Fréttir


12. jan. 2016

Hagar hf. árshlutauppgjör Q3 // mars 2015 – nóvember 2015

Árshlutareikningur Haga hf. fyrir þriðja ársfjórðung 2015/16 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 12. janúar 2016. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2015 til 30. nóvember 2015. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur hvorki verið kannaður né endurskoðaður.

Helstu upplýsingar

  • Hagnaður tímabilsins nam 2.831 millj. kr. eða 5,0% af veltu.

  • Vörusala tímabilsins nam 57.177 millj. kr.

  • Framlegð tímabilsins var 24,5%.

  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 4.141 millj. kr.

  • Heildareignir samstæðunnar námu 29.728 millj. kr. í lok tímabilsins.

  • Handbært fé félagsins nam 2.727 millj. kr. í lok tímabilsins.

  • Eigið fé félagsins nam 15.604 millj. kr. í lok tímabilsins.

  • Eiginfjárhlutfall var 52,5% í lok tímabilsins.

Söluaukning félagsins var 0,7% á tímabilinu

Vörusala tímabilsins nam 57.177 milljónum króna, samanborið við 56.763 milljónir króna árið áður. Söluaukning félagsins var 0,7%. Hækkun 9 mánaða meðaltals vísitölu neysluverðs milli rekstrarára var 1,77% en hækkun vísitölunnar án húsnæðis var 0,28%. Afnám vörugjalda um áramótin 2014/15 hefur áhrif á söluvöxt. Framlegð félagsins var 13.985 milljónir króna, samanborið við 13.687 milljónir króna árið áður eða 24,5% framlegð samanborið við 24,1% á fyrra ári. Framlegð hækkar um 298 milljónir króna milli ára. Hins vegar hækkar rekstrarkostnaður í heild um 393 milljónir króna eða 4,1% milli ára.  Rekstrarkostnaður hækkar því um 95 milljónir króna umfram framlegðaraukningu á tímabilinu og kostnaðarhlutfallið hækkar úr 16,9% í 17,4%.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 4.141 milljónum króna, samanborið við 4.186 milljónir króna árið áður. EBITDA framlegð var 7,2%, samanborið við 7,4% árið áður.

Hagnaður tímabilsins fyrir skatta nam 3.539 milljónum króna, samanborið við 3.560 milljónir króna árið áður. Hagnaður eftir skatta nam 2.831 milljónum króna á tímabilinu, sem jafngildir 5,0% af veltu en hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 2.848 milljónir.

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 29.728 milljónum króna. Fastafjármunir voru 15.960 milljónir króna og veltufjármunir 13.768 milljónir króna. Þar af eru birgðir 6.332 milljónir króna en birgðir voru 6.100 milljónir króna ári áður.

Eigið fé félagsins var 15.604 milljónir króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 52,5%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 14.124 milljónir króna, þar af voru langtímaskuldir 4.916 milljón króna.

Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 3.871 milljónum króna, samanborið við 3.055 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 1.938 milljónir króna, þar af 1.012 milljónir króna vegna fasteignaverkefna. Fjármögnunarhreyfingar tímabilsins voru 2.554 milljónir króna og þar af voru 1.992 milljónir króna vegna arðgreiðslu í júní sl. Handbært fé í lok tímabilsins var 2.727 milljónir króna, samanborið við 3.010 milljónir króna árið áður.

Staðan og framtíðarhorfur

Þriðji ársfjórðungur Haga, sem lauk 30. nóvember sl., var góður og umfram áætlanir félagsins en hagnaður jókst um 15,3% milli ára. Drög að uppgjöri desembermánaðar lítur vel út og er niðurstaðan betri en á fyrra ári. Janúarútsölur fara hægt af stað en áætlanir félagsins gera ráð fyrir sambærilegum horfum og á fyrra ári fyrir þá mánuði sem eftir lifa rekstrarársins.

Framkvæmdir við byggingu nýs vöruhúss Banana er á áætlun og mun félagið flytja starfsemi sína í hið nýja húsnæði fyrir lok rekstrarársins.

Í byrjun desember skrifaði félagið undir kaupsamning um allt hlutafé í Gargon ehf. Eina eign Gargon er fasteignin Smiðjuvöllum 32 Akranesi, þar sem verslun Bónus er til húsa.

Í lok desember skrifaði Hagkaup undir nýjan leigusamning við Smáralind. Verslunin verður um 5.600 m2 og er samningurinn til 10 ára. Ekki hefur náðst samningur um framtíð Debenhams í verslunarmiðstöðinni en áfram er unnið í þeim málum. Samningurinn rennur út í lok árs 2016.

Fjárhagsdagatal 2015/16

4. ársfjórðungur (1. mars – 29. feb): 12. maí 2016

Aðalfundur 3. júní 2016

 

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.

Árshlutareikningur

Fréttatilkynning

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica