Fréttir


24. okt. 2013

Hagar hf. árshlutauppgjör Q2 // mars - ágúst 2013

Árshlutareikningur Haga fyrir annan ársfjórðung 2013/14 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 24. október 2013.  Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2013 til 31. ágúst 2013. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins, KPMG ehf.

 

Helstu upplýsingar:

·         Hagnaður tímabilsins nam 1.973 millj. kr. eða 5,2% af veltu.

·         Vörusala tímabilsins nam 37.794 millj. kr.

·         Framlegð tímabilsins var 24,1% og lækkar um 0,1% frá fyrra ári.

·         Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 3.003 millj. kr.

·         Heildareignir samstæðunnar námu 26.867 millj. kr. í lok tímabilsins.

·         Handbært fé félagsins nam 3.854 millj. kr. í lok tímabilsins.

·         Eigið fé félagsins nam 10.118 millj. kr. í lok tímabilsins.

·         Eiginfjárhlutfall var 37,7% í lok tímabilsins.

Vörusala tímabilsins nam 37.794 milljónum króna, samanborið við 35.569 milljónir króna árið áður. Söluaukning félagsins er 6,26%. Hækkun 6 mánaða meðaltals vísitölu neysluverðs milli rekstrarára var 3,69%. Framlegð félagsins var 9.115 milljónir króna, samanborið við 8.625 milljónir króna árið áður eða 24,1% samanborið við 24,2%, þ.e. framlegð félagsins lækkar um 0,1% milli tímabila. Rekstrarkostnaður í heild hækkar um 1,8% milli ára en kostnaðarhlutfallið lækkar úr 17,1% í 16,4%.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 3.003 milljónum króna, samanborið við 2.632 milljónir króna árið áður. EBITDA framlegð var 7,9%, samanborið við 7,4% árið áður.

Hagnaður tímabilsins fyrir skatta nam 2.466 milljónum króna, samanborið við 1.966 milljónir króna árið áður.  Hagnaður eftir skatta nam 1.973 milljónum króna á tímabilinu, sem jafngildir um 5,2% af veltu. Hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 1.554 milljónir en það jafngildir 27% bata milli ára.

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 26.867 milljónum króna. Fastafjármunir voru 12.774 milljónir króna og veltufjármunir 14.093 milljónir króna. Þar af eru birgðir 5.015 milljónir króna en birgðir hafa minnkað lítillega frá lokum síðasta rekstrarárs. Birgðir á sama tíma í fyrra námu 4.483 milljónum króna.

Eigið fé félagsins var 10.118 milljónir króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 37,7%.  Heildarskuldir samstæðunnar voru 16.749 milljónir króna, þar af voru langtímaskuldir 8.124 milljónir króna. Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins í lok tímabilsins voru 4.268 milljónir króna en 500 milljónir króna voru greiddar inn á langtímalán félagsins umfram lánssamning á tímabilinu.

Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 2.524 milljónum króna, samanborið við 2.275 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 207 milljónir króna og fjármögnunar­hreyfingar 1.410 milljónir króna en á tímabilinu voru greiddar 586 milljónir króna í arðgreiðslu til hluthafa. Handbært fé í lok tímabilsins var 3.854 milljónir króna, samanborið við 2.943 milljónir króna árið áður.

  

Framtíðarhorfur:

Rekstur félagsins á öðrum ársfjórðungi rekstrarársins 2013/14 var, líkt og fyrsti ársfjórðungur, umfram áætlanir. Rekstrarniðurstaðan var auk þess betri en á sama tímabili á fyrra ári. Horfur í rekstri næstu mánaða eru sambærilegar því sem verið hefur en áframhald verður á vinnu við bætt kostnaðarhlutföll og hagkvæmari aðfangakeðju. Auk þess mun félagið skoða nýja fjárfestingakosti í kjarnastarfsemi, nýjar staðsetningar sem og áframhaldandi niðurgreiðslu skulda. Unnið verður áfram í leigusamningum félagsins með það að markmiði að fækka fermetrum og gera ákveðnar einingar hagkvæmari.

  

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa:

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn á Hilton Reykjavík Nordica, föstudaginn 25. október kl. 8:30, en þar mun Finnur Árnason forstjóri Haga kynna afkomu félagsins og svara spurningum ásamt stjórnendum félagsins.

Kynningarefni fundarins verður aðgengilegt að honum loknum á heimasíðu Haga, www.hagar.is.

 

Fjárhagsdagatal 2013/14:

3. ársfjórðungur (1. mars – 30. nóv): 10. janúar 2014

4. ársfjórðungur (1. mars – 28. feb): 15. maí 2014

  

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.

 

Árshlutareikningur 31.08.2013

Fréttatilkynning


Þetta vefsvæði byggir á Eplica