Fréttir


29. jún. 2016

Hagar hf. árshlutauppgjör Q1 // mars - maí 2016

Árshlutareikningur Haga hf. fyrir fyrsta ársfjórðung 2016/17 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 29. júní 2016. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2016 til 31. maí 2016. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Endurskoðendur félagsins, KPMG ehf., hafa hvorki endurskoðað né kannað reikninginn.

Helstu upplýsingar

  • Hagnaður tímabilsins nam 948 millj. kr. eða 4,7% af veltu.

  • Vörusala tímabilsins nam 19.981 millj. kr.

  • Framlegð tímabilsins var 24,6%.

  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 1.373 millj. kr.

  • Heildareignir samstæðunnar námu 31.637 millj. kr. í lok tímabilsins.

  • Handbært fé félagsins nam 4.733 millj. kr. í lok tímabilsins.

  • Eigið fé félagsins nam 17.316 millj. kr. í lok tímabilsins.

  • Eiginfjárhlutfall var 54,7% í lok tímabilsins.


Söluvöxtur félagsins var 7,0% á tímabilinu

Vörusala tímabilsins nam 19.981 milljónum króna, samanborið við 18.668 milljón króna árið áður. Söluvöxtur félagsins á tímabilinu er 7,0%. Hækkun 3 mánaða meðaltals vísitölu neysluverðs milli rekstrarára var 1,59% en hækkun vísitölunnar án húsnæðis var 0,22%. Framlegð félagsins var 4.912 milljónir króna, samanborið við 4.485 milljónir króna árið áður eða 24,6% framlegð samanborið við 24,0% á fyrra ári. Rekstrarkostnaður í heild hækkar um 275 milljónir króna eða 8,3% milli ára en kostnaðarhlutfallið hækkar úr 17,8% í 18,0%.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 1.373 milljónum króna, samanborið við 1.212 milljónir króna árið áður. EBITDA framlegð var 6,9%, samanborið við 6,5% árið áður.

Hagnaður tímabilsins fyrir skatta nam 1.185 milljónum króna, samanborið við 1.014 milljónir króna árið áður. Hagnaður eftir skatta nam 948 milljónum króna á tímabilinu, sem jafngildir 4,7% af veltu en hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 811 milljónir.

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 31.637 milljónum króna. Fastafjármunir voru 16.732 milljónir króna og veltufjármunir 14.905 milljónir króna. Þar af eru birgðir 5.342 milljónir króna en birgðir voru 4.951 milljónir króna ári áður.

Eigið fé félagsins var 17.316 milljónir króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 54,7%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 14.321 milljónir króna, þar af voru langtímaskuldir 3.984 milljónir króna.

Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 1.350 milljónum króna, samanborið við 2.203 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 239 milljónir króna og fjármögnunarhreyfingar 188 milljónir króna. Handbært fé í lok tímabilsins var 4.733 milljónir króna, samanborið við 4.814 milljónir króna árið áður.


Staðan og framtíðarhorfur

Áhrif verkfalla og kostnaðarauki vegna kjarasamninga setti mark sitt á fyrsta ársfjórðung fyrra rekstrarárs og ber því samanburður milli ára þess merki.

Hagar munu loka verslun Debenhams í Smáralind eigi síðar en í lok maímánaðar 2017 þegar núverandi leigusamningur rennur út þar sem ekki náðust samningar við leigusala um endurnýjun. Verslun Útilífs í Smáralind verður flutt í austurenda Smáralindar og minnkar um tæplega 200 fermetra. Með lokun Debenhams á næsta ári, minnkun verslunar Hagkaups á haustmánuðum og minnkun Útilífs mun verslunarfermetrum Haga í Smáralind fækka um nálægt 9.500.   

 

Fjárhagsdagatal 2016/17

2. ársfjórðungur (1. mars – 31. ágúst): 27. október 2016

3. ársfjórðungur (1. mars – 30. nóvember): 12. janúar 2017

4. ársfjórðungur (1. mars – 29. feb): 15. maí 2017

 

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.

Árshlutareikningur

FréttatilkynningÞetta vefsvæði byggir á Eplica