Fréttir


13. okt. 2017

Ný Bónusbúð á grænum grunni

Bónus opnar verslun sína á Smáratorgi að nýju á morgun, laugardag. Búðin hefur verið stækkuð um tæplega 700 fermetra og er nú orðin stærsta Bónusverslun landsins á alls um 2.500 fermetrum. Afgreiðslutími í nýju versluninni er lengri en í öðrum Bónusbúðum og er opið frá kl. 10 að morgni  til kl. 19:00 frá mánudegi til fimmtudags, en til kl. 19:30 á föstudegi og laugardegi.  Sunnudagsopnun er frá kl. 11:00 til 18:00.

Í þessari nýju verslun er umhverfisþáttum gert hátt undir höfði. Allir kælar og frystar nota svokallað Green&Cool kerfi sem er fremst á sviði umhverfisvænna kælikerfa. Eina kæliefni kerfanna er íslenskur koltvísýringur í stað freons sem áður var notað. Þá er vélbúnaður kerfanna afar sparneytinn og kælum og frystum er lokað með gegnsæjum lokum. Þannig er umtalsverð orka spöruð auk þess sem hitastig verður jafnara og meðferð vörunnar um leið betri.

Viðskiptavinum nýju verslunarinnar býðst að skilja umbúðir eftir og láta búðina um að flokka þær og skila. Bónus hefur lagt mikla áherslu á vistvæna meðhöndlun úrgangs og endurvinnsluefna. Á síðasta ári flokkaðist sorp fyrirtækisins þannig að 61,2% fór sem bylgjupappi í endurvinnslu, úrgangur til urðunar var 34,9% og lífrænn úrgangur til moltugerðar 3,9%. Bónus mun halda áfram að þróa og efla þátt endurvinnslu í starfsemi sinni og vonast til þess að flokkunarþjónustunni í nýju versluninni verði vel tekið.

Nánari upplýsingar: Guðmundur Marteinsson framkvæmdastjóri, s. 527 9000


Þetta vefsvæði byggir á Eplica