Fréttir


29. okt. 2018

Hagar hf. árshlutauppgjör Q2 // mars 2018 – ágúst 2018

Árshlutareikningur Haga hf. fyrir annan ársfjórðung 2018/19 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 29. október 2018. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2018 til 31. ágúst 2018. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf.

 

Helstu upplýsingar á fyrstu sex mánuðum rekstrarársins:

  • Hagnaður tímabilsins nam 1.436 millj. kr. eða 3,8% af veltu.

  • Hagnaður á hlut var 1,30 kr.

  • Vörusala tímabilsins nam 37.734 millj. kr.

  • Framlegð tímabilsins var 24,3%.

  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 2.376 millj. kr.

  • Heildareignir samstæðunnar námu 30.424 millj. kr. í lok tímabilsins.

  • Handbært fé félagsins nam 354 millj. kr. í lok tímabilsins.

  • Eigið fé félagsins nam 18.264 millj. kr. í lok tímabilsins.

  • Eiginfjárhlutfall var 60,0% í lok tímabilsins.

 

Rekstrarafkoma tímabilsins

Vörusala tímabilsins nam 37.734 milljónum króna, samanborið við 37.169 milljónir króna árið áður. Söluaukning tímabilsins milli ára er 1,5%. Í matvöruhluta félagsins er söluaukning 1,8% í krónum talið en seldum stykkjum hefur fækkað um 0,6%. Fjöldi viðskiptavina hefur aukist um 0,4% milli ára. Sex mánaða meðaltal vísitölu neysluverðs milli rekstrarára hefur hækkað um 2,49% en hækkun vísitölunnar án húsnæðis var 0,57%. Vísitala innkaupa í erlendum gjaldmiðlum, þar sem vegnar eru innkaupamyntir Haga, sýnir veikingu íslensku krónunnar, eða um 3,5% á samanburðartímabilinu.

Framlegð félagsins var 9.155 milljónir króna, samanborið við 9.197 milljónir króna árið áður eða 24,3% framlegð samanborið við 24,7% á fyrra ári. Rekstrarkostnaður í heild lækkar um 37 milljónir króna eða 0,5% milli ára en kostnaðarhlutfallið lækkar úr 18,6% í 18,2%. Á tímabilinu eru gjaldfærðar 53 milljónir króna vegna kaupa félagsins á Olíuverzlun Íslands. Þá var einnig gjaldfært á tímabilinu 50 milljónir króna vegna tapaðra viðskiptakrafna í heildsöluhluta félagsins.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 2.376 milljónum króna, samanborið við 2.378 milljónir króna árið áður. EBITDA-hlutfall var 6,3%, samanborið við 6,4% árið áður.

Hagnaður tímabilsins eftir skatta nam 1.436 milljónum króna, sem jafngildir 3,8% af veltu en hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 1.532 milljónir eða 4,1% af veltu.

  

Efnahagsreikningur og sjóðstreymi tímabilsins

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 30.424 milljónum króna. Fastafjármunir voru 20.237 milljónir króna og veltufjármunir 10.187 milljónir króna. Þar af eru birgðir 4.569 milljónir króna en birgðir voru 4.319 milljónir króna ári áður.

Eigið fé félagsins var 18.264 milljónir króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 60,0%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 12.160 milljónir króna, þar af voru langtímaskuldir 2.550 milljónir króna.

Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 2.023 milljónum króna, samanborið við 1.296 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 377 milljónir króna og fjármögnunarhreyfingar 1.514 milljón króna en þar af voru 1.129 milljónir króna vegna arðgreiðslu. Handbært fé í lok tímabilsins var 354 milljónir króna, samanborið við 2.188 milljónir króna árið áður.

 

Staðan og framtíðarhorfur

Fyrri helmingur rekstrarársins hefur staðist væntingar og verið í takti við áætlanir félagsins. EBITDA áætlun stjórnenda fyrir rekstrarárið er óbreytt eða 5.000 milljónir króna. Útgefin fjárfestingaráætlun var 1.800-2.000 milljónir króna. Gera má ráð fyrir að sú áætlun lækki um 600 milljónir króna og færist fram á nýtt rekstrarár vegna fjárfestingar félagsins í nýrri verslun Bónus í Mosfellsbæ.

Undanfarið hefur verið unnið að nýrri verslun Bónus í Skeifunni 11 en fyrirhugað er að flytja verslunina úr Faxafeni yfir í hið nýja húsnæði. Stefnt er að opnun 1. desember nk. en hin nýja verslun verður um 1.200 fermetrar að stærð. Þá var fyrirhugað að flytja verslun Bónus í Mosfellsbæ nú á haustmánuðum í nýtt húsnæði en ljóst er að vegna ófyrirsjáanlegra atvika mun það verkefni frestast fram á nýtt rekstrarár.

Þann 11. september 2018 var undirrituð sátt milli Haga hf. og Samkeppniseftirlitsins vegna kaupa Haga hf. á öllu hlutafé í Olíuverzlun Íslands hf. og fasteignafélaginu DGV ehf. en kaupsamningur var undirritaður í apríl 2017. Samruninn kemur þó ekki til framkvæmda fyrr en skilyrði fyrir sölu eigna hafa verið uppfyllt og Samkeppniseftirlitið hefur metið hæfi kaupenda eignanna. Í kjölfar sáttarinnar skipaði Samkeppniseftirlitið óháðan kunnáttumann til að skila áliti sínu á hæfi kaupenda eignanna. Hann hefur nú skilað áliti sínu en megin niðurstöður eru þær að kaupendur uppfylli öll skilyrði sáttarinnar og séu þar með hæfir kaupendur eignanna. Nú liggur fyrir Samkeppniseftirlitinu að meta umrædda kaupendur en vonir Haga standa til þess að því hæfismati verði lokið í síðasta lagi um miðjan nóvember.

Í síðustu viku tilkynnti Bónus að verslunin hætti sölu á plastburðarpokum og hefur tekið inn lífniðurbrjótanlega burðarpoka sem leysa plastpokana af hólmi. Að því tilefni var ákveðið að gefa viðskiptavinum fyrirtækisins 100.000 fjölnota burðarpoka án endurgjalds. Hagkaup mun fylgja fordæmi Bónus innan tíðar.

Á tímabilinu hófst innleiðing sjálfsafgreiðslulausna. Búið er að taka í notkun 8 sjálfsafgreiðslukassa í Bónus Smáratorgi og mun sama lausn verða tekin í notkun í Hagkaup Garðabæ á næstunni. Þá er gert ráð fyrir sjálfsafgreiðslulausn í nýrri verslun Bónus í Skeifunni 11.

 

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn þriðjudaginn 30. október kl. 8:30 í Skeifunni 11, þar sem fyrirhuguð er opnun Bónusverslunar 1. desember nk. Þar mun Finnur Árnason, forstjóri Haga, kynna afkomu félagsins og svara spurningum ásamt stjórnendum félagsins.

 

Kynningarefni, ásamt upptöku af fundinum, verður aðgengilegt að honum loknum á heimasíðu Haga, www.hagar.is.

 

Fjárhagsdagatal 2018/19

 

3. ársfjórðungur (1. mars – 30. nóvember): 15. janúar 2019

4. ársfjórðungur (1. mars – 28. febrúar): 16. maí 2019

 

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.


Árshlutareikningur

Fréttatilkynning


Þetta vefsvæði byggir á Eplica