Fréttir


21. okt. 2013

Pokasjóður gefur Landsspítala brjóstholssjá

 

Pokasjodur-afhendir-Landspitala-nyja-brjostholssja-003Pokasjóður verslunarinnar afhenti í dag fyrstu gjöfina til sjúkrastofnunar í samræmi við breyttar áherslur sjóðsins. Dregið verður tímabundið úr hefðbundnum úthlutunum Pokasjóðs en fjármunir þess í stað lagðir til tækjakaupa fyrir sjúkrastofnanir landsins.Pokasjodur-afhendir-Landspitala-nyja-brjostholssja-003

Fyrsta tækið sem Pokasjóður afhen​d​ir er brjóstholssjá fyrir skurðstofur Landspítalans við Hringbraut. Tómas Guðbjartsson skurðlæknir tók við gjöfinni fyrir hönd spítalans. Fulltrúar Pokasjóðs við afhendinguna voru Bjarni Finnsson formaður stjórnar sjóðsins, Finnur Árnason forstjóri Haga, Höskuldur Jónsson fyrrverandi forstjóri ÁTVR og Ómar Valdimarsson forstjóri Samkaupa.

Brjóstholssjáin kostar um 9 milljónir króna og jafnframt er Pokasjóður verslunarinnar búinn að skuldbinda sig til að kaupa lungnatæki fyrir Landspítalann að andvirði 25 milljónir króna.

Brjóstholssjá (thoracoscope) eins og Landspítalinn fékk afhenta í dag er eitt mest notaða tækið á skurðstofunum. Brjóstholssjáin frá Pokasjóði leysir af hólmi annað af tveimur slíkum tækjum sem komin eru til ára sinna, 10 og 15 ára gömul og standast engan veginn nútímakröfur.

Þessi búnaður er mikið notaður við lungnaskurðaðgerðir, t.d. við að fjarlægja minni æxli og þegar rof verður á lunga, sýnatöku og fleira. Sama búnað má nota til kviðasjáraðgerða, t.d. fjarlægja gallblöðrur, botnlanga osfrv.  Búnaðurinn samanstendur af sérstakri sjá sem er eins konar myndavél, 10 mm breið, ljósgjafa, sjónvarpsskjám með mjög góða upplausn og  loftdælu sem getur blásið upp holrými o.fl.

Nýja brjóstholssjáin kemur til með að auka öryggi sjúklinga og gæði skurðaðgerða á Landspítalanum. Hún verður notuð við aðgerðir og rannsóknir á mörg hundruð sjúklingum á ári.

Að Pokasjóði standa eftirtalin verslunarfyrirtæki:

ÁTVR

Bónus

Hagkaup

Kaupfélag Héraðsbúa

Kaupfélag Steingrímsfjarðar, Hólmavík

Kaupfélag V-Húnvetninga, Hvammstanga

Samkaup

Þín verslun


Þetta vefsvæði byggir á Eplica