Fara á efnissvæði

LYKILTÖLUR ÚR REKSTRI

Hér á eftir má sjá þróun rekstrar- og efnahagsstærða samstæðu Haga síðastliðin fimm ár. 

SALA OG FRAMLEGÐ

REKSTRARKOSTNAÐUR

AFKOMA

HAGNAÐUR Á HLUT

EIGNIR

EIGIÐ FÉ

SKULDSETNING

Árið sem leið Ársreikningur

Ársreikningur Haga hf. fyrir rekstrarárið 2023/24 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 23. apríl 2024. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2023 til 29. febrúar 2024. Ársreikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) og viðeigandi ákvæði laga um ársreikninga. Endurskoðendur félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf., hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralausri áritun.

REKSTRARREIKNINGUR

Fjárhæðir í millj. kr. 2023/24 2022/23 Breyting %
Vörusala 173.270 161.992 11.278 7,0%
Kostnaðarverð seldra vara -137.281 -131.005 -6.276 4,8%
Framlegð 35.989 30.987 5.002 16,1%
Aðrar rekstrartekjur 682 1.031 -349 -33,9%
Hagnaður af sölu eigna 0 966 -966 -
Laun og launatengd gjöld -16.229 -14.345 -1.884 13,1%
Annar rekstrarkostnaður -7.379 -6.598 -781 11,8%
EBITDA 13.063 12.041 1.022 8,5%
Afskriftir -5.028 -4.453 -575 12,9%
Rekstrarhagnaður 8.035 7.588 447 5,9%
Hrein fjármagnsgjöld -2.621 -1.887 -734 38,9%
Áhrif hlutdeildarfélaga 697 392 305 77,8%
Hagnaður fyrir tekjuskatt 6.111 6.093 18 0,3%
Tekjuskattur -1.067 -1.144 77 -6,7%
Heildarhagnaður ársins 5.044 4.949 95 1,9%

 

Vörusala ársins nam 173.270 m.kr., samanborið við 161.992 m.kr. árið áður eða 7,0% aukning milli ára. Söluaukning verslana og vöruhúsa nam 15,1% en 8,7% samdráttur var í sölu hjá Olís. Seldum stykkjum í dagvöru fjölgaði á árinu og viðskiptavinir heimsóttu verslanir oftar. Seldir eldsneytislítrar stóðu nánast í stað milli ára.

Framlegð ársins var 35.989 m.kr., samanborið við 30.987 m.kr. árið áður, eða aukning sem nemur 16,1%. Framlegðarhlutfall nam 20,8% og hækkaði um 1,6%-stig frá fyrra ári. Hækkun framlegðarhlutfalls liggur að mestu í eldsneytishluta samstæðunnar, þá einkum á sviði stórnotenda, en í dagvöru hefur framlegðarhlutfall hækkað lítillega.

Á samanburðarári 2022/23 voru áhrif af viðskiptum með Klasa, og fleiri einskiptisliðum, að fjárhæð 1.417 m.kr. færð meðal annarra rekstrartekna.

Laun hækkuðu um 13,1% milli ára og launahlutfallið hækkar úr 8,9% í 9,4%. Annar rekstrarkostnaður hækkaði um 11,8% og fer kostnaðarhlutfall úr 4,1% í 4,3%.

EBITDA nam 13.063 m.kr., samanborið við 12.041 m.kr. árið áður eða 8,5% aukning. EBITDA-hlutfall var 7,5%, samanborið við 7,4% á fyrra ári. EBITDA, án einskiptistekna fyrra árs, jókst um 23,0% milli ára.

Heildarhagnaður ársins nam 5.044 m.kr., sem jafngildir 2,9% af veltu en heildarhagnaður á fyrra ári var 4.949 m.kr. eða 3,1% af veltu (3.815 m.kr. og 2,4% án einskiptisliða).

STARFSÞÁTTAYFIRLIT

EBITDA ÁRSFJÓRÐUNGA

EFNAHAGSREIKNINGUR

Fjárhæðir í millj. kr. 29.02.24 28.02.23 Breyting %
Eignir        
Fastafjármunir 56.085 50.502 5.583 11,1%
Veltufjármunir 21.129 21.505 -376 -1,7%
Eignir samtals 77.214 72.007 5.207 7,2%
         
Eigið fé        
Hlutafé 1.084 1.119 -35 -3,1%
Annað eigið fé 27.104 26.812 292 1,1%
Eigið fé samtals 28.188 27.931 257 0,9%
Skuldir        
Langtímaskuldir 23.139 21.101 2.038 9,7%
Skammtímaskuldir 25.887 22.975 2.912 12,7%
Skuldir samtals 49.026 44.076 4.950 11,2%
Eigið fé og skuldir samtals 77.214 72.007 5.207 7,2%

 

Heildareignir samstæðunnar í lok rekstrarárs námu 77.214 m.kr. og hækkuðu um 5.207 m.kr. frá fyrra ári.

Fastafjármunir voru 56.085 m.kr. og hækkuðu um 5.583 m.kr. á árinu. Hækkunina má að mestu rekja til hærri rekstrarfjármuna og hækkun leigueigna vegna nýrra og breyttra leigusamninga.

Veltufjármunir námu 21.129 m.kr. og lækkuðu um 376 m.kr. frá árslokum 2022/23.

Vörubirgðir eru stærsti hluti veltufjármuna og námu 13.068 m.kr. í árslok til samanburðar við 12.717 m.kr. á fyrra ári. Vörubirgðir í dagvöru og sérvöru hafa hækkað milli ára, einkum vegna áhrifa verðbólgu og fjölgunar verslana Bónus. Þá hafa eldsneytisbirgðir lækkað um 960 m.kr. milli ára, bæði vegna lægra einingaverðs og lægri birgðastöðu í lítrum talið. Veltuhraði birgða er nú 10,6 til samanburðar við 11,2 í fyrra.

Viðskiptakröfur og aðrar skammtímakröfur námu 6.234 m.kr. og hækkuðu um 315 m.kr. á árinu. Innheimtutími viðskiptakrafna er nú 10,2 dagar samanborið við 11,1 dag á fyrra ári.

Veltufjárhlutfall er 0,82 og lausafjárhlutfall 0,31 í árslok. Aðgangur að skammtímafjármögnun í formi lánalína að upphæð 6,2 ma. kr. hjá viðskiptabanka er tryggður en auk þess fjármagnar félagið sig til skamms tíma með útgáfu víxla.

Eigið fé í lok rekstrarárs var 28.188 m.kr. og eiginfjárhlutfall 36,5%. Arðsemi eigin fjár var 18,1%. Eiginfjárhlutfall við lok síðasta rekstrarárs var 38,8% og arðsemi eigin fjár 18,5%. Félagið átti eigin hluti að nafnverði 22,1 millj. kr. í lok árs.

Heildarskuldir samstæðunnar í lok árs námu 49.026 m.kr. en þar af voru vaxtaberandi skuldir 17.104 m.kr. og leiguskuldir 12.239 m.kr. Nettó vaxtaberandi skuldir, með leiguskuldum, í lok árs voru 27.517 m.kr. eða 2,1 x 12 mánaða EBITDA.

Vaxtaberandi skammtímaskuldir námu 5.818 m.kr. en þar af námu víxilskuldir 2.880 m.kr. Lánalína var óádregin í lok rekstrarárs.

FJÁRFESTINGAR ÁRSINS

SJÓÐSTREYMISYFIRLIT

Fjárhæðir í millj. kr. 2023/24 2022/23 Breyting %
Handbært fé frá rekstri 8.690 9.138 -448 -4,9%
Fjárfestingarhreyfingar -4.825 -3.962 -863 21,8%
Fjármögnunarhreyfingar -4.907 -3.090 -1.817 58,8%
Hækkun á handbæru fé -1.042 2.086 -3.128 -150,0%
Handbært fé í ársbyrjun 2.869 783 2.086 266,4%
Handbært fé í árslok 1.827 2.869 -1.042 -36,3%

Handbært fé frá rekstri á árinu nam 8.690 m.kr., samanborið við 9.138 m.kr. á fyrra ári.

Fjárfestingarhreyfingar ársins námu 4.825 m.kr., samanborið við 3.962 m.kr. á fyrra ári. Fjárfesting í fasteignum nam 1.549 m.kr. sem er að stærstum hluta í fasteign við Norðlingabraut í Reykjavík. Auk þess var fjárfest í opnun þriggja nýrra verslana Bónus, þ.e. við Norðlingabraut, í Holtagörðum og í Miðhrauni í Garðabæ. Þá var opnuð ný þjónustustöð Olís að Fitjum í Reykjanesbæ auk þess sem fjárfest var í stafrænni þróun, upplýsingatækni og mikilvægum sjálfbærnitengdum verkefnum á borð við kolsýruvæðingu kælikerfa.

Fjármögnunarhreyfingar ársins námu 4.907 m.kr., samanborið við 3.090 m.kr. á fyrra ári. Endurkaup eigin bréfa námu 2.333 m.kr. og arðgreiðsla í júní 2023 nam 2.475 m.kr. Nýr skuldabréfaflokkur var gefinn út í september að fjárhæð 2.000 m.kr.

Handbært fé í lok rekstrarárs nam 1.827 m.kr., samanborið við 2.869 m.kr. í lok fyrra árs.

Árið sem leið Staðan og framtíðarhorfur

Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið sem nú er liðið gerði ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) yrði á bilinu 12.900-13.400 m.kr. og er rekstrarhagnaður fyrir afskriftir því innan útgefinnar afkomuspár. Afkomuspáin var hækkuð í desember 2023 og var það í annað skipti frá því að upphafleg afkomuspá var gefin út samhliða birtingu ársuppgjörs 2022/23. Rekstur ársins gekk heilt yfir vel og má rekja afkomu umfram upphaflegar spár til aukinna umsvifa hjá öllum rekstrareiningum Haga auk sterkari afkomu hjá Olís en upphaflega var gert ráð fyrir. Góð aðsókn var í allar verslanir samstæðunnar á árinu, og þá einkum í dagvöruhluta samstæðunnar þar sem bæði seldum stykkjum og heimsóknum viðskiptavina fjölgaði nokkuð. Þá var einnig sterk eftirspurn í eldsneytishluta samstæðunnar.

Í september og október 2023 var tilkynnt um breytingar á framkvæmdastjórn samstæðunnar frá og með 1. janúar 2024. Þá tók Björgvin Víkingsson við starfi framkvæmdastjóra Bónus af Guðmundi Marteinssyni og Ingunn Svala Leifsdóttir tók við starfi framkvæmdastjóra Olís af Frosta Ólafssyni. Í mars 2024 tók svo Magnús Magnússon við stöðu aðstoðarforstjóra Haga en um nýtt hlutverk er að ræða innan samstæðunnar. Magnús hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra stefnumótunar og rekstrar frá því snemma árs 2021 og mun sinna því hlutverki áfram, ásamt hlutverki aðstoðarforstjóra. 

Þann 1. desember 2023 var tilkynnt að Olís, dótturfélag Haga, og Festi hefðu sameiginlega ráðið Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka til ráðgjafar um stefnu og framtíðarmöguleika hvað varðar eignarhluti félaganna í Olíudreifingu ehf., Eldsneytisafgreiðslunni á Keflavíkurflugvelli ehf. (EAK) og EBK ehf. Í framhaldi af þeirri vinnu hafa Olís og Festi komist að samkomulagi um að hefja undirbúning sölumeðferðar á eignarhlutunum. Olís á 40% eignarhlut í Olíudreifingu, 33,33% hlut í EAK og 25% hlut í EBK og er bókfært verð þeirra 1.295 m.kr. í árslok.

Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2024/25 sem nú var að hefjast gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) verði á bilinu 13.800-14.300 m.kr. Forsendur afkomuspár gerðu ráð fyrir 6,7% hækkun verðlags og að áhrif kjarasamninga næmu um 5% hækkun launa milli ára. Gert var ráð fyrir styrkingu stærstu innkaupamynta þegar líður á árið. Fjárfestingaráætlun ársins 2024/25 nemur 4.500-4.800 m.kr.

Fjárhagsleg staða samstæðu Haga hf. er sterk og félagið vel í stakk búið til að takast á við þær aðstæður sem upp geta komið í íslensku efnahagslífi. Fjármögnun samstæðunnar er tryggð til langs tíma og er aðgangur að skammtímafjármögnun í formi lánalína að fjárhæð 4,5 ma. kr. og USD 12,5 millj. einnig tryggður. Þá hefur félagið undanfarið nýtt sér skammtímafjármögnun í formi víxlaútgáfu en útgáfa víxlanna er í samræmi við grunnlýsingu 10 ma. kr. útgáfuramma sem stjórn félagsins hefur samþykkt. Gera má ráð fyrir að félagið horfi í meira mæli til markaðsfjármögnunar á næstu misserum.

Árið sem leið Fréttir úr starfseminni

EINSTAKIR RÉTTIR FRÁ ELDUM RÉTT Í HAGKAUP

Í mars 2023 tóku Eldum rétt og Hagkaup höndum saman og hófu sölu á Einstökum réttum í verslunum Hagkaups. Eldum rétt hefur hingað til selt matarpakka sína á netinu, þar sem panta þarf mat næstu viku með fyrirvara. Einstakir réttir gera hins vegar viðskiptavinum kleift að koma við í næstu Hagkaupsverslun og grípa með sér einstakan rétt, þar sem í hverjum kassa er að finna hráefni í réttum skömmtum til að töfra fram ljúffenga máltíð. Í hverri viku eru níu réttir í úrvali og eru nýir réttir í boði vikulega.

Einstakir réttir

GRIPIÐ & GREITT - NÝ SJÁLFSAFGREIÐSLULAUSN BÓNUS

Á vormánuðum 2023 tók Bónus í notkun nýja og þægilega sjálfsafgreiðslulausn sem nefnist Gripið & Greitt. Með lausn Gripið & Greitt skannar viðskiptavinurinn vörur sínar beint ofan í poka á leið sinni í gegnum verslunina og fækkar þannig handtökum sínum til muna. Samhliða var gefið út Bónusapp þar sem halda má utan um innkaupalistann sinn og innkaupasögu. Bónus Smáratorgi var fyrsta verslunin til að innleiða lausnina en í dag má finna afgreiðslulausn Gripið & Greitt í fimm Bónusverslunum; Miðhrauni, Smáratorgi, Holtagörðum, Spöng og Norðurtorgi á Akureyri.

NÝ ÞJÓNUSTUSTÖÐ OLÍS AÐ FITJUM REYKJANESBÆ

Ný og glæsileg þjónustustöð Olís var opnuð að Fitjum í Reykjanesbæ í byrjun júní 2023 en á sama tíma var þjónustustöðinni á Básnum lokað. Á nýju þjónustustöðinni er að finna girnilegar veitingar, meðal annars Grill 66 og Lemon mini, helstu nauðsynjar, bílavörur og góða þjónustu, svo ekki sé minnst á að auðvitað er hægt að fylla á tankinn.

NÝJAR VERSLANIR BÓNUS OG STÆKKUN VERSLUNAR Í HOLTAGÖRÐUM

Á árinu opnaði Bónus tvær nýjar verslanir auk þess sem verslun fyrirtækisins í Holtagörðum var stækkuð til muna.

Í byrjun júní opnaði Bónus 1.800 fermetra verslun að Norðlingabraut 2 í Reykjavík. Verslunin er byggð á grænum grunni eins og allar nýjar og endurbættar verslanir Bónus, þar sem notast er við íslenska CO2 kælimiðla fyrir kæli- og frystivélar en einnig eru LED lýsingar í allri versluninni sem spara orku. Fasteignin að Norðlingabraut er í eigu Haga.

Í júlí opnaði Bónus nýja og stærri matvöruverslun í Holtagörðum. Nýja verslunin er um 2.500 fermetrar að stærð eða 40% stærri en gamla verslunin sem var lokað á sama tíma. Bónus hefur rekið verslun í Holtagörðum frá árinu 1994 en nýja verslunin er tákn nýrri tíma, þar sem hún er búin því nýjasta sem verslanir Bónus hafa upp á að bjóða, líkt og Gripið & Greitt, sjálfsafgreiðslu, umhverfisvænum kælimiðlum, orkusparandi lýsingu og betri sorpflokkunaraðstöðu.

Síðast en ekki síst opnaði ný verslun Bónus í Miðhrauni í Garðabæ í lok nóvember og var það verslun númer 33 í röðinni. Verslunin er 2.300 fermetrar að stærð og er byggð á grænum grunni líkt og aðrar nýjar verslanir Bónus.

GLÆSILEG VEISLUÞJÓNUSTA HAGKAUPS Á NETINU

Veisluréttir Hagkaups er ný þjónusta á netinu sem kynnt var til leiks í sumarbyrjun. Um er að ræða nýja veisluþjónustu þar sem boðið er upp á bragðmikla og gómsæta veislurétti en veislubakkarnir samanstanda af ljúffengum smábitum sem henta beint á veisluborðið. Óhætt er að segja að viðtökurnar hafi verið frábærar og hefur nú þegar verið bætt verulega í vöruúrvalið til að mæta enn betur þörfum viðskiptavina.

Árið sem leið Hagar í Kauphöll

HLUTABRÉFIN

Viðskipti með hlutabréf Haga á Aðalmarkaði NASDAQ OMX Iceland hófust þann 16. desember 2011. Útgefið hlutafé í Högum nam 1.106.428.863 krónum í árslok 2023/24 og er hver hlutur 1 króna að nafnverði. Í lok árs námu eigin hlutir 22,1 milljónum króna að nafnverði. Auðkenni félagsins er HAGA. 

Í lok rekstrarársins, þann 29. febrúar 2024, stóð gengi hlutabréfa í Högum í 76,0 kr. á hlut, samanborið við 69,0 kr. á hlut í lok febrúar 2023 og hækkuðu bréf félagsins því um 10,1% á síðastliðnu rekstrarári. Verð í lok skráningardags þann 16. desember 2011 var 15,95 kr. á hlut.

ÞRÓUN HLUTABRÉFAVERÐS

HLUTHAFAR

Samkvæmt hlutaskrá félagsins voru hluthafar 1.055 talsins í byrjun rekstrarársins og 968 í lok þess. Stærsti einstaki hluthafinn er Gildi – lífeyrissjóður með 18,53% hlut. Lífeyrissjóðir starfsmanna ríkisins eiga óbeint 13,34% í félaginu en þeir samanstanda af A-, B- og S-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. 20 stærstu hluthafar félagsins eiga samtals 87,62% hlut en sömu hluthafar áttu samtals 84,42% hlut í lok síðasta árs. 20 stærstu hluthafarnir í lok rekstrarársins 2022/23 áttu þá 87,08% hlut.

 

  Hluthafi Fjöldi hluta 29.02.24 % Fjöldi hluta 28.02.23 %
1 Gildi - lífeyrissjóður 205.075.222 18.53% 219.358.769 19,37%
2 Lífeyrissj. starfsm. rík. A-deild 124.004.098 11,21% 124.980.360 11,03%
3 Lífeyrissjóður verzlunarmanna 112.742.728 10,19% 118.717.852 10,48%
4 Brú lífeyrissjóður starfsm. sveitarfél. 97.322.819 8,80% 88.761.215

7,84%

5 Kaldbakur ehf. 86.000.000 7,77% 51.211.948 4,52%
6 Birta lífeyrissjóður 85.397.749 7,72% 93.140.626 8,22%
7 Festa - lífeyrissjóður 50.249.169 4,54% 47.339.169 4,18%
8 Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda 32.856.665 2,97% 33.356.665 2,94%
9 Stapi lífeyrissjóður 31.350.046 2,83% 42.296.351 3,73%
10 Lífeyrissj. starfsm. rík. B-deild 23.588.133 2,13% 29.081.812 2,57%
11 Lífeyrissjóður starfsm. Rvk.borgar 22.738.306 2,06% 22.238.306 1,96%
12 Hagar hf. 22.119.617 2,00% 13.937.278 1,23%
13 Vanguard Emerging Markets Stock 14.708.565 1,33% 9.329.400 0,82%
14 Vanguard Total International S 13.831.173 1,25% 12.831.173 1,13%
15 Frjálsi lífeyrissjóðurinn 10.888.807 0,98% 13.800.574 1,22%
16 Almenni lífeyrissjóðurinn 10.453.671 0,94% 10.453.671 0,92%
17 Lífsverk lífeyrissjóður 7.528.431 0,68% 7.528.431 0,66%
18 Vanguard Fiduciary Trust Comp. 6.446.625 0,58% 3.956.288 0,35%
19 Legal and General ICAV 6.177.006 0,56% 3.925.578 0,35%
20 Arctic Funds PLC 6.000.000 0,54% 10.015.000 0,88%
  20 stærstu hluthafar 969.478.830 87,62%

956.260.466

84,42%
  Aðrir hluthafar 136.950.033 12,38% 176.415.616 15,58%
  Skráð hlutafé 1.106.428.863 100,00% 1.132.676.082 100,00%
  Hagar - eigin bréf 22.119.617 2,00% 13.937.278 1,23%
  Útistandandi hlutir 1.084.309.246 98,00% 1.118.738.804 98,77%

 

Eins og áður segir voru hluthafar í árslok 968 talsins en þeim má skipta í nokkra flokka. 725 einstaklingar eiga hlut í félaginu, með samtals um 2,7% af heildarhlutafé, en á sama tíma á fyrra ári voru 821 einstaklingur hluthafi í félaginu með 3,0%. 30 lífeyrissjóðir eiga 75,6% hlut í félaginu en á fyrra ári áttu 30 lífeyrissjóðir 77,8% hlut í því. Aðrir fjárfestar eru 172 talsins og eiga 13,4% hlut. Á fyrra ári voru aðrir fjárfestar 170 talsins með 12,9% hlut. Þá eru 40 erlendir fjárfestar í félaginu og eiga þeir 6,3% hlut til samanburðar við 5,1% á fyrra ári.

Flokkur Fjöldi hluta % Fjöldi hluthafa %
Lífeyrissjóðir 835.940.312 75,6% 30 3,1%
Aðrir fjárfestar 148.322.589 13,4% 172 17,8%
Erlendir fjárfestar 69.837.826 6,3% 40 4,1%
Einstaklingar 30.208.519 2,7% 725 74,9%
Eigin bréf 22.119.617 2,0% 1 0,1%
Hlutafé samtals 1.106.428.863 100,0% 968 100,0%

 

Í næstu töflu hér á eftir má sjá dreifingu hlutafjáreignar í félaginu í árslok. Flestir hluthafar, 437 talsins, eiga 1-9.999 hluti og samtals 0,1% hlutafjár. Þrír hluthafar eiga hvor um sig yfir 100.000.000 hluti í félaginu.

Fjöldi hluta Fjöldi hluthafa % Fjöldi hluta %
1-9.999 437 45,1% 1.371.488 0,1%
10.000-99.999 340 35,1% 12.160.240 1,1%
100.000-499.999 111 11,5% 23.829.803 2,2%
500.000-999.999 28 2,9% 19.606.669 1,8%
1.000.000-4.999.999 31 3,2% 74.266.944 6,7%
5.000.000-9.999.999 5 0,5% 31.866.951 2,9%
10.000.000-99.999.999 12 1,2% 479.385.103 43,3%
> 100.000.000 3 0,3% 441.822.048 39,9%
Samtals útistandandi 967 99,9% 1.084.309.246 98,0%
Eigin bréf 1 0,1% 22.119.617 2,0%
Samtals 968 100,0% 1.106.428.863 100,0%

 

ENDURKAUPAÁÆTLANIR

Á aðalfundi Haga sem haldinn var þann 1. júní 2023 var samþykkt að heimila félaginu að kaupa á næstu 18 mánuðum allt að 10% af heildarhlutafé í þeim tilgangi að koma á viðskiptavakt með hluti í félaginu og/eða til að setja upp formlega endurkaupaáætlun. Settar voru í framkvæmd tvær endurkaupaáætlanir á grundvelli fyrrgreindrar samþykktar en á rekstrarárinu voru samtals þrjár endurkaupaáætlanir framkvæmdar, sem námu 35,3 millj. hluta að nafnverði fyrir samtals 2.333 millj. kr.

AÐALFUNDUR

Aðalfundur Haga hf. árið 2024 verður haldinn þann 30. maí og hefst hann kl. 15:00. Fundurinn verður haldinn á Hilton Reykjavík Nordica (Vox Club), Suðurlandsbraut 2 í Reykjavík. Dagskrá fundarins og tillögur stjórnar hafa þegar verið auglýstar en niðurstöður fundarins verða birtar í Kauphöll og á vefsíðu félagsins strax að honum loknum.

ARÐGREIÐSLA OG ARÐGREIÐSLUSTEFNA

Stjórn Haga hefur mótað arðgreiðslustefnu félagsins en hana má sjá í heild sinni hér.

Stjórn Haga hf. leggur til við aðalfund félagsins þann 30. maí 2024 að greiddur verði arður til hluthafa vegna reikningsársins 2023/24 sem nemi 50,0% hagnaðar ársins eða samtals 2.522 milljónir króna. Arðgreiðslan nemur því 2,33 kr. á hlut útistandandi hlutafjár.

Samþykki aðalfundur tillöguna skal arðsréttindadagur vera 3. júní 2024, þ.e. réttur hluthafa til arðgreiðslu verður miðaður við hlutaskrá félagsins í lok þess viðskiptadags. Arðleysisdagur, þ.e. sá dagur sem viðskipti hefjast með bréf félagsins án réttar til arðs vegna reikningsársins 2023/24 verður því 31. maí 2024, eða næsti viðskiptadagur eftir aðalfund. Útborgunardagur arðs verður 7. júní 2024.

FJÁRHAGSDAGATAL

Birting árs- og árshlutauppgjöra á sér stað eftir lokun markaða hverju sinni. Kynningarfundir eru alla jafna haldnir kl. 08:30 daginn eftir birtingu uppgjörs og er tilkynnt tímanlega um staðsetningu og fyrirkomulag fundar hverju sinni.

Eftirfarandi fjárhagsdagatal fyrir rekstrarárið 1. mars 2024 til 28. febrúar 2025 hefur verið samþykkt af stjórn félagsins:

Rekstrarárið 2024/25 Vikudagur Birtingardagur
1. ársfj. Föstudagur 28. júní 2024
2. ársfj. Fimmtudagur 17. október 2024
3. ársfj. Fimmtudagur 9. janúar 2025
4. ársfj. Þriðjudagur 15. apríl 2025
Aðalfundur 2025 Miðvikudagur 21. maí 2025