Fara á efnissvæði
Til baka

Hagar undirrita viljayfirlýsingu um uppbyggingu og rekstur öflugs fasteignaþróunarfélags með Klasa ehf. og Reginn hf.

Hagar hf., Reginn hf., Klasi ehf. og KLS eignarhaldsfélag ehf. hafa í dag, 24. september 2021, undirritað viljayfirlýsingu um uppbyggingu og rekstur öflugs fasteignaþróunarfélags. Viljayfirlýsingin er gerð í tengslum við fyrirhuguð kaup Haga og Regins á nýju hlutafé í fasteignaþróunarfélaginu Klasa. Samkvæmt viljayfirlýsingunni er áætlað að eignarhlutur hvers eiganda um sig, þ.e. Haga, Regins og KLS eignarhaldsfélags, núverandi eiganda Klasa, verði um 1/3 af útgefnu hlutafé.

Í eignasafni Haga liggja þróunareignir sem bjóða upp á margvísleg tækifæri til frekari verðmætasköpunar, en það er mat Haga að slíkt verði best gert með aðila sem býr að sérhæfðri reynslu og þekkingu á sviði fasteignaþróunar og uppbyggingar. Hagar hafa því, ásamt Reginn, ákveðið að ganga til samninga við núverandi eigendur Klasa um að ganga í eigendahóp félagsins og byggja upp öflugt fasteignaþróunarfélag sem býr að mikilli fagþekkingu.

Hagar og Reginn munu greiða fyrir eignarhlut sinn með þróunareignum. Á meðal eigna Haga sem um ræðir má nefna þróunarreit í Mjódd, þ.e. Álfabakka 7 og Stekkjarbakka 4-6, og á atvinnusvæði Sundahafnar, þ.e. Klettagarða 27. Samhliða fyrirhugaðri fjárfestingu Haga og Regins í fasteignaþróunarfélaginu Klasa mun Klasa verða skipt upp þannig að eldri verkefni Klasa, sem ekki teljast til þróunarverkefna, færast í annað félag sem stendur utan fyrirhugaðra viðskipta. Áætluð verðmæti undirliggjandi fjárfestingareigna Klasa eftir fyrirhuguð viðskipti verða um 15 ma.kr. Gert er ráð fyrir að eiginfjárhlutfall félagsins í upphafi verði um 70%.

Hagar hf. er samstæða fyrirtækja sem starfar á íslenskum matvöru-, sérvöru- og eldsneytismarkaði. Á meðal fyrirtækja Haga eru Bónus, Hagkaup og Olís. Hagar hafa lagt áherslu á að eignast fasteignir sem tengjast kjarnastarfsemi en auk þess hefur félagið eignast lóðir og fasteignir sem hentugar eru til frekari þróunar. Undanfarið ár hafa verið mótaðar áherslur í rekstri og stefnu félagsins til lengri tíma litið. Einblínt verður á kjarnastarfsemi og verður lögð áhersla á það sem félagið gerir best, annars vegar starfsemi á dagvörumarkaði og hins vegar á markaði með eldsneyti. Fasteignaþróun er hins vegar ekki hluti af kjarnastarfsemi Haga. Undirritun Haga á viljayfirlýsingu þessa er því í samræmi við nýmótaða stefnu félagsins og miðar að því að verðmætum eignum verði komið í farveg hjá aðilum sem hafa sérþekkingu og reynslu af uppbyggingu og þróun fasteigna. Þá er einnig gert ráð fyrir að þátttaka í uppbyggingu Klasa fasteignaþróunarfélags stuðli að því að markmið og skilyrði í samningum Haga og Olís við Reykjavíkurborg um fækkun bensínstöðva og fyrirhugaða uppbyggingu á þróunarreitum náist fyrr og á hagkvæmari hátt.

Fyrirhuguð viðskipti eru gerð m.a. með fyrirvörum um niðurstöður áreiðanleikakönnunar og um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Klasi ehf. er  þekkingarfyrirtæki í þróun fasteigna. Frá stofnun árið 2004 hefur félagið komið að fjölda viðamikilla fasteignaþróunar- og framkvæmdaverkefna með góðum árangri.

Reginn hf. er fasteignafélag sem fjárfestir í, leigir út og annast rekstur á atvinnuhúsnæði.

Ráðgjafi Haga hf. í viðskiptunum er Arctica Finance hf.

Nánari upplýsingar veitir Finnur Oddsson, forstjóri Haga, fo@hagar.is.