Fara á efnissvæði
Til baka

Frosti Ólafsson ráðinn framkvæmdastjóri Olís

Frosti Ólafsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Olíuverzlunar Íslands ehf. og mun hefja störf þann 3. september næstkomandi.

Frosti býr að víðtækri reynslu sem stjórnandi og ráðgjafi, hérlendis og erlendis, og hefur á síðustu árum m.a starfað sem forstjóri ORF líftækni og framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. Áður starfaði Frosti sem ráðgjafi hjá ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Company þar sem hann vann að stefnumótun, rekstrargreiningum og umbreytingarverkefnum fyrir fjölda alþjóðlegra stórfyrirtækja. Þá hefur hann jafnframt setið í stjórnum ýmissa íslenskra fyrirtækja.  Frosti hefur lokið MBA námi frá London Business School og B.Sc. í hagfræði frá Háskóla Íslands.

„Frosti býr að víðtækri og farsælli reynslu af fyrirtækjarekstri, stefnumótun og umbreytingarverkefnum, bæði hér heima fyrir og erlendis.  Hann þekkir einnig vel til starfsemi Olís og Haga eftir þátttöku í stefnumótunarvinnu á vegum félaganna síðustu misserin.  Það er því sérlega ánægjulegt að fá Frosta til liðs við öflugt teymi hjá Olís, til að takast á við fjölbreytt og áhugaverð verkefni sem bíða félagsins. Það eru spennandi tímar framundan á eldsneytis- og þægindamarkaði, m.a. vegna orkuskipta og breyttrar neysluhegðunar viðskiptavina.  Við bjóðum Frosta velkominn í hópinn og hlökkum til samstarfsins.“ segir Finnur Oddsson forstjóri Haga.

„Olís er öflugt og rótgróið félag sem hefur spilað mikilvægt hlutverk á íslenskum eldsneytismarkaði í tæpa öld. Það er spennandi tækifæri að fá að leiða þetta sögufræga félag í gegnum þær miklu breytingar sem nú eiga sér stað á eldsneytis- og þægindamarkaði. Ég hef fengið að kynnast Olís og Haga samstæðunni í gegnum ráðgjafastörf mín á undanförnum misserum og það er ljóst að starfsemin byggir á sterkum grunni og tækifærin framundan eru fjölþætt. Ég hlakka mikið til að hefja störf og er þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt.“  segir Frosti Ólafsson nýr framkvæmdastjóri Olís.