Fréttir


28. okt. 2015

Hagar hf. árshlutauppgjör Q2 // mars 2015 – ágúst 2015

Árshlutareikningur Haga hf. fyrir annan ársfjórðung 2015/16 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 28. október 2015. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2015 til 31. ágúst 2015. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins, KPMG ehf.

 

Helstu upplýsingar

  • Hagnaður tímabilsins nam 1.986 millj. kr. eða 5,2% af veltu.

  • Vörusala tímabilsins nam 38.390 millj. kr.

  • Framlegð tímabilsins var 24,3%.

  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 2.868 millj. kr.

  • Heildareignir samstæðunnar námu 27.974 millj. kr. í lok tímabilsins.

  • Handbært fé félagsins nam 2.478 millj. kr. í lok tímabilsins.

  • Eigið fé félagsins nam 14.758 millj. kr. í lok tímabilsins.

  • Eiginfjárhlutfall var 52,8% í lok tímabilsins.

 

Söluaukning félagsins var 0,1% - Afnám vörugjalda hefur áhrif á söluvöxt

Vörusala tímabilsins nam 38.390 milljónum króna, samanborið við 38.363 milljónir króna árið áður. Söluaukning félagsins er 0,1%. Hækkun 6 mánaða meðaltals vísitölu neysluverðs milli rekstrarára var 1,71% en hækkun vísitölunnar án húsnæðis var 0,23%. Vörugjöld sem voru afnumin um síðustu áramót voru um 1,7% af kostnaðarverði seldra vara á síðasta almanaksári. Framlegð félagsins var 9.332 milljónir króna, samanborið við 9.265 milljónir króna árið áður eða 24,3% framlegð samanborið við 24,2% á fyrra ári. Rekstrarkostnaður í heild hækkar um 272 milljónir króna eða 4,3% milli ára en kostnaðarhlutfallið hækkar úr 16,4% í 17,1%.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 2.868 milljónum króna, samanborið við 3.043 milljónir króna árið áður. EBITDA framlegð var 7,5%, samanborið við 7,9% árið áður.

Hagnaður tímabilsins fyrir skatta nam 2.482 milljónum króna, samanborið við 2.617 milljónir króna árið áður. Hagnaður eftir skatta nam 1.986 milljónum króna á tímabilinu, sem jafngildir 5,2% af veltu en hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 2.094 milljónir.

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 27.974 milljónum króna. Fastafjármunir voru 15.514 milljónir króna og veltufjármunir 12.460 milljónir króna. Þar af eru birgðir 4.924 milljónir króna en birgðir voru 4.969 milljónir króna ári áður.

Eigið fé félagsins var 14.758 milljónir króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 52,8%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 13.216 milljónir króna, þar af voru langtímaskuldir 4.255 milljón króna.

Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 2.815 milljónum króna, samanborið við 2.766 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 1.319 milljónir króna, þar af 722 milljónir króna vegna fasteignaverkefna. Fjármögnunarhreyfingar tímabilsins voru 2.366 milljónir króna og þar af voru 1.992 milljónir króna vegna arðgreiðslu í júní sl. Handbært fé í lok tímabilsins var 2.478 milljónir króna, samanborið við 3.046 milljónir króna árið áður.


Staðan og framtíðarhorfur

Áhrif verkfalla og kostnaðarauki vegna kjarasamninga setti mark sitt á fyrsta ársfjórðung Haga. Annar ársfjórðungur var betri og jókst hagnaður um 1,7% milli ára og var það umfram áætlanir félagsins. Horfur næstu mánaða eru sambærilegar árangri fyrra árs og gera áætlanir félagsins ráð fyrir því.

Þann 15. ágúst sl. opnaði Bónus verslun sína í Skipholti en Hagar festu kaup á hluta fasteignarinnar við Skipholti 11-13 þar sem verslunin er til húsa. Þann 10. október sl. opnaði Bónus svo verslun sína við Túngötu í Keflavík en Hagar festu einnig kaup á þeirri fasteign í júní sl. Opnun verslunar Bónus í Vestmannaeyjum hefur dregist á langinn en vonir standa til að hún opni fyrir jól.

Framkvæmdir við byggingu nýs vöruhúss Banana er á áætlun, bæði tíma- og kostnaðarlega séð. Gert er ráð fyrir að Bananar flytji í hið nýja húsnæði strax í upphafi næsta árs.

Nú sést til lands í samningum við Smáralind um nýjan leigusamning fyrir Hagkaup.  Gert er ráð fyrir að verslun Hagkaups minnki um c.a. 5.000 fermetra.

Tveir íþyngjandi leigusamningar eru að renna út.  Annar um áramót og hinn um mitt ár 2016.  Árlegur kostnaður vegna þessara samninga er um 100 milljónir króna.


Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa:

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn á Nauthól, Nauthólsvegi 106 í Reykjavík, fimmtudaginn 29. október kl. 8:30, en þar mun Finnur Árnason, forstjóri Haga, kynna afkomu félagsins og svara spurningum ásamt stjórnendum félagsins.

Kynningarefni, ásamt upptöku af fundinum, verður aðgengilegt að honum loknum á heimasíðu Haga, www.hagar.is.

 

Fjárhagsdagatal 2015/16

3. ársfjórðungur (1. mars – 30. nóvember): 12. janúar 2016

4. ársfjórðungur (1. mars – 29. feb): 12. maí 2016

 

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.

Fréttatilkynning

Árshlutareikningur


Þetta vefsvæði byggir á Eplica