Fréttir


28. júl. 2013

Jóhannes Jónsson, stofnandi Bónus er fallinn frá

Jóhannes Jónsson, stofnandi Bónus er látinn 72 ára að aldri. Hann lést á Landspítalanum að morgni laugardagsins 27. júlí eftir stutta sjúkrahúsvist.

Jóhannes var fæddur þann 31. ágúst 1940. Hann lætur eftir sig eiginkonu, tvö börn, tvö stjúpbörn og fimm barnabörn.DSC_1765-1_2   Banamein hans var krabbamein, en hann hafði glímt við sjúkdóminn frá árinu 2010.

Jóhannes byrjaði ungur að vinna hjá föður sínum í matardeild Sláturfélags Suðurlands og tók síðar við sem verslunarstjóri þar og sinnti því starfi í á annan áratug. Jóhannes lærði prentiðn, en kaupmennska var hans ævistarf.  Árið 1989 stofnaði Jóhannes verslanir Bónus ásamt fjölskyldu sinni.  Tilkoma Bónus var bylting fyrir neytendur.  Fyrsta Bónusverslunin var opnuð í 400 fermetra húsnæði við Skútuvog laugardaginn 8. apríl 1989. Jóhannes sagði í DV við það tækifæri: „Verslunin nefnist Bónus og dregur nafn sitt af þeim afslætti sem veittur verður af öllum vörum.”  Kappkostað var að hafa aðeins algengustu vöruflokkana og innréttingar einfaldar og ódýrar. Í Bónus var í fyrsta sinn lesið af strikamerkjum við kassana og ekki tekið við krítarkortum.  Þar að auki var tekin ákvörðun um það frá fyrstu tíð í Bónus að staðgreiða allar vörur frá heildsölum. Vöruveltan var mikil og með opnunartímanum og lágum tilkostnaði í versluninni var hægt að bjóða mun lægra verð en áður hafði þekkst.  Ekki þarf að fara mörgum orðum um viðtökur landsmanna. Þær voru í einu orði sagt frábærar enda vöruverð strax miklu lægra í nýju versluninni og Jóhannes ötull baráttumaður verslunarfrelsis og bættra kjara heimilanna. Verslunum Bónus fjölgaði eftir því sem árin liðu, enda vinsældir þeirra miklar, þar sem með tilkomu þeirra lækkaði verðlag umtalsvert.  Stefna Bónus hefur frá upphafi verið að bjóða sama vöruverð um land allt og stóð Jóhannes fast að baki þeirri stefnu. 

Þáttur Jóhannesar í verslunarsögu landsins er merkur og hann hefur markað djúp spor.  Hann gjörbylti verslun hér á landi með dagvörur og var framsýnn, enda fylgdist hann ávallt vel með því sem gerðist á þessu sviði í nágrannalöndum okkar.  Hann færði heimilum landsins verulegar kjarabætur með stofnun Bónus.

Fyrrum samstarfsfólk Jóhannesar kveður nú góðan félaga með söknuði og þakklæti fyrir skemmtilegan og lærdómsríkan tíma og sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica