Fréttir


31. des. 2014

Skýr arðgreiðslustefna breikkar hluthafahópinn

Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir að arðgreiðslustefna félagsins sé hönnuð svo að stjórnendur geti ekki smeygt sér framhjá henni.

„Ég tel að íslensk fyrirtæki fyrir bankahrun hafi svolítið misst stjórn á sér hvað fjárfestingar varðaði og allt of algengt var að fyrirtæki væru að kaupa eignir sem höfðu í raun lítið með kjarnastarfsemi þeirra að gera og við tókum e.t.v. að hluta þátt í því,“ segir Finnur Árnason, forstjóri Haga. Hagar hlutu í dag Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og tók Finnur við viðurkenningunni í dag.

Hann segir í ítarlegu viðtali í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins, að bankarnir hafi einnig leikið stórt hlutverk í þessari þróun fyrir hrun. „Ég man að þeir komu iðulega til okkar með hugmyndir um fjárfestingar sem voru okkur í raun algerlega óviðkomandi. Framboð á peningum var allt of mikið og þegar engin framboðsstýring er á peningum leita þeir í einhvern farveg og það er eitthvað sem var í gangi fyrir hrun. Ég tel að fólk þurfi líka að staldra við núna þegar hlutabréfamarkaðurinn er að fara af stað aftur og hugsa sig um. Íslenski markaðurinn hefur ákveðna tilhneigingu til hjarðhegðunar og ég myndi vara við henni aftur.“

Hann segist halda að Hagar hafi verið fyrst íslenskra fyrirtækja til að setja sér arðgreiðslustefnu eftir bankahrunið 2008. „Stefnan var fastmótuð fyrir skráningu okkar og þeir sem fjárfestu vissu að hverju þeir gengu. Arðgreiðslustefnan er ekki opin og býður því ekki upp á að stjórnendur geti smeygt sér framhjá henni og það sama á við um áhersluna á kjarnastarfsemina. Við höfum einbeitt okkur að dagvöruhlutanum og dregið úr sérvöruhlutanum. Við viljum í raun draga meira úr sérvöruhlutanum og því ekki víst að við séum komin á endastöð þar.

Ég held að krafa um arðgreiðslustefnu sé háværari en hún var áður. Skýr arðgreiðslustefna breikkar líka hluthafahópinn og gerir hlutabréfin meira aðlaðandi fyrir einstaklinga, sem ég held að sé jákvætt. Frá skráningu hafa Hagar í þrígang greitt arð til hluthafa og nema þær um 2,4 milljörðum króna,“ segir Finnur.Þetta vefsvæði byggir á Eplica