Fréttir


12. jan. 2017

Hagar hf. árshlutauppgjör Q3 // mars 2016 – nóvember 2016

Árshlutareikningur Haga hf. fyrir þriðja ársfjórðung 2016/17 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 12. janúar 2017. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2016 til 30. nóvember 2016. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur hvorki verið kannaður né endurskoðaður.

 

Helstu upplýsingar

  • Hagnaður tímabilsins nam 3.035 millj. kr. eða 5,1% af veltu.

  • Vörusala tímabilsins nam 59.663 millj. kr.

  • Framlegð tímabilsins var 24,9%.

  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 4.578 millj. kr.

  • Heildareignir samstæðunnar námu 30.764 millj. kr. í lok tímabilsins.

  • Handbært fé félagsins nam 3.028 millj. kr. í lok tímabilsins.

  • Eigið fé félagsins nam 16.412 millj. kr. í lok tímabilsins.

  • Eiginfjárhlutfall var 53,3% í lok tímabilsins.

 

Söluvöxtur félagsins var 4,3% á tímabilinu

Vörusala tímabilsins nam 59.663 milljónum króna, samanborið við 57.177 milljónir króna árið áður. Söluvöxtur félagsins er því 4,3% á tímabilinu. Hækkun 9 mánaða meðaltals vísitölu neysluverðs milli rekstrarára var 1,58% en vísitalan án húsnæðis lækkaði um 0,24%. Framlegð félagsins var 14.867 milljónir króna, samanborið við 13.985 milljónir króna árið áður eða 24,9% framlegð samanborið við 24,5% á fyrra ári. Rekstrarkostnaður í heild hækkar um 469 milljónir króna eða 4,7% milli ára en kostnaðarhlutfallið hækkar úr 17,4% í 17,5%.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 4.578 milljónum króna, samanborið við 4.141 milljónir króna árið áður. EBITDA framlegð var 7,7%, samanborið við 7,2% árið áður.

Hagnaður tímabilsins fyrir skatta nam 3.794 milljónum króna, samanborið við 3.539 milljónir króna árið áður. Hagnaður eftir skatta nam 3.035 milljónum króna á tímabilinu, sem jafngildir 5,1% af veltu en hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 2.831 milljónir.

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 30.764 milljónum króna. Fastafjármunir voru 17.152 milljónir króna og veltufjármunir 13.612 milljónir króna. Þar af eru birgðir 5.732 milljónir króna en birgðir voru 6.332 milljónir króna ári áður.

Eigið fé félagsins var 16.412 milljónir króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 53,3%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 14.352 milljónir króna, þar af voru langtímaskuldir 4.450 milljónir króna.

Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 4.000 milljónum króna, samanborið við 3.871 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 1.222 milljónir króna. Fjármögnunar-hreyfingar tímabilsins voru 3.560 milljónir króna og þar af voru 1.992 milljónir króna vegna arðgreiðslu í júní sl. og 1.000 milljónir króna vegna kaupa félagsins á eigin bréfum. Handbært fé í lok tímabilsins var 3.028 milljónir króna, samanborið við 2.727 milljónir króna árið áður.

 

Staðan og framtíðarhorfur

Uppgjör þriðja ársfjórðungs var gott en fyrstu 9 mánuðir rekstrarársins hafa verið á áætlun. Drög að uppgjöri desembermánaðar liggur nú fyrir og er niðurstaðan sambærileg fyrra ári. Horfur næstu mánaða eru í takti við áætlanir, sem gera ráð fyrir sambærilegri niðurstöðu og á fyrra ári. Verðhjöðnun er í ákveðnum vöruflokkum sem mun hafa áhrif á veltu félagsins í krónum talið, en ekki er gert ráð fyrir áhrifum á afkomu félagsins.

Á tímabilinu lokaði matvöruhluti Hagkaups í Holtagörðum, verslun Útilífs í Glæsibæ auk tveggja tískuverslana. Þá var verslun Hagkaups í Smáralind lokuð um tveggja og hálfs mánaða skeið vegna breytinga. Verslunin opnaði á ný í byrjun nóvember, samhliða opnun fyrsta Krispy Kreme kaffihússins á Íslandi, en verslunin og kaffihúsið hafa fengið frábærar viðtökur.

Í nóvember undirritaði félagið kaupsamning um kaup á öllum hlutum í Lyfju hf. Kaupverðið var 6,7 milljarðar króna en samningurinn var undirritaður með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Gangi þeir fyrirvarar eftir má gera ráð fyrir að gengið verði frá viðskiptunum fyrir 1. júlí 2017.

Í desember undirrituðu Hagar nýjan leigusamning við Reiti um verslun Hagkaups í Kringlunni. Verslunin mun verða á einni hæð, í stað tveggja hæða áður og mun því minnka um 3.500 m2. Efri hæð verslunarinnar verður lokað í febrúar nk. og mun ný og endurbætt verslun verða opnuð á neðri hæð Kringlunnar á haustmánuðum.

Í janúar var skrifað undir kaupsamning félagsins um kaup á 4.706,3 m2 eignarhluta í Skeifunni 11, auk hlutfallslegrar hlutdeildar í sameign. Kaupverðið var 1.714 milljónir króna og var fjármagnað úr sjóði. Innifalið í kaupverði er réttur félagsins til tryggingabóta, en stór hluti eignarinnar skemmdist í bruna árið 2014.

Framkvæmd endurkaupaáætlunar er nú lokið en endurkaupin námu 1.000 milljónum króna eða 19,2 milljónum hluta.

 

Fjárhagsdagatal 2016/17

4. ársfjórðungur (1. mars – 28. feb): 15. maí 2017

Aðalfundur 7. júní 2017

 

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.

Árshlutareikningur

FréttatilkynningÞetta vefsvæði byggir á Eplica