæpum 97 ma. kr., eða um tæp 5% aukning á milli ára. Hafa ber í huga að verslunum Haga fækkaði á milli ára og þeim landsmönnum sem ferðuðust utan fjölgaði, sem eðlilega dró heldur úr eftirspurn innanlands. Tekjuvöxtur verslana er því nokkuð meiri en 5% og er það ágætis niðurstaða.

Starfsemi allra helstu rekstrareiningar Haga gekk vel. Vörusala í Bónus hefur ekki áður verið meiri og afkoma var umfram áætlanir. Hagkaup skilaði bestu rekstrarniðurstöðu í langri sögu félagsins og Olís átti gott rekstrarár á sama tíma og félagið gekk í gegnum afgerandi breytingar í áherslum, skipulagi og mönnun. Þessi árangur verður til fyrir vinnu öflugs hóps starfsfólks þessara félaga, ásamt kollegum í Banönum, Aðföngum og Zara, sem hefur á undanförnum árum staðið vaktina af einstakri fagmennsku og dugnaði. Síðastliðið ár var þar engin undantekning og má, miðað við aðstæður, telja það nokkuð þrekvirki að tekist hafi að viðhalda fullu vöruframboði og þjónustu gagnvart viðskiptavinum, og það hafi verið gert á eins hagkvæman hátt og raun ber vitni.

Þó svo að afkoma rekstrareininga hafi almennt batnað á milli ára þá munar mestu um nauðsynlegar breytingar í rekstri og áherslum hjá Olís, en þar jukust tekjur og framlegð mikið á meðan rekstrarkostnaður stóð í stað. Árangur á kostnaðarhliðinni er tilkominn vegna fækkunar stöðugilda og lægri launakostnaðar í kjölfar markvissrar aðlögunar á þjónustuframboði og rekstri þjónustustöðva, hagræðingar í útibúaneti og lokunar á óarðbærum einingum. Í hagræðingarvinnu Olís hefur verið lagður grunnur að frekari umbreytingu smásölusviðs sem nýlega var ýtt úr vör með uppfærslu á vörumerki, nýrri ásýnd þjónustustöðva og breikkun vöruframboðs, sem gert er ráð fyrir að nái til allra afgreiðslustaða Olís á næstu 12-18 mánuðum.

AÐLÖGUN AÐ NÝJUM STEFNUMÓTANDI ÁHERSLUM MIÐAR VEL

Á síðasta ári voru stigin mikilvæg stefnumótandi skref sem munu hafa áhrif á rekstur og afkomu Haga til lengri tíma, en undirliggjandi eru markmið um að auka fókus stjórnenda á kjarnastarfsemi félagsins, efla tengingu við viðskiptavini, m.a. með stafrænum leiðum, og treysta sérstöðu vörumerkja dótturfélaga.

Fókus á kjarnastarfsemi

Sölu á Reykjavíkur Apóteki og Útilíf lauk sl. sumar og í desember voru undirritaðir samningar um kaup Haga á nýju hlutafé í fasteignaþróunarfélaginu Klasa ehf. Samhliða því voru lögð drög að samstarfi milli Haga, Regins hf. og KLS eignarhaldsfélags ehf. um rekstur og frekari uppbyggingu félagsins. Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins, en Hagar munu greiða fyrir 1/3 eignarhlut sinn með þróunareignum sem teljast ekki hluti af kjarnastarfsemi félagsins. Ágætur söluhagnaður verður af viðskiptunum en þó er mikilvægara að með þeim verður verðmætum þróunareignum Haga komið hratt og örugglega í uppbyggingu hjá sérhæfðum aðilum sem skilar auknum verðmætum til hluthafa til lengri tíma.  Að auki er gert ráð fyrir að með sölu á fyrrgreindum eignum myndist frekara svigrúm fyrir stjórnendur að einbeita sér að kjarnastarfsemi félagsins í verslun með dagvöru og eldsneyti.

Á síðasta ári voru stigin mikilvæg stefnumótandi skref sem munu hafa áhrif á rekstur og afkomu Haga til lengri tíma.

Sérstaða vörumerkja efld  

Afrakstur rýni og skilgreiningu á vörumerkjum Haga á neytendamarkaði leit dagsins ljós í nóvember þegar Bónus grísinn var færður í nútímalegra horf og ásýnd og opnunartíma verslana var breytt. Það var ánægjulegt hvað undirtektir voru fjörugar og hversu vel lengri opnunartíma var tekið eins og sjá má af marktækri söluaukningu og fjölgun viðskiptavina frá því í nóvember. Hvoru tveggja sýnir jafnframt þann mikilvæga sess sem Bónus hefur í hugum og á heimilum landsmanna. Traust sem hefur skapast með hagkvæmni í rekstri og hófsemi í verðlagningu á dagvöru í ríflega þrjá áratugi. Á næstu mánuðum verður unnið að því að færa verslanir Bónus um allt land í nýjan búning, en glæsileg verslun sem opnaði við Norðurtorg á Akureyri í maí sl. gefur ágæta mynd af hvert ferðinni er heitið þegar kemur að breyttum áherslum hjá Bónus. Fyrstu skref í umbreytingu smásölusviðs Olís voru tekin á vormánuðum 2022, en þau fela í sér breyttar áherslur í vöru- og þjónustuframboði samhliða uppfærslu á ásýnd þjónustustöðva og vörumerkja Olís og ÓB. Viðskiptavinir geta svo hlakkað til þess að sjá afrakstur svipaðrar vinnu fyrir þjónustuframboð og ásýnd Hagkaups á næstu vikum og mánuðum.

Vinnu með vörumerki og áherslur fyrirtækja Haga á neytendamarkaði er m.a. ætlað að bregðast við breyttum þörfum viðskiptavina, þar sem aukin áhersla er á hollar en einfaldar lausnir sem spara spor og tíma í amstri dagsins en gera neytendum um leið kleift að stuðla að aukinni sjálfbærni, m.a. með því að draga úr matarsóun. Með kaupum Haga á hlut í Djús ehf. sem rekur veitingastaði undir merkjum Lemon, og fyrirhuguðum kaupum á Eldum Rétt* er enn frekar verið að styrkja vöruframboð á þessu sviði, bæði í verslunum og þjónustustöðvum.

Nýjar áherslur í rekstri Olís og breytt mynstur í neyslu hafa skapað ný og áhugaverð tækifæri til vaxtar hjá Högum. Sala á hreinlætis-, rekstrar- og heilbrigðisvörum hefur frá vormánuðum verið færð úr Olís í nýja sölueiningu, Stórkaup. Stórkaup er ætlað að sækja fram á grunni sterkra innkaupa- og vöruhúsainnviða Haga og breiðara vöruframboði fyrir stórnotendur, m.a. rekstraraðila í hótel- og veitingageira. Þessi fyrstu skref félagsins eru mikilvæg, inn á vaxandi markað sem Hagar munu nú sinna enn betur en áður.

Stafrænar áherslur

Uppbygging samstæðu Haga til framtíðar og svar við stöðugu kalli viðskiptavina um aukið aðgengi, hagkvæmni, upplýsingar og þjónustu mun að töluverðu leyti grundvallast á upplýsingatækni og stafrænum lausnum.  Fyrsti fasi í stafrænni vegferð Haga hófst með uppbyggingu netverslunar Haga og dótturfélaga á miðju rekstrarári og lauk formlega með opnun tveggja netverslana, annars vegar nýrrar snyrtivöruverslunar Hagkaups og hins vegar fyrir Stórkaup, netverslun fyrir rekstraraðila. Hönnun og smíði þessara netverslana þjónar sem ákveðinn grunnur fyrir frekari nýtingu upplýsingatækni í starfsemi Haga og dótturfélaga og annarra stafrænna verkefna sem ætlað er að skili auknu hagræði og bættri þjónustu við viðskiptavini á næstu mánuðum og misserum.

Uppbygging samstæðu Haga til framtíðar og svar við stöðugu kalli viðskiptavina um aukið aðgengi, hagkvæmni, upplýsingar og þjónustu mun að töluverðu leyti grundvallast á upplýsingatækni og stafrænum lausnum.

HAGAR STUÐLA AÐ BÆTTU SAMFÉLAGI

Það hefur ávallt verið skýr metnaður Haga og dótturfélaga að þjóna íslenskum neytendum með ábyrgum hætti og stuðla þannig að bættu samfélagi. Stefna Haga um samfélagslega ábyrgð er því langtímaáætlun félagsins um hvernig það getur lagt sitt að mörkum til betra samfélags, heilbrigðara umhverfis, bættrar lýðheilsu, góðra stjórnarhátta og mannauðs sem skapar virði fyrir viðskiptavini og samfélagið í heild. Samfélagsmarkmið Haga hafa einkum tengst ábyrgri neyslu, sjálfbærni, minna kolefnisspori, eflingu nýsköpunar, jafnrétti og íþrótta- og æskulýðsstarfi. Við nýtum heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem akkeri í okkar vinnu og Umhverfisstjórnunarkerfi Klappa til mælinga sem birtar eru í sjálfbærniuppgjöri samstæðu Haga samkvæmt UFS leiðbeiningum Nasdaq.

Þessi þáttur í okkar starfi, þ.e. samfélagsábyrgð og sjálfbærni, hefur fengið enn aukið vægi og höfum við rýnt alla okkar starfsemi m.t.t. áhrifa á umhverfi og samfélag, sett okkur skýr markmið og gert grein fyrir þeim í samfélagskýrslum fyrir Bónus, Hagkaup og Olís. Að auki höfum við ýtt úr vör átaksverkefni sem ætlað er að rýna umhverfisspor í aðfangakeðju Haga, frá framleiðendum til viðskiptavina, með það að markmiði að ná enn betri árangri.

Á síðasta ári náðist markverður árangur á flestum mælikvörðum, þar sem þeir mikilvægustu tengjast losun og lágmörkun kolefnisspors. Heildar kolefnisspor samstæðu Haga vegna ársins 2021 var 4.150,2 tonn CO2í og dróst saman um 6,4% milli ára, þrátt fyrir aukin umsvif í rekstri. Heildarnotkun raforku dróst saman um 8,9% á milli ára, en þennan árangur má rekja beint til þess að allar nýjar eða endurnýjaðar matvöruverslanir félagsins nýta umhverfisvæna kælimiðla og orkusparandi perur og byggja þannig á grænum grunni. Við erum svo stolt af því að kolefnisjafna allan okkar rekstur þriðja árið í röð, m.a. með gróðursetningu 17.381 trjáa og auðgun gróðurvistkerfa í samstarfi við Kolvið og Landgræðsluna.  

Að auki tóku Hagar og dótturfélög þátt í fjölda verkefna á síðasta rekstrarári sem ætlað er að styðja við sjálfbærnimarkmið samstæðunnar. Undir lok árs gerðust Hagar bakhjarl Grænvangs, samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir. Frumkvöðlastarf í sjálfbærri matvælaframleiðslu var einnig viðfangsefni styrkveitinga úr Uppsprettunni, nýsköpunarsjóðs Haga, á vormánuðum áranna 2021 og 2022.  Hagar styrktu svo m.a. „Römpum upp Reykjavík“ til að bæta aðgengi fyrir fatlaða, Veraldarvini til að stuðla að heilbrigðum lífsháttum og hreinsun strandlengju Íslands, og fjársöfnun Rauða Krossins til handa bágstöddum í Úkraínu.

Traustur rekstur Haga samstæðunnar nú og til framtíðar endurspeglar fyrst og fremst styrk rekstrareininga okkar og það traust sem viðskiptavinir sýna okkur dag hvern. 

Við erum stolt af þeim jákvæðu áhrifum sem starfsemi Haga hafði á íslenskt samfélag á síðasta ári, en ætlum okkur að gera enn betur. Til viðbótar við fyrrgreinda nálgun á það verkefni má gera ráð fyrir að eitt mikilvægasta viðfangsefni okkar á næstu misserum þegar kemur að sjálfbærni verður að standa vörð um hagkvæmni og lágt verð á tímum verðhækkana á nauðsynjavörum sem eiga sér ekki fordæmi. Þar teljum við að Hagar, með Bónus lágvöruverðsverslun í broddi fylkingar, geti haft jákvæð áhrif.

TRAUSTUR REKSTUR SKILAR VERÐMÆTUM TIL HLUTHAFA

Stjórn Haga hefur markað stefnu um fjármagnsskipan og arðgreiðslur sem miðar að því að styðja við uppbyggingu á starfsemi félagsins til framtíðar og að félagið skili verðmætum sem skapast í rekstrinum til hluthafa, beint eða óbeint. Miðað er við að greiða hluthöfum árlegan arð sem nemur að lágmarki 50% hagnaðar síðasta rekstrarárs. Að auki er gert ráð fyrir að félagið kaupi eigin bréf samkvæmt formlegri endurkaupaáætlun í þeim tilgangi að lækka hlutafé félagsins, en stjórn stefnir að því að eiginfjárhlutfall Haga verði um 35%.

Rekstur Haga gekk vel á árinu 2021/22 og hefur styrkst á síðustu misserum. Fjárhagsleg staða Haga er sterk, með 26,7 ma. kr. eigið fé, 41% eiginfjárhlutfall og óverulega skuldsetningu. Í ljósi þessarar sterku stöðu og ágætrar niðurstöðu rekstrar síðasta árs þá leggur stjórn til við aðalfund 2022 að arðgreiðsla til hluthafa fyrir sl. rekstrarár verði 2.266 millj. kr. eða sem nemi 2,0 kr. per hlut og 56,8% af heildarhagnaði síðasta árs. Einnig er gert ráð fyrir að heimild til kaupa á eigin bréfum verði nýtt í endurkaupaáætlanir á næstu mánuðum.

FRAMTÍÐIN ER BÆÐI ÖGRANDI OG SPENNANDI

Hagar munu sem fyrr styðja við framþróun dótturfélaga svo að þau geti sem best sinnt þörfum viðskiptavina eftir því sem þær breytast með tímanum. Rekstrarfélög Haga, einkum Bónus, Hagkaup og Olís njóta þar sterkra innviða Haga þegar kemur að hagkvæmni í innkaupum, aðfangakeðju og vörumeðhöndlun, en þar starfar reynslumikill hópur starfsfólks sem hefur óbilandi metnað og leggur sig fram hvern dag um að efla hag viðskiptavina í gegnum verslun með dagvöru og eldsneyti. 

Eftir ögrandi viðfangsefni COVID-19 áranna, þá er ljóst að framundan verða áskoranir sem heldur eiga sér ekki fordæmi í íslenskri verslunarsögu. Sveiflur í eftirspurn á eldsneyti og hrávöru, hnökrar í framleiðslu á neysluvöru og truflanir á aðfangakeðju eru allt þættir sem hafa stuðlað að því að verð á öllum aðföngum í starfsemi Haga hefur hækkað töluvert á undanförnum misserum. Það er óvarlegt að gera ráð fyrir öðru en að svo verði áfram, sérstaklega þegar horft er til afleiðinga stríðsátaka í Úkraínu sem hófust í febrúar á þessu ári.

Við lítum á það sem okkar mikilvægasta verkefni næstu mánuði að vinna úr þessum aðstæðum, en þar nýtast sérstakir styrkleikar Haga vel, þ.e. hagkvæmni og sveigjanleiki þegar kemur að innkaupum og rekstri verslana og þjónustustöðva. Að auki er fjárhagsstaða félagsins sterk og horfur í rekstri áfram almennt góðar. Hvoru tveggja mun nýtast til að fylgja eftir nýjum tækifærum og spennandi uppbyggingarverkefnum, m.a. á sviði stafrænnar þróunar, útvíkkunar á þjónustuframboði á neytendamarkaði eða á vaxandi markaði fyrir rekstrarvöru hjá stórnotendum.

Við lítum á það sem okkar mikilvægasta verkefni næstu mánuði að vinna úr þessum aðstæðum, en þar nýtast sérstakir styrkleikar Haga vel, þ.e. hagkvæmni og sveigjanleiki þegar kemur að innkaupum og rekstri verslana og þjónustustöðva. 

Traustur rekstur Haga samstæðunnar nú og til framtíðar endurspeglar fyrst og fremst styrk rekstrareininga okkar og það traust sem viðskiptavinir sýna okkur dag hvern. Þetta traust er afrakstur dugnaðar og elju um 2.500 starfsmanna Haga og dótturfélaga sem á hverjum degi leggja sig fram um að uppfylla þarfir stórs viðskiptavinhóps sem skiptir við okkur oftar en 30 milljón sinnum ár hvert. Hollusta Haga liggur hjá viðskiptavinum og hlutverk okkar, sem verður sífellt mikilvægara, er að efla hag viðskiptavina með því að gera verslun sem hagkvæmasta, en um leið þægilega og skemmtilega. Þannig sýnum við samfélagslega ábyrgð í verki og leggjum grunn að hagkvæmum rekstri sem skilar eigendum góðri arðsemi.

*Kaup á Eldum Rétt er háð samþykki Samkeppniseftirlitsins