Fréttir


28. jún. 2018

Hagar hf. árshlutauppgjör Q1 // mars - maí 2018

Árshlutareikningur Haga hf. fyrir fyrsta ársfjórðung 2018/19 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 28. júní 2018. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2018 til 31. maí 2018. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Endurskoðendur félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf., hafa hvorki endurskoðað né kannað reikninginn.

 

Helstu upplýsingar

  • Hagnaður tímabilsins nam 728 millj. kr. eða 3,9% af veltu.

  • Hagnaður á hlut var 0,66 kr.

  • Vörusala tímabilsins nam 18.592 millj. kr.

  • Framlegð tímabilsins var 24,7%.

  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 1.193 millj. kr.

  • Heildareignir samstæðunnar námu 30.312 millj. kr. í lok tímabilsins.

  • Handbært fé félagsins nam 373 millj. kr. í lok tímabilsins.

  • Eigið fé félagsins nam 18.685 millj. kr. í lok tímabilsins.

  • Eiginfjárhlutfall var 61,6% í lok tímabilsins.

 

Rekstrarafkoma fyrsta ársfjórðungs

Vörusala tímabilsins nam 18.592 milljónum króna, samanborið við 19.048 milljónir króna árið áður. Sölusamdráttur tímabilsins milli ára er 2,4%. Í matvöruhluta félagsins er sölusamdráttur 2,8% í krónum talið en 3,8% í stykkjum. Fjölda viðskiptavina hefur fækkað um 1,5% milli ára. Þriggja mánaða meðaltal vísitölu neysluverðs milli rekstrarára hefur hækkað um 2,34% en lækkun vísitölunnar án húsnæðis var 0,10%. Vísitala innkaupa í erlendum gjaldmiðlum, þar sem vegnar eru innkaupamyntir Haga, sýnir veikingu íslensku krónunnar, eða um 3,2% á samanburðartímabilinu.

Framlegð félagsins var 4.592 milljónir króna, samanborið við 4.736 milljónir króna árið áður eða 24,7% framlegð samanborið við 24,9% á fyrra ári. Rekstrarkostnaður í heild lækkar um 58 milljónir króna eða 1,7% milli ára en kostnaðarhlutfallið hækkar úr 18,4% í 18,6%.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 1.193 milljónum króna, samanborið við 1.277 milljónir króna árið áður. EBITDA-hlutfall var 6,4%, samanborið við 6,7% árið áður.

Hagnaður tímabilsins eftir skatta nam 728 milljónum króna, sem jafngildir 3,9% af veltu en hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 850 milljónir eða 4,5% af veltu.

 

Efnahagsreikningur og sjóðstreymi fyrsta ársfjórðungs

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 30.312 milljónum króna. Fastafjármunir voru 20.323 milljónir króna og veltufjármunir 9.989 milljónir króna. Þar af eru birgðir 4.845 milljónir króna en birgðir voru 4.393 milljónir króna ári áður. Birgðir hafa því hækkað um 452 milljónir króna milli ára.

Eigið fé félagsins var 18.685 milljónir króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 61,6%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 11.627 milljónir króna, þar af voru langtímaskuldir 2.743 milljónir króna.

Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 550 milljónum króna, samanborið við 1.090 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 207 milljónir króna og fjármögnunarhreyfingar 192 milljónir króna. Handbært fé í lok tímabilsins var 373 milljónir króna, samanborið við 3.027 milljónir króna árið áður. Handbært fé hækkaði um 151 milljónir króna á tímabilinu.


Staðan og framtíðarhorfur

Fyrsti ársfjórðungur var í takti við áætlanir félagsins. Horfur næstu mánaða gera ráð fyrir að áætlanir standist og er því áætlun stjórnenda sem gefin var út fyrir rekstrarárið 2018/19 óbreytt en eins og fram kom samhliða birtingu ársuppgjörs félagsins er gert ráð fyrir að EBITDA samstæðunnar verði um 5.000 milljónir króna. Fjárfestingaáætlun er einnig óbreytt eða um 1.800-2.000 milljónir króna.

Eins og fram hefur komið undirritaði félagið samning um kaup á öllu hlutafé í Olíuverzlun Íslands hf. og DGV ehf. þann 26. apríl 2017. Enn er beðið eftir niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins en unnið hefur verið að því síðustu misseri að leggja fram tillögur í málinu sem nægi til að leysa úr öllum þeim samkeppnislegu vandamálum sem annars leiði af samrunanum að mati Samkeppniseftirlitsins. Málinu getur því enn lokið með setningu skilyrða fyrir samrunanum eða ógildingu hans.

 

Fjárhagsdagatal 2018/19

2. ársfjórðungur (1. mars – 31. ágúst): 29. október 2018

3. ársfjórðungur (1. mars – 30. nóvember): 15. janúar 2019

4. ársfjórðungur (1. mars – 28. febrúar): 16. maí 2019

 

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.

Árshlutareikningur

Fréttatilkynning


Þetta vefsvæði byggir á Eplica