Fréttir


4. sep. 2014

Gengisstyrking hefur skilað sér í lægra verðlagi

Mismunur á álagningu Haga á fyrsta ársfjórðungi 2013 og 2014 er 0,0%

Hlutabréf Haga hf. eru skráð í Kauphöll Íslands og upplýsingagjöf félagsins fer að lögum og reglum um skráð félög.  Skylda félagsins er m.a. að birta fjórum sinnum á ári upplýsingar um rekstur og afkomu.

Í ljósi umfjöllunar undanfarna daga um samspil gengisbreytinga og verðlagsbreytinga á dagvörumarkaði er rétt að benda á þær upplýsingar sem nú þegar eru aðgengilegar á opinberum vettvangi en hafa ekki ratað inn í umræðuna.

Álagning Haga er opinber og birt fjórum sinnum á ári.  Álagning fyrir fyrsta ársfjórðung sem lauk í lok maímánaðar í samanburði við álagningu á fyrsta ársfjórðungi á síðasta ári er sú sama.  Mismunur í álagningu er 0,0%.

Framlegð Haga á síðasta rekstrarári var 0,2% hærri en árið á undan, en 0,5% lægri en t.a.m. árin 2009 til 2011.  Undanfarin ár hefur álagning félagsins því verið stöðug í samanburði við miklar gengissveiflur íslensku krónunnar.

Fullyrðing um að meðalgengi íslensku krónunnar hafi styrkst um 13% og að sú styrking hafi ekki komið fram í verðlagi verslana Haga er röng.  Því ef verslanir Haga hefðu haldið eftir, þó ekki væri nema hluta af styrkingu íslensku krónunnar á umræddu tímabili, þá hefði það strax komið fram í hærri framlegð félagsins á fyrsta ársfjórðungi.  Vegið meðaltal á innkaupsgengi Haga sýnir styrkingu krónunnar um 1,6% undanfarna 12 mánuði og 8,6% frá janúar 2013.  Styrkingin hefur að fullu komið fram í verðlagi verslana Haga.

Bónus hefur lækkað verð á milli ára

Rétt er að árétta að Bónus býður, skv. fjölda verðkannana, lægsta vöruverð á Íslandi og býður sama verð um land allt.  Íbúum á landsbyggðinni stendur því flestum til boða lægsta mögulega verð  á Íslandi.  Í fréttum nýlega kom fram að Bónus hefði lækkað verð á milli ára á fjölda vöruflokka.  

Í fjölmiðlum undanfarna daga hafa komið fram fullyrðingar sem eru rangar og ber að leiðrétta:

Tæplega helmingur af innkaupakörfu heimilisins í dagvöru eru innlendar landbúnaðarvörur.  Um 20-25% eru innlendar iðnaðarvörur og um 30% eru innfluttar vörur.  Eigin innflutningur Haga er á bilinu 10-15% af innkaupakörfu verslana Haga, en ekki 85% eins og haldið hefur verið fram.

Í árbók verslunarinnar sem kom út nú í ágústmánuði kemur fram að velta á dagvörumarkaði á Íslandi er rúmlega 204 milljarðar króna.  Í ársreikningi Haga fyrir síðasta rekstrarár kemur fram að heildarvelta félagsins í dagvöru og sérvöru eru rúmir 76 milljarðar króna.  Þessar tölur sýna að tveir stærstu aðilar á markaði eru langt frá því að vera með 80% markaðshlutdeild eins og haldið hefur verið fram. 

Sagan sýnir að lækkun á vörugjöldum og sköttum skilar sér í lægra smásöluverði

Því hefur ranglega verið haldið fram að skattalækkanir í fortíðinni hafi ekki skilað sér í lægra vöruverði.  Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2012 kemur eftirfarandi fram á bls. 8: „Lækkun á virðisaukaskatti á matvælum úr 14% í 7% sem og lækkun á vörugjöldum, einkum gosdrykkjum, í mars 2007 skilaði sér í samsvarandi lækkun á verði matvöru í smásölu“.  Þar kemur einnig fram á bls 8: „Verð hækkaði hins vegar mikið í kjölfar gengishruns krónunnar á árinu 2008. Verðhækkun á árunum 2009 til 2011 var einnig umtalsverð í flestum flokkum dagvöru“.  Ljóst er að álagning Haga hefur lækkað frá þessum árum og því hefur lækkun á vörugjöldum skilað sér í lægra verði til viðskiptavina.

Andstæðingar neytenda draga athyglina frá eigin aðgerðarleysi í neytendamálum

Hagar hafa barist fyrir hagsmunum viðskiptavina sinna, m.a. með því að leggja áherslu á aukið viðskiptafrelsi, sem mun leiða til lægra vöruverðs.  Andstæðingar neytenda hafa séð hag sinn í því að draga athyglina frá eigin aðgerðarleysi í neytendamálum með röngum staðhæfingum um Haga.  Slík umfjöllun mun ekki hafa áhrif á baráttu Haga fyrir bættum hag íslenskra heimila.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica