Fréttir


31. mar. 2014

Pokasjóður gefur Landsspítala lungnarannsóknartæki

Pokasjóður gefur nýjan tækjabúnað til rannsókna á lungnarannsóknarstofu Landspítalans í Fossvogi. Tækin eru af fullkomnustu gerð frá fyrirtækinu CareFusion og framleidd í Þýskalandi. Þau leysa af hólmi  eldri tæki sem notuð hafa verið síðastliðin 14 ár og eru orðin úrelt. Nýju tækin kosta um 30 milljónir króna.

Þetta er önnur gjöfin til sjúkrastofnunar í samræmi við breyttar áherslur Pokasjóðs. Dregið hefur verið tímabundið úr hefðbundnum úthlutunum en fjármunir þess í stað lagðir til tækjakaupa fyrir sjúkrastofnanir landsins. Áður var búið að afhenda Landspítalanum brjóstholssjá að andvirði 9 milljónir króna.

Fulltrúar Pokasjóðs eru Bjarni Finnsson, Finnur Árnason, Höskuldur Jónsson og Skúli Skúlason. Davíð Ottó Arnar, framkvæmdastjóri Lyflækningasviðs tekur við gjöfinni fyrir hönd Landspítalans.

Tækjagjöfin gerir Landspítalanum kleift að bæta svo um munar þjónustu við lungnasjúklinga og er búnaðurinn sá fullkomnasti á landinu. Nýju tækin gera mögulegt að vinna við mælingar á fleiri starfstöðvum samtímis og auka þannig  afkastagetu lungnarannsóknarstofunnar. Með nýju tækjunum má framkvæma allar helstu öndunarmælingar auk þess sem gera má áreynslupróf á þrekhjóli og á göngubretti.

Nýju tækin gagnast við greiningu á öllum algengum lungnasjúkdómum svo sem langvinnri lungnateppu, astma og ýmsum bandvefssjúkdómum í lungum. Einnig nýtast þau vel við greiningu á mæði af óþekktum toga.  Tækin gagnast líka þeim sem fylgja þarf eftir með reglubundum hætti svo sem einstaklingum sem farið hafa í hjarta- og lungnaígræðslu.

Á síðustu árum hefur  færst í vöxt að sjúklingar fari í svokölluð áreynslupróf fyrir skurðaðgerðir til að meta starfsemi hjarta og lungna og auka þannig öryggi þeirra sem þurfa á skurðaðgerðum að halda.

Gera má ráð fyrir að lungnasjúkdómar séu enn talsvert vangreindir á Íslandi. Talið er að 16-18 þúsund manns hafi langvinna lungnateppu en aðeins hluti þeirra hefur fengið greiningu. Öndunarmæling er forsenda fyrir greiningu sjúkdómsins og mikilvæg fyrir snemmgreiningu og stigun sjúkdómsins og vali á lyfjameðferð.

Meðal verslana í Pokasjóði eru Samkaup, Bónus, Vínbúðin, Hagkaup, Melabúðin, Þín verslun, Kaupfélag Steingrímsfjarðar og Kaupfélag Vestur Húnvetninga.

Nánari upplýsingar veitir Bjarni Finnsson, formaður stjórnar Pokasjóðs, sími 896-3896.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica