Fréttir


8. mar. 2018

Save the Children á Íslandi

Á dögunum afhentu F&F og Hagkaup Barnaheillum – Save the Children á Íslandi styrk í fjáröflunarátakið Jólapeysuna til stuðnings verkefna samtakanna í þágu sýrlenskra barna.

Verslanirnar lögðu fjáröflunarátakinu lið með því að gefa 10% af söluandvirði jólapeysa til átaksins. Alls voru seldar hátt í 4.000 peysur í verslunum F&F og Hagkaupa og safnaðist þar með rúmlega 1,2 milljón króna til verkefnisins.

Jólapeysan er fjáröflunarátak Barnaheilla þar sem safnað er fyrir betri heimi fyrir sýrlensk börn sem hafa þolað hörmungar vegna stríðsins í Sýrlandi og búa við erfiðar aðstæður innan og utan Sýrlands.

Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla segir að styrkurinn komi sér afar vel: „Við erum mjög þakklát fyrir þennan höfðinglega stuðning frá F&F og Hagkaup. Sá raunveruleiki sem fjöldi sýrlenskra barna býr víða við er skelfilegur og stuðningur getur skipt sköpum, sérstaklega núna þegar það vetur og hitastig fer niður fyrir frostmark.“

„Hjá F&F fundum við fyrir mikilli ánægju meðal okkar viðskiptavina að geta styrkt gott málefni um leið og þeir fengu jólapeysur,“ segir Olga Gunnarsdóttir, rekstrarstjóri F&F.

Barnaheill – Save the Children útvegar sýrlenskum börnum og fjölskyldum þeirra í og við Sýrland vatn, mat, lyf, teppi og hlífðarfatnað auk þess að veita víðtækan stuðning á fjölda móttökustöðva í Evrópu.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica