Fara á efnissvæði

ÁRANGURSRÍKT EN KREFJANDI ÁR

Síðastliðið rekstrarár Haga var árangursríkt en sérstaklega krefjandi. Árið markaðist af beinum og óbeinum áhrifum átaka í Úkraínu og síðustu eftirköstum Covid-19 faraldursins, en þar má helst nefna fordæmalausar hækkanir og sveiflur á aðfanga- og vöruverði, gengisveiking krónu, innlendar kostnaðarverðshækkanir, hækkandi verðbólgu og mikil og ör hækkun stýrivaxta. Þessi blanda telst hvorki góð fyrir neytendur né verslunarfyrirtæki, og því má segja að ágæt niðurstaða ársins endurspegli vel styrk Hagasamstæðunnar til rekstrar í erfiðum aðstæðum. Tekjur voru 162 ma. kr. og jukust um 19% milli ára, EBITDA ársins nam rúmum 12 ma. kr. og hagnaður tæpum 5 ma. kr. Heilt yfir erum við því sátt með rekstur Haga á nýliðnu rekstrarári og að hafa komið í höfn mikilvægum áföngum sem munu styrkja samstæðuna til framtíðar.

Umsvif í starfsemi Haga jukust heilt yfir, en var þó nokkuð misjafnlega skipt á milli starfsþátta. Ríflega 2/3 hlutar tekna Haga liggja í dag- og sérvöruverslun, sem jókst um nær 11% frá fyrra rekstrarári og nam tæplega 106 ma. kr. Þessi vöxtur skýrist annars vegar af miklum verðhækkunum frá framleiðendum og heildsölum og hins vegar af aukningu í seldu magni. Þar skiptir mestu að í árferði hækkandi vöruverðs og vaxta þá sótti metfjöldi viðskiptavina verslanir Bónus. Þessi góða aðsókn sýnir að bæði nýjar og gamlar áherslur í Bónus hafa mælst vel fyrir, m.a. nýjar og uppfærðar verslanir, lengri opnunartími, hressari grís, einfaldleiki, gott aðgengi og markmiðið um að bjóða ávallt upp á hagkvæmustu matvörukörfu landsins. Við það markmið hefur Bónus staðið frá stofnun en það hefur líklega sjaldan verið neytendum mikilvægara en akkúrat núna.

Við erum sátt með rekstur Haga á nýliðnu rekstrarári og að hafa komið í höfn mikilvægum áföngum sem munu styrkja samstæðuna til framtíðar.

Rekstur Hagkaups gekk einnig ágætlega á árinu og var sérstök áhersla lögð á að bæta upplifun viðskiptavina í verslunum, en bættum aðbúnaði og nýjungum í vöruframboði hefur verið vel tekið. Í ljósi breyttra aðstæðna, m.a. aukinni ferðagleði landsmanna til útlanda, kom hins vegar ekki á óvart að tekjuvöxtur í Hagkaup var heldur hóflegri en hjá Bónus.

Rekstur Olís á árinu gekk vel á flestum sviðum. Á síðustu misserum hefur áherslum í rekstri Olís verið breytt og samhliða olíuverðshækkunum á heimsmarkaði og mikilli tekjuaukningu á síðasta ári skiluðu þær töluvert bættum rekstri og afkomu. Tekjur jukust um 37% og námu 58 ma. kr. og hefur afkoma sjaldan verið sterkari. Þessa ágætu niðurstöðu má einkum rekja til fjögurra þátta. Í fyrsta lagi er hún tilkomin vegna breyttra áherslna í rekstri og árangursríkrar hagræðingarvinnu síðustu missera. Þar ber hæst annars vegar uppfærsla á vörumerkjum Olís með breyttu útliti og hagræðingu á þjónustustöðvum og hins vegar einföldun á sölu- og aðfangaskipulagi gagnvart stórnotendum. Hvoru tveggja hafði það að markmiði að búa félagið undir fyrirsjáanlegan samdrátt í olíusölu vegna áhrifa orkuskipta. Í öðru lagi var eftirspurn á liðnu ári sterk, með miklum umsvifum stórnotenda og aukningu í smásölu samhliða fjölgun ferðamanna. Í þriðja lagi skilaði virk birgðastýring á stórnotendahlið eldsneytissölu, samhliða hækkunum á heimsmarkaðsverði, sterkari framlegð á tímabilinu. Í fjórða lagi höfðu einskiptisliðir töluverð jákvæð áhrif á afkomu ársins, einkum hagnaður sem féll til vegna sölu eigna tengt kaupum Haga á hlut í fasteignaþróunarfélaginu Klasa.

Lægri framlegð má telja mikilvægt framlag verslana Haga til baráttunnar við verðbólgu í matvöru á Íslandi, en undir lok árs var hún ein sú lægsta í Evrópu og sú lægsta á Norðurlöndunum.

Allt síðasta rekstrarár, ekki síst undir lok þess, hefur framlegð í dagvöruverslun verið undir þrýstingi vegna veikara gengis, verðhækkana frá birgjum og kröftugrar samkeppni á matvörumarkaði. Þetta þýðir að þótt framlegð hafi aukist í krónum talið vegna hærri veltu, þá hefur framlegðarhlutfall farið lækkandi. Með öðrum orðum, þá hefur kostnaðarverðshækkunum ekki verið fleytt af fullum þunga út í vöruverð. Þetta má telja mikilvægt framlag verslana Haga til baráttunnar við verðbólgu í matvöru á Íslandi, en undir lok árs var hún ein sú lægsta í Evrópu og sú lægsta á Norðurlöndunum. Þrátt fyrir þetta, þá telst afkoma verslana Haga ásættanleg og við teljum að þessi staðreynd endurspegli ágætlega styrkleika og samfélagslegt mikilvægi hagkvæmrar aðfangakeðju og skilvirkra verslana innan samstæðu Haga.

 

STEFNUMÓTANDI ÁHERSLUR SKILA ÁVINNINGI

Meginþema í þróun á starfsemi Haga snýst um að verða við breyttum kröfum viðskiptavina og ákalli þeirra um aukið aðgengi, hagkvæmni, upplýsingar og þjónustu. Á þessu síðasta rekstrarári sáum við ávinning af nýjum áherslum hjá Högum raungerast og hafa jákvæð áhrif á rekstur, með bættri þjónustu við viðskiptavini, nýjum tekjustraumum og áhugaverðum tækifærum til framtíðar.

Upplýsingatækni og stafrænar áherslur

Hjá Högum byggja umbætur í starfsemi á einn eða annan hátt á upplýsingum og stafrænum lausnum. Á síðustu tveimur árum hefur verið lögð sérstök áhersla á að byggja upp og styrkja stafræna innviði og var uppskera þeirrar vinnu á árinu góð. Fjárfestingar hafa annars vegar snúið að því að tryggja betur grunnrekstur upplýsingakerfa og auka rekstraröryggi. Hins vegar hefur þjónusta við viðskiptavini verið stóraukin, m.a. í formi netverslana fyrir Hagkaup og Stórkaup sem þjóna viðskiptavinum hvenær sem er og hvar sem er á landinu. Í maí 2023 var nýrri afgreiðslulausn hleypt af stokkunum í Bónus á Smáratorgi þegar viðskiptavinum var gert kleift að skanna vörur beint í poka með Gripið & Greitt sjálfsafgreiðslulausninni. Uppsetning Gripið & Greitt er stór áfangi fyrir Bónus og Haga, en á þeim grunni skapast fjöldi nýrra tækifæri til að þjóna viðskiptavinum enn betur til framtíðar.

Hönnun og smíði netverslana og sjálfsafgreiðslulausna eins og Gripið & Greitt skapar mikilvægan grunn til frekari nýtingar upplýsingatækni í starfsemi Haga og dótturfélaga. Á næstu misserum verður þessari vegferð haldið áfram með það að markmiði að kynna til sögunnar nýjar lausnir til að bæta upplifun viðskiptavina með framúrskarandi verslun.

Fókus á kjarnastarfsemi og aukinn kraftur í fasteignaþróun

Kjarninn í starfsemi Haga snýst um að koma mikilvægri neytendavöru á sem skilvirkastan hátt til viðskiptavina. Það hefur því verið sjálfstætt markmið síðustu ár að hliðra starfsemi sem ekki liggur að þessum kjarna annað og skapa þannig svigrúm fyrir stjórnendur Haga og dótturfélaga að einbeita sér fyrst og fremst að verslun með dagvöru og eldsneyti. Á síðasta ári var gengið frá sölu á efnaverksmiðjunni Mjöll-Frigg og kaupum á þriðjungs hlut í fasteignaþróunarfélaginu Klasa, þar sem Hagar lögðu hluta af þróunareignum samstæðunnar inn í félagið sem greiðslu kaupverðs. Með kaupum á og samstarfi um Klasa verður flýtt fyrir verðmætasköpun á grunni þróunareigna Haga auk þess sem samstarfið mun skapa ný tækifæri sem tengjast öðrum eignum Klasa. Um leið skapar samstarfið stjórnendum Haga svigrúm til að einbeita sér fyrst og fremst að kjarnarekstri í dagvöru og eldsneyti. Hjá Klasa eru spennandi verkefni framundan við þróun og uppbyggingu á lykilstaðsetningum á höfuðborgarsvæðinu, svo sem á Borgarhöfða og í Mjódd. Gert er ráð fyrir að byggingarmagn á vegum Klasa verði ríflega 300.000 m2 og þar af allt að 1.500 íbúðir.

Enn betri nýting innviða og ný tekjustoð

Innviðafélögin Aðföng og Bananar mynda mikilvægt bakbein aðfanga- og dreifinets Haga sem hagkvæmur rekstur verslana byggir á. Töluverð vinna hefur verið lögð í að styrkja innra starf beggja félaga enn frekar, með umbótum í gæðaferlum, vöruþróun, upplýsingatækni og stækkun vöruhúsa. Samhliða hefur verið horft til tækifæra til frekari nýtingar á þessum styrku stoðum Haga, umfram þjónustu við verslanir samstæðunnar. Með stofnun Stórkaups, sem byggir á innviðum Aðfanga og Banana, munu Hagar þjóna ört stækkandi hótel- og veitingamarkaði og öðrum stórnotendum fyrir rekstrar- og matvöru.

Nýjungar fyrir viðskiptavini Haga

Eldum rétt varð hluti af samstæðu Haga í nóvember 2022 en kaupin eru liður í viðleitni Haga að bregðast við breyttum þörfum viðskiptavina um hollar, einfaldar og tímasparandi lausnir þar sem matarsóun er í lágmarki. Eldum rétt smellpassar við þessar þarfir og það er ánægjulegt að sjá síaukna eftirspurn eftir þjónustu Eldum rétt, fyrst og fremst með áskrift í netverslun og núna nýlega í sölu stakra rétta í Hagkaup. Í dag telst okkur til að Eldum rétt sé ein stærsta og vinsælasta netverslun landsins með matvöru.

Epli

HAGAR STUÐLA AÐ BÆTTU SAMFÉLAGI

Metnaður Haga og dótturfélaga hefur ávallt staðið til þess að þjóna neytendum á Íslandi á ábyrgan og sjálfbæran hátt. Samfélagsleg markmið Haga hafa einkum tengst ábyrgri neyslu, minna kolefnisspori, stuðningi við nýsköpun, jafnrétti og íþrótta- og æskulýðsstarfi. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru höfð til leiðsagnar í þessari vinnu og mælingar unnar eftir umhverfisstjórnunarkerfi Klappa, sem birtar eru í sjálfbærniuppgjöri samstæðu Haga samkvæmt UFS leiðbeiningum Nasdaq. Að undanförnu hefur þessi þáttur í okkar starfi fengið enn aukið vægi með frekari rýni á áhrif samstæðu Haga á umhverfi og samfélag. Við höfum sett okkur markmið og áður gert grein fyrir þeim í sjálfbærniskýrslum helstu rekstrareininga samstæðunnar, þ.e. Bónus, Hagkaup og Olís, en þetta árið bætast Aðföng og Bananar við.

Á síðasta ári náðist góður árangur á mikilvægum mælikvörðum og er umhverfisspor Haga almennt að dragast saman þrátt fyrir að umsvif félagsins hafi aukist töluvert. Þar má nefna að umfang losunar gróðurhúsalofttegunda hefur minnkað og notkun allra orkugjafa sömuleiðis. Heildarvatnsnotkun hefur dregist saman og flokkunar- og endurvinnsluhlutfall úrgangs heldur áfram að aukast og stendur nú í tæpum 70%. Þennan árangur má rekja til marksvissra aðgerða í rekstri á undanförnum árum, m.a. aukinni nýtingu umhverfisvænna kælimiðla og hagkvæmari og grænni lýsingar í verslunum.

Á síðasta ári náðist góður árangur á mikilvægum mælikvörðum og er umhverfisspor Haga almennt að dragast saman þrátt fyrir að umsvif félagsins hafi aukist töluvert.

Hagar og dótturfélög hafa tekið þátt í fjölda verkefna sem ætlað er að styðja við markmið samstæðunnar um samfélagsstuðning og sjálfbærni. Þar á meðal má nefna frumkvöðlastarf í sjálfbærri matvælaframleiðslu í gegnum styrkveitingar úr Uppsprettunni – nýsköpunarsjóðs Haga, stór fjársöfnun Bónus, Hagkaups og Olís fyrir þolendur átakanna í Úkraínu í samstarfi við viðskiptavini og Rauða Krossinn og stuðning við kaup aðgerðaþjarka fyrir LSH. Umfjöllun um fleiri áhugaverð og þörf verkefni má finna í kafla ársskýrslu um stuðning við góð málefni. Hagar eru einnig bakhjarlar Grænvangs, samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir.

Um leið og við erum stolt af fjölda verkefna á vegum Haga sem hafa það að markmiði að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar og bæta íslenskt samfélag, þá er það sem stendur upp úr mikilvægi þess að gæta ávallt að hagkvæmni í rekstri og tryggja sem lægst verð á nauðsynjum til neytenda. Þetta er í grunninn það hlutverk sem Bónus hefur sinnt í meira en 30 ár, en það hefur líklega sjaldan, eða aldrei, verið mikilvægara.

 

REKSTRARBATI OG VIRÐI TIL HLUTHAFA

Stefnumótun Haga og aðgerðir til að styrkja rekstur hafa á undanförnum misserum skilað verulegum rekstrarbata og auknu virði til hluthafa. Uppsafnaður grunnhagnaður á hlut á síðustu 12 mánuðum nam 4,4 kr. miðað við 2,15 kr. á sama tíma fyrir tveimur árum. Fjárhagsleg staða Haga er sterk, með tæplega 28 ma. kr. eigið fé, 39% eiginfjárhlutfall og hóflega skuldsetningu. Í samræmi við arðgreiðslustefnu leggur stjórn til við aðalfund að arðgreiðsla til hluthafa fyrir sl. rekstrarár verði sem nemur 50,0% af heildarhagnaði ársins eða um 2,2 kr. á hlut útistandandi hlutafjár. Að auki er gert ráð fyrir að heimild til kaupa á eigin bréfum verði nýtt í endurkaupaáætlanir á næstu mánuðum.

 

ÓVISSA EN GÓÐAR HORFUR

Jákvæð framþróun samstæðu Haga á síðustu árum hefur sýnt fram á getu félagsins til að bregðast við og ná árangri í óvenjulegu og mjög svo ögrandi rekstrarumhverfi. Styrkur Haga liggur fyrst og fremst í öflugum dótturfélögum sem hafa á að skipa þaulreyndu starfsfólki sem vinnur af einurð að því markmiði að efla hag viðskiptavina með því að gera verslun sem hagkvæmasta, en um leið þægilega, einfalda og skemmtilega.

Við gerum ráð fyrir að rekstrarumhverfi verslunar verði áfram markað sambærilegum viðfangsefnum og verið hefur síðasta árið, þ.e. háu verði aðfanga, hækkandi rekstrarkostnaði og óstöðugleika. Við slíkar aðstæður koma styrkleikar dótturfélaga Haga ágætlega í ljós og við lítum því með bjartsýni fram á veg og teljum horfur í rekstri góðar.

Við þökkum starfsfólki fyrir óeigingjarnt starf, samstarfsaðilum fyrir árangursríkt samstarf og viðskiptavinum traustið sem þau sýna okkur dag hvern.